Sægreifum kemur óbreytt kerfi best

Kvótakerfið hefur snúist upp í andhverfu sína miðað við markmið, því kerfið var sett á til að vernda lífæð þjóðarinnar en auðlindin er ein rjúkandi rúst í dag. Þrátt fyrir gríðarlega útfærslu landhelginnar eru veiðistrendur landsins lokaðar öllum almenningi og að auki fiskast aðeins brot af þeim þorski sem veiddist fyrir daga kvótakerfisins.

Þetta sagði Árni Gunnarsson, fv. sjómaður og fiskmatsmaður, en hann er meðlimur í Sóknarhópnum sem er gagnrýninn á kvótakerfið. Árni vill róttækar breytingar á kerfinu. Hann var gestur fréttaskýringaþáttarins KVIKAN á Hringbraut á mánudagskvöld, en þáttinn má sjá hér á vef stöðvarinnar. Ásamt honum voru Þorsteinn Sæmundsson þingmaður og Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor við HÍ, gestir þáttarins.

Þorsteinn Sæmundsson framsóknarþingmaður styður kvótakerfið. Hann segir að alls ekki sé hægt að skýra samdráttinn í þorskafla með kerfinu þótt það sé ekki gallalaust. Kerfið hafi skapað hagkvæman sjávarútveg og fiskvinnslu. Íslendingar búi nú við hagkvæmasta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi sem byggi á að útgerðin viti að hverju hún gangi. Gallarnir séu samþjöppun aflaheimilda á fáar hendur. Þorsteinn nefndi að byggð hefði oft raskast á landinu fyrir daga kvótakerfis vegna annarra breytinga í sjávarútvegi. Þannig hafi heil fiskilmjölsverksmiðja verið lögð niður á Seyðisfirði og verið flutt til á 7. áratugnum eftir breytingar með þeim afleiðingum að  Seyðisfjörður hefði lagst “í rúst”. Nú væri sú þróun í vinnslunni  að hún færðist meir og meir á höfuðborgarsvæðið og í byggðir í grennd.

Árni Gunnarsson taldi þöggun höfuðmein í umræðum um galla kerfisins. Hann tekur þar undir orð verkalýðsleiðtoga sem hafa sagt að sjómenn séu ekki frjálsir að skoðunum. Dæmi séu um valdamikla útgerðarmenn sem hafi allt að segja um hverjir fái vinnu á sjó og hverjir ekki. Árni vitnaði einnig til pólitískrar þöggunar í landi og nefndi opinn fund þar sem til stóð að ræða kerfið með gagnrýnum hætti og var fulltrúum allra flokka boðið. Tveir stólar voru auðir, stólar þingmanns Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Minna má einnig á ummæli Gísla Tryggvasonar lögmanns sem fékk synjun hjá Samherja til að heimsækja vinnslustöðvar félagsins en Gísli vildi ræða sjávarútvegsstefnu Dögunar fyrir síðustu kosningar. Gísli sagði Samherja hafa framið brot með því að loka vinnustaðnum fyrir Dögun.

Þórólfur Matthíasson hagfræðingur skrifaði doktorsritgerð um fiskveiðistjórnunarkerfi landsmanna. Hann var spurður í þættinum hvort kerfið væri gott í þjóðhagslegu tilliti. Hann spurði á móti: Gott fyrir hvern? Ef hugsað væri út frá mikilvægi þess að stjórna heildarmagni og veiða fisk með sem minnstum kostnaði væri kvótakerfið gott kerfi. Misskipting auðlindarentunnar væri annað mál, það ráðist af framkvæmd stefnunnar hvar og hvernig rentan dreifist. “Með því uppleggi sem við höfum núna fær almenningur smávegis, sjómenn smávegis en megnið af arðinum fer til eigenda útgerðarinnar, þetta er mjög gott kerfi fyrir þá,” segir dr. Þórólfur Matthíasson. Hann sagði einnig að kerfið væri ekki að skila þeim auði sem hægt væri að fá út úr því. Áhersla á hagræðingu verði til þess að margir verði að hætta veiðum og vinnslu. Grundvöllur margra sjávarútvegsbyggða hafi splundrast. að mati Þórólfs hefði kerfið átt að gera ráð fyrir að þeir sem verða fyrir tjóni fái eitthvað af arðinum til að bregðast við breytingum, að arði yfir jafnað. Það hafi ekki verið gert.

Aðspurður játaði Þórólfur því í Kvikunni á Hringbraut að of mikil áhersla sé á gamaldags atvinnugreinar hér á landi, frumframleiðsluna. Hugsa verði byggðastefnu út frá nýrri sýn og nýjum lausnum.

Þá ræddi Þórólfur tilraunir útgerðarmanna til að ráða utanríkisstefnu landsins. Þeir teldu sig hafa burði til að láta Ísland taka u-beygju í alþjóðastjórnmálum vegna makrílsins, breyta eigi gervallri stefnu landsins og samstarfi við aðrar þjóðir á einni nóttu til að skapa nokkrar krónur fyrir fisk.

Kvikan verður endursýnd síðar í vikunni á Hringbraut en þátturinn er í umsjá Björns Þorlákssonar. Hann er nú einnig kominn á vef hringbrautar og má sjá hann í heild hér.