Sækjum kjarabætur til brussel

Ný forysta launþegahreyfingarinnar á Íslandi talar nú um að húsnæðismál og vaxtaokur séu helstu mál komandi kjarasamninga. Svo virðist sem verkalýðsleiðtogar beini spjótum sínum ekki síður að ríkisstjórninni en vinnuveitendum. Talað er um að gera þurfi risaátak til að byggðar verði mörgþúsund íbúðir fyrir þá verst settu á húsnæðismarkaði og þá er krafist áþreifanlegra vaxtalækkana. Einnig eru gerðar kröfur um lækkaða skatta hinna tekjulægstu, auknar bætur til öryrkja og aldraðra, auk hækkaðra vaxtabóta og barnabóta. Kröfur sem snúa að vinnuveitendum eru hefðbundnari; launahækkanir og stytting vinnuviku. Nefnd hefur verið hugmynd um hækkun lágmarkslauna úr 300 þúsund krónum í 420.000 krónur í áföngum. Þar er um að ræða 42% hækkun. Þá vilja menn stytta vinnuvikuna um 10% að þessu sinni án þess að það hefði skerðingu launa í för með sér!

 

Ljóst má vera að engin leið er að koma til móts við þessar kröfur nema að litlu leyti. Ef ríkissjóður ætti að mæta þeim kröfum sem til hans er beint, þá færi ríkissjóður í bullandi mínus nema ráðist væri í hrikalegar skattahækkanir sem hefðu margháttaðar afleiðingar í för með sér. Þá er vert að hafa í huga að ríkisstjórnin getur ekki ákveðið vexti í landinu en hátt vaxtastig er ein mesta ógn almennings. Stýrivextir Seðlabanka Íslands eru nú 4.5% og leiða til vaxtaokurs hjá almenningi og litlum eða miðlungs fyrirtækjum. Öll stóru fyritækin eru með lán sín í erlendri mynt og borga evruvexti eða dollaravexti sem eru mun lægri. Tilvist íslensku krónunnar leiðir stórkostlega mismunun yfir þjóðina. Þeir sem geta bjargað sér frá krónunni taka lán sín í erlendri mynt en almenningur og þorri fyrirtækja þurfa að búa við okurvexti íslensku krónunnar. Meðal þeirra sem taka erlend lán og þurfa ekki að þjást vegna krónuvaxta eru sjávarútvegsfyrirtæki, stóiðja, stærri ferðaþjónustufyrirtæki, Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki svo og bankarnir.

 

Á sama tíma og brýnnt er að bæta kjör almennings, ekki síst með lækkun vaxtakostnaðar, ríghöldum við í íslensku krónuna sem átti stærstan þátt í að ýta hruninu af stað fyrir 10 árum. Það er enginn að gera neitt í því að koma á breytingum í gjaldmiðlamálum. Verkalýðshreyfingin segir að málið sé ekki á dagskrá og samtök vinnuveitenda virðast núna vera á sama máli. Ríkisstjórnin er að sjálfsögðu ekki að gera neitt enda aðhyllist hún einangrunarstefnu og hræðist útlönd og útlendinga. Þjóðernisremba einkennir stefnu núverandi ríkisstjórnar. Einnig mætti spyrja: Er stjórnarandstaðan eitthvað að gera til að koma gjaldmiðlamálum þjóðarinnar í betra horf? Ekki er að sjá mikið lífsmark með Samfylkingunni, Viðreisn og Pírötum hvað þetta varðar. Þó hafa allir þessir flokkar skilning á veikleika krónunnar og möguleikum okkar ef við fengjum alvörumynt eins og evru. Þvi er óskiljanlegt að Samfylking, Viðreisn og Píratar skuli ekki berjast af krafti í þinginu fyrir því að þessi mál fái forgang í umræðum og umfjöllun.

 

Í nýlegri skoðanakönnun kom fram að 56% Íslendinga er hlynntur upptöku evru. Þegar andstæðingar evru og ESB leggjast gegn umræðum  um gjaldmiðlamálin, þá er viðkvæðið jafnan það að allt taki þetta of langan tíma. Víst er að innganga í Evrópusambandið tekur langan tíma. En það er hægt að tengjast evru og nýta þannig kostina án þess að fara alla leið. Við höfum dæmin fyrir framan okkur. Önnur smáríki í Evrópu hafa samið um evru án þess að vera í ESB. Þar er um að ræða Svartfjallaland, Kósóvó, Vatíkanið, Mónakó, Andorra og San Marínó. Því skyldum við sem smáríki ekki geta náð samningum í líkingu við þessi ríki. Tæknilega séð gætum við tengst svokölluðu ERM2 kerfi ESB og það þyrfti ekki að taka nema eitt ár. Þá yrði íslenska krónan tengd þannig við evru að gengi hennar gæti aldrei sveiflast nema 2,25% frá henni hið mesta. Kæmi til þessa gætu vextir á Íslandi loks lækkað stórlega, almenningi og minni fyrirtækjum til mikilla hagsbóta.

 

Við getum sótt kjarabætur til Brussel. En til þess þarf að vera vilji stjórnmálamanna og vinnumarkaðarins. Það þarf dug og þrek. Menn þurfa að nenna.

 

Rtá.