Jóhanna Björnsdóttir, Anna Júlíusdóttir og Sveinbjörg Jónsdóttir stofnendur og eigendur Gott og blessað verða hjá Sjöfn Þórðar í þættinum Matur & Heimili á mánudagskvöld
Um land allt er mikil gróska í matvælaframleiðslu hjá bændum, garðyrkjubændum og smáframleiðendum þar sem hráefnin eru fyrsta flokks og gæðin í fyrirrúmi. Margir hafa lagt leið sína um langan veg til að nálgast nýja uppskeru, sælkera afurðir beint frá býli eða nýbökuð handverksbrauð frá ástríðu bökurum um land allt. Nú í fyrsta skipti munu matgæðingar og allir þeir sem vilja velja sér séríslenskar afurðir og uppskeru geta pantað afurðirnar í gegnum netið. Gott og blessað er nýtt frumkvöðlafyrirtæki sem sérhæfir sig í að miðla þessum afurðum og vörum til neytanda.
Vefverslunin og kjörbúðin Gott & blessað var opnuð á dögunum og sneisafull af sælkerakræsingum. Gott og blessað er bæði vefverslun og markaðstorg á netinu sem sérhæfir sig í því að selja vörur íslenskra smáframleiðenda, og tryggir þannig aðgengi neytenda að góðum íslenskum matvælum með beinum og markvissum hætti.Vinkonurnar Jóhanna Björnsdóttir, Anna Júlíusdóttir og Sveinbjörg Jónsdóttir eru stofnendur og eigendur þessa nýja fyrirtækis Gott og blessað. Sjöfn Þórðar heimsækir þær stöllur í þættinum Matur & Heimili og fær innsýn í starfsemina og hvað verður þar í boði. „Í vöruhúsi Gott og blessað verður einnig lítil kjörbúð að Flatahrauni 27 Hafnarfirði þar sem hægt er að koma og versla beint,“ segir Jóhanna.
„Ætlunin er að viðskiptavinir okkar geti notið þess að para saman sælkerakræsingar beint frá býli, íslenska framreiðslu og jafnvel íslenskt handverk til að framreiða kræsingarnar á,“ segir Jóhanna Björnsdóttir og er full tilhlökkunnar fyrir framtíðinni. „Hægt verður að versla ýmsa matvöru sem fólk hefur hingað til þurft að sækja heim á hlað til bænda og smáframleiðanda,“ segja þær stöllur Jóhanna og Sveinbjörg.
Á vefnum geta viðskiptavinir þá valið við hvaða bónda eða framleiðanda er verslað af. Svo er pöntunin ýmist send heim að dyrum eða á næsta pósthús. Einnig verður hægt að sækja pöntunina í vöruhús fyrirtækisins. „Í mörgum tilvikum eru þetta vörur sem hafa ekki verið fáanlegar í matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Sveinbjörg.
„Við viljum gefa viðskiptavinum okkar tækifæri á því að tryggja sér gæðavöru úr íslensku hráefni og styðja þannig við okkar frábæru smáframleiðendur, stuðla að sjálfbærni Íslendinga í matvælaframleiðslu og minnka kolvetnissporið og matarsóun.”
„Þeir sem vilja sækja pöntunina sína til okkar verða fyrir skemmtilegri upplifun því vörurnar verða afhentar í lítilli kjörbúð. Kjörbúðin verður smekkfull af ýmsum fallegum matvörum sem hægt er að kaupa á staðnum ef viðskiptavinurinn vill bæta einhverju við pöntunina. Spennandi innlit framundan í þættum sem kætir bragðlaukana.
Þátturinn Matur & Heimili er á dagskrá öll mánudagskvöld klukkan 20.30 og er að jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.