Sælkera „take away“ veislur heim í stofu að hætti Hrefnu Sætran

Eins og hefur verið mikið í umræðunni hafa veitingahús borgarinnar þuft að aðlaga sig breyttum venjum og siðum viðskiptavina og sóttvarnarreglum í ljósi Covid 19 faraldursins. Við heimsóttum Hrefnu Rósu Sætran kokk og einn af eigendum Fiskmarkaðarins og Grillmarkaðarins.

Flottar „take away“ veislur heim í stofu

„Þetta er orðið allt öðruvísi í dag en það var fyrir bara nokkrum mánuðum og við höfum breytt mjög miklu. Til að mynda þá erum við búin að opna alla virka daga í hádeginu á Fiskmarkaðnum aftur sem var og er mjög vinsælt að koma til í okkar í sushi í hádeginu. Svo erum við komin með flottar „take away“ veislur á báðum stöðum sem við erum búin að þróa. Maturinn þarf nefnilega að ferðast vel og vera góður þótt hann sé ekki jafn heitur og á veitingahúsi. Svo við pældum mikið í því hvað ferðast vel og er gott eftir 20-40 mínútur í bíl. Við bjóðum líka upp á heimsendingu í samstarfi við BSR sem er mun ódýrara en venjulegur leigubíll.“

Sushi- og BBQ veislur sem hitta í mark

Oft er það svo að sumir réttir eru vinsælli en aðrir og eru í uppáhaldi hjá föstum viðskiptavinum. „Á Fiskmarkaðnum er það sushi-ið og svo er fólk að taka með rétti sem er gott að narta í inn á milli sushi bitanna. Svona tempura, salat og þannig. Tilboð A og B er líka mjög vinsælt en þá færðu sushi og smárétti saman sem við erum búin að velja. Á Grillmarkaðnum þá erum við með Grillveislu sem er beint af matseðlinum nokkrir réttir saman til að deila og svo er það BBQ veislan sem er lang vinsælust en það eru rif, hamborgari, vængir og steik og fleira sem er fullkomið í take away.“

En með hverju myndi Hrefna sjálf mæla með fyrir fjölskyldu sem vilja fá sælkera veislu heim að dyrum. „Ég mundi mæla með að taka svona tilboð og pakka. Svo er minnsta málið að ræða við þjónana sem eru þaulvanir að aðstoða fólk við að panta mat um hvernig þið eruð samansett þetta kvöldið og fá ráðleggingu með hvað á að panta.“

„Það er alltaf best að panta með fyrirvara, nokkra klukkutíma eða jafnvel dags en það er alls ekki nauðsynlegt. Má hringja bara þegar ykkur hentar en ef þið viljið að þetta sé tilbúið klukkan t.d. 19:00 þá mæli ég með að hringja fyrr en seinna. Það er dáltið svona icelandic style að hringja bara rétt áður svo við erum alveg vön því en German style væri betra fyrir skipulagi á staðnum.“

M&H Sushi veisla heim að hætti Fiskmarkaðarins.jpg

Sushi veisla að hætti Fiskmarkaðarins.

Ætla að halda áfram að bjóða upp á „take away“ enda góð viðbót við flóruna

Hrefna er virkilega ánægð með undirtektirnar og segir að það sé gaman að sjá hversu vel er tekið í þessa nýbreytni. „Undirtektirnar hafa verið frábærar og erum við mjög þakklát fyrir það. Fólk er mjög ánægt með matinn og þjónustuna. Við munum klárlega halda þessu áfram þegar allt verður orðið eðlilegra aftur því þetta er bara góð viðbót að bjóða upp á fyrir kúnnana,“ segir Hrefna og horfir björtum augum til framtíðarinnar.

Hrefna Sætran .jpeg

Hrefna Rósa Sætran sjónvarpskokkur, matgæðingur og höfundur uppskriftabóka með meiru.