Sælkera ísbúð Omnom með metnaðarfyllstu og frumlegustu ísrétti sem sést hafa

Kjartan Gíslason súkkulaðigerðarmaður og annar stofnenda súkkulaðiverksmiðjunnar Omnom verður hjá Sjöfn Þórðar í þættinum Matur og Heimili í kvöld:

Súkkulaðiverksmiðjan Omnom opnaði á dögunum nýja sælkera ísbúð á Hólmaslóð út á Granda. Omnom er þekkt fyrir súkkulaðiframleiðslu sína, þar sköpunargleðin hefur verið í fyrirrúmi og göldruð hefur verið fram girnileg súkkulaðistykki og ýmis konar góðgæti sem súkkulaðiunnendur hafa ekki staðist. Nú hefur sköpunargleðin tekið enn stærra stökk þar sem fólkið í súkkulaðigerðinni er farið að skapa og framleiða lokkandi íssósur, ýmis konar góðgæti með ísnum og töfrað fram föngulega ísrétti sem gleðja bæði bragðlaukana og augun.

Omnom 1.jpg

Sjöfn Þórðar heimsækir Kjartan Gíslason súkkulaðigerðarmann og annan stofnenda Omnom í nýju ísbúðina og fær að heyra um tilurð ísbúðarinnar. Kjartan ætlar jafnframt að töfra fram ísréttina sem eru hver öðrum girnilegri fyrir áhorfendur. „Ísréttirnir eru eins konar millistig á milli desserta og bragðarefs.“ segir Kjartan og nefnir jafnframt að sköpunargleði og tilraunastarfsemi muni ráða ríkjum við ísgerðina enda séu möguleikarnir óþrjótandi þegar súkkulaði og ís eru annars vegar.

Missið ekki af Kjartani við gerð ísréttana frá Omnom sem fanga auga og munn.

Þátturinn Matur & Heimili verður á dagskrá í kvöld klukkan 20.30 og er að jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.

Omnom.jpg

Kolkrabbinn, þvílíkt listaverk, bæði fyrir auga og munn.

Omnom 2.jpg

Gyllti svanurinn. Sköpunargleðin í fyrirrúmi og nöfn ísréttanna lýsandi fyrir hvern ísrétt.