Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum

Við brottför Birnu Einarsdóttur úr starfi bankastjóra Íslandsbanka halda eflaust einhverjir að þeir séu nú lausir allra mála. Það er mikill misskilningur.

Ljóst er að mistök voru gerð í bankanum við sölu á umræddum hlutabréfum ríkisins í bankanum. Fólk verður að átta sig á því að bankinn er þúsund manna fyrirtæki þar sem æðsti stjórnandi getur ekki verið þátttakandi í öllu sem gerist. Bankastjórinn hlýtur að hafa falið tilteknum framkvæmdastjórum að sjá um framkvæmd sölu á hlutbréfum í bankanum og svo virðist sem þeir hafi farið út af sporinu. Ber þá ekki að víkja þeim?

En málið snýst ekki um starfsfólk í bankanum. Stjórnmálamenn bera ábyrgð á því sem fór úrskeiðis. Nú eru þeir mjög uppteknir af því að koma sök á aðra og þá liggur beinast við að fella bankastjórann, enda er þar um að ræða þekktan stjórnanda í atvinnulífinu.

Það kann að vera að Birna hafi ekki gefið undirmönnum sínum nógu skýr fyrirmæli og þar með gefið höggstað á sér.

En að henni sé fórnað í þessu vandræðalega máli er bæði ósanngjarnlegt og ómálefnalegt.

Sökin liggur ofar í kerfinu. Hún byrjar hjá vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur sem tók ákvörðun um að selja 22,5 prósent af hlutafé ríkisins í bankanum. Fjármálaráðherrann, Bjarni Benediktsson, hafði framkvæmd málsins með höndum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Hann fól Bankasýslu ríkisins að hafa yfirumsjón með verkinu. Eftir niðurstöðu útboðsins var ákveðið að leggja Bankasýslu ríkisins niður. Hún er enn til. Þar eru enn fjögur störf á kostnað ríkisins við að gera nánast ekki neitt.

Bankasýslan átti vitanlega að fylgjast með útboðinu og öllu sem þar fór fram. En það gerðist ekki. Forstjórinn var að sinna öðru.

Að undanförnu hafa tvær úr ríkisstjórninni látið mjög til sín taka og í raun krafist afsagnar Birnu. Þetta eru þær Katrín Jakobsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir. Þær nota nú tækifærið til að reyna að beina athygli að öðru en þeirra fallandi flokkum. Katrín stýrir nú flokki sem er með 5,6 prósenta fylgi samkvæmt síðustu könnun Gallups og hún ber einnig á byrgð á hvalauppistandinu með samstarfskonu, Svandísi Svavarsdóttur. Þessar tvær skipa ríkisstjórnina sem ber ábyrgð á málinu.Vinstri stjórn Katrínar ber endanlega ábyrgð.

-Ólafur Arnarson