Rúv-skýrslan samin af óheilindum?

Það er gömul saga og ný að átök verða um Ríkisútvarpið. Átök öðrum meiri þegar um ræðir fjölmiðla, enda borgar almenningur brúsann af starfsemi almannaútvarspins ólíkt einkageiranum.

Fólk getur haft neikvæða skoðun á forsíðufrétt Moggans í dag, en af því að útgerðarmenn standa undir taprekstri blaðsins og gefa það út sem sitt eigið málgagn er kostnaður við afurðina ekki sóttur beint í vasa skattgreiðenda. Þegar Rúv gerir vonda frétt eða fremur einhvers konar mistök kemur það almenningi beint við vegna fjármálasambandsins. Sá er munurinn á Mogga og Rúv.

Það er mikill línudans að vinna á Rúv. Fréttamönnum sem öðrum starfsmönnum er ætlað að starfa þannig að sem fæstir geti gert athugasemd við störfin. Vegna eigendavalds almennings, viðskipta- og trúnaðarsambandsins við almenning getur sérhvert fréttaskref verið jarðsprengjusvæði, sem skýrir að hluta hvs vegna margir fréttamenn innan Rúv eru hræddir við að greina stöðuna sjálfstætt heldur flytja endalausar „hann segir -  hún segir fréttir“. Varða ábyrgð frá sér yfir á aðra þar sem borðtennisboltinn gengur yfir netið fram og aftur, oft án þess að almenningi sá hjálpað að skilja kjarna málsins. En rekstur fréttastofunnar – svo eitt dæmi sé tekið af starfseminni – yrði hreinlega gagnslaus ef stofnunin setti ekki hluta mannafla síns í að stinga með sjálfstæðum og gagnrýnum hætti á ýmis kýli í þjóðfélaginu, gegna varðhundshlutverkinu, sýna stjórnmálamönnum, viðskiptalífi og öðru ægivaldi virkt en sanngjarnt aðhald.

Hinir sömu stjórnmálamenn og stundum fá á baukinn í slíkri umfjöllun hafa líf og limi almannaútvarpsins í höndum sér, þar er kreppan. Þeir hika oft ekki við hótanir eins og frægt er t.d. hjá Vigdísi Hauksdóttur þingmanni. Í umræðu um vanda Rúv verður einnig að geta tæknibreytinga og þeirrar menningarvendingar sem orðið hefur til þess að ungt fólk fælist nú Rúv eins ákaft og fermingarbarn hættir að heimsækja kirkjuna sína eftir að barnið hefur sagt já, gjafirnar eru í höfn og majonesan orðin gul á brauðtertunni. Fermt barn forðast prestinn, er gamall brandari. Svo því djóki sé snúið upp á Rúv virðist sem ungt fólk láti ekki lengur bjóða sér efnistök almannaútvarpsins, línulega dagskrá og megináherslur gamaldags starfsmanna sem sumpart starfa eftir gildum sem orðið hafa útundan í nútímanum. Að auki má setja ýmis fleiri spurningarmerki við starfsemi stofnunarinnar hin síðari ár. Allt virðist undir með svokallaðri svartri skýrslu Eyþórs Arnalds og frjálshyggjufélaga um Rúv. Bæði starfsmenn og almenningur áttar sig á að breytingar eru óhjákvæmilegar.

Hlutverkakreppa

Einn vandinnn í þessu samhengi öllu er að meginhlutverk Rúv mættu vera betur skilgreind. Þannig hafa Píratar rætt að varðhundshlutverkið, aðhaldshlutverkið, þyrfti að vera betur rammað inn í lögum um stofnunina. Það kæmi stjórnmálamönnum ágætlega ef Rúv flytti aldrei viðkvæmar fréttir sem kæmu ráðandi pólitíkusum illa. Skoða verður svörtu skýrsluna í ljósi þess hugar sem kann að hafa legið að baki gerð hennar.

Það hefur bæði verið fjallað um menningar- og öryggishlutverk Rúv sem höfuðréttlætingu tilvistar stofnunarinnar. Öryggishlutverkið brást þó illa þegar snarpur jarskjálfi varð á Suðurlandi og gnast þá svolítið í því hlutverki. Þá hefur menningarhlutverk Rúv breyst mikið með aukinni samkeppni og tæknibreytingum. Með símiðlun, Internetinu og sprengingu í einkareknum fjölmiðlum bera nú margir víurnar í þá starfsemi sem Rúv sat eitt að áður og gera það ágætlega. Ein er þó sú stoð sem aðgreinir Rúv frá einkamiðlum. Það er starfsemi Rásar 1. En þeir sem vilja markaðsvæða hverja afurð og telja mikilvægi allra hlutra best metið í aðsókn og auglýsingum vita líka að Rás 1 yrði aldrei einkavædd vegna þess að það þætti ekki hagkvæmt að halda úti slíkum miðli. Eigi að síður teja margir Rás 1 vera flaggskip almannaútvarpsins og segir sitt um sérstöðu Rúv í samfélaginu.

Gangverk fjölmiðla

Áður en vikið verður að afleiðingum svörtu skýrslunnar verða hér nefndir til sögunnar  nokkrir punktar úr meistararitgerðinni Glaðasti hundur í heimi,  sem fjallar um fjölmiðla og skyldur þeirra. Ekki verður heimildarskrá látin fylgja en fróðleiksfúsum skal bent á Skemmuna hjá HÍ ef þeir vilja skoða heimildir betur og fræðast enn frekar. Í ritgerðinni segir: „Fjölmiðlar safna, meta og setja fram upplýsingar til fólks á tilteknum svæðum. Þess vegna eru þeir oft nefndir fjórða valdið (Menntamálaráðuneytið, 2005). Fjölmiðlar stýra að nokkru hvað ber hæst í þjóðfélagsumræðunni og eru því með ákveðnum hætti skoðanamyndandi á hverjum tíma. Daglegar ákvarðanir blaðamanna og fjölmiðlafólks í formi frétta og upplýsinga hafa áhrif á hugmyndir almennings um samfélagið (McCombs og Reynolds, 2002). Haldið hefur verið fram að frétt hafi þá höfuðskyldu að upplýsa almenning, móta skoðanir almennings, hafa áhrif á pólitíska hópa og gera embættismenn ábyrga fyrir ákvörðunum (Bennett, 2007). Fjölmiðlum ber að fylgjast með að hópar og einstaklingar, framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald starfi með réttlátum hætti. Fjölmiðlar hafa ábyrgð og skyldur en líka réttindi. Þeir hafa hlutverk sem gengur út á samfélagssamheldni og hefur verið kallað samfélagssmiðs­hlutverkið en eru líka „varðhundar“ (e. watchdog) samfélagsins. Varðhundshlutverk fjölmiðlanna kallar á gagnrýni á stjórnvöld og vald og þýðir að persónulegar aðstæður blaðamanna mega ekki hafa áhrif á fréttavinnslu þegar lög eru brotin eða gengið gegn almannahagsmunum. Varðhundshlutverkið býður að ástunduð sé rannsóknarblaðamennska (e. investigative journalism) og að ekki verði hikað við að segja frá því sem er óþægilegt og sársaukafullt (Birgir Guðmundsson, 2012, bls. 42-43). Margir fjölmiðlar sinna bæði varðhunds- og samfélagssmiðshlutverki í því skyni að skapa jafnvægi og sanngirni í umfjöllun. Ástundun aðhaldshlutverksins eða varðhundshlutverksins á hins vegar víða undir högg að sækja, m.a. vegna samþjöppunar á fjölmiðlamarkaði, aukins auglýsingavalds og ýmiss konar efnahagspólitískra samfélagsbreytinga (McChesney, 2013).“

Eitt af því sem veldur deilum um Ríkisútvarpið snýr einmitt að deilum um auglýsingar, margir telja að betri sátt myndi nást um starfsemina og sérstöðu Rúv ef stofnunin hyrfi af auglýsingamarkaði. Ef einkaframtakið fengi þær auglýsingar sem safnað er með kerfisbundnum og oft óvægnum hætti til Ríkisútvarpsins, gætu fleiri einkamiðlar þrifist. Þá leiðist mörgum að sjá og heyra mikinn fjölda auglýsinga í almannaútvarpi.

Hvers vegna vill fólk stýra fjölmiðli?

Rannsakað hefur verið hvers vegna áhrifafólk sækir í að eiga fjölmiðla, sem sjaldnast eru í hópi fyrirtækja sem skila mestum bókfærðum hagnaði ár frá ári. Samkvæmt formgerðarkenningum hefur bæði verið rætt um efnahagspólitísk áhrif eða stýringu á neyslu, t.d. þar sem endurtekin skilaboð af einhverju tagi kynda undir tilteknum innkaupum (McChesney, 2013). Ben H. Bagdikian (2004) telur að leggja megi vald fjölmiðla að jöfnu við vald stjórnmálanna og þess vegna þyki eftirsóknarvert að eiga fjölmiðla.  Sá valdhafi sem ekki á fjölmiðil getur viljað stjórna honum. Um það eru mörg dæmi í sögu Ríkisútvarpsins þar sem gömlu valdaflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafa haft mest ítök og mesta hagsmuni af því að ráða stefnu almannaútvarpsins. Fjölmörg dæmi eru um afskipti og þrýsting. Ásakanir um vinstri slagsíðu eru jafnan settar fram í áróðursskyni. Rökin með Rúv eru að nokkrar risasamsteypur eiga nú mestallan markað á sviði fjölmiðlunar og afþreyingar, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim. Þessar samsteypur eru oft taldar bera ábyrgð á hnignun félagslegra gilda, bæði almennt og á pólitíska sviðinu. Samþjöppun á eignarhaldi fjölmiðla hafi orðið til þess að efni fjölmiðlanna komi sér undantekningarlítið vel fyrir eigendur þeirra, fjölmiðlafyrirtækin sjálf og umbjóðendur þeirra. Annað efni komist einfaldlega ekki á dagskrá fjölmiðlanna, sama hve mikið erindi það kunni að eiga við almenning  skv. fræðimanninum Bagdikian.

Átök og umbætur í kjölfar hruns

Ekki verður undan við því vikist í tengslum við svarta skýrslu um Rúv að nefna að töluverð opinber umræða varð í kjölfar hruns- og fjölmiðlahluta Rannsóknarskýrslu Alþingis um mikilvægi þess að íslenskir fjölmiðlar temdu sér gagnrýnni og sjálfstæðari vinnubrögð, að blaðamenn brýndu tennurnar í varðhundshlutverki sínu ef svo mætti að orða komast. Í fyrrnefndri meistararitgerð segir: „Meðal annars kom fram að íslenskir fjölmiðlar hefðu ekki efast um alla hluti eins og fjölmiðlum bæri að gera (Friðrik Þór Guðmundsson, Þorbjörn Broddason, 2010). Hér á landi hefur blaðamennska og meðvirkni verið sett í samhengi við hjarðhegðun einsleitrar þjóðar (Rannsóknarskýrsla Alþingis, 2010, bls. 277-301; Arna Schram, Björn Vignir Sigurpálsson og Jóhann Hauksson, 2010). Um lærdóm af fjölmiðlahluta Rannsóknarskýrslu Alþingis segir: „Rauði þráðurinn er sú grundvallarskylda okkar frétta- og blaðamanna að gæta fyrst og síðast almannahagsmuna og verða ekki meðvirkir í ákveðnum samfélagsstraumum“ (Arna Schram, Björn Vignir Sigurpálsson og Jóhann Hauksson, 2010).“

Ef Rúv er vanda sínum vaxið ættu starfsmenn þess að njóta meira frelsis en þeir sem byggja viðurværi sitt á almennum markaði. En það gerir líka tilkall til þess að startfsmennirnir nýti sín forréttindi, óhræddir. Ótti við stjórnmálamenn má ekki ráða för. Forréttindum fylgja ýmsar skyldur og allt skal þetta nefnt til sögunnar til að umræðan um svörtu skýrsluna drukkni eki í misgóðum upplýsingum um rekstrarþætti almannaútvarpsins. Málið er flóknara en svo.

Að standa gegn straumi

Arna Schram, Björn Vignir og Jóhann Hauksson unnu greiningu á vegum Blaðamannafélags Íslands eftir útkomu Rannsóknarskýrslunnar. Þau eru á einu máli um að það kunni að vera erfið ákvörðun bæði fyrir blaðamenn og aðra að standa gegn meginstraumi, t.d. þegar viðskiptaráðandi öfl og jafnvel helstu þjóðarleiðtogar hafi sameinast um þá skoðun að íslenski bankageirinn væri uppfullur af kraftaverkamönnum (Ólafur Ragnar Grímsson, 2005). Þetta hefur verið sett í samhengi við meðvitaða eða ómeðvitaða sjálfsritskoðun blaðamanna. „Efasemdir hafa verið uppi um að RÚV sinni hlutverki sínu samanber ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra að „hið undarlega [hafi] gerst á undanförnum árum að æ oftar sé það rætt á fundum hjá [Framsóknar]flokknum hvort ástæða sé til að halda úti ríkisútvarpi“ („Sigmundur Davíð um ESB-málið“, 2014). Í Morgunblaðinu hefur leiðarahöfundur ítrekað gert fréttastefnu Ríkisútvarpsins tortryggilega samanber: „Á Íslandi er sérkennilegt að eina fréttaveitan sem býr að lögum við meitlaðar reglur um hlutleysi sé um þessar mundir hin lang-óvandaðasta í slíkum efnum, svo miklu munar“ (Misnotkunin eykst, 2014). Mörg önnur dæmi sjást iðulega í íslenskri stjórnmála- og þjóðmálaumræðu um gagnrýni á eina fjölmiðlinn á Íslandi sem ekki er alfarið háður markaðslögmálum, það er almannaútvarpið. Innan Sjálfstæðisflokksins ber afnám Ríkisútvarpsins iðulega á góma. „Hvað er að því að leggja RÚV niður?“ spurði einn þingmanna Sjálfstæðisflokksins (Brynjar Níelsson, 2013). Óðinn Jónsson, fyrrverandi fréttastjóri Ríkisútvarpsins, orðaði þetta þannig þegar leitin að uppgjörinu við hrunið stóð yfir: „Allan tímann sem ég hef verið í starfi höfum við þurft að biðjast afsökunar á því að vera til staðar, að vera kostuð af almannafé. Í staðinn fyrir að gera það almennilega og gera síðan ríkar kröfur til þess að þetta almannafé sé nýtt vel“ Rannsóknarskýrsla Alþingis, 2010, bls. 196),“ segir í Glaðasti hundur í heimi.

Nær að auka ríkisfé en skerða

Svo spurningu Brynjars Níelssonar sé svarað, hvað við höfum að gera með Ríkisútvarp, má nefna að á sama tíma og niðurskurður hefur verið á fjárframlögum til ríkisrekinnar fjölmiðlunar hér á landi hafa í landi hins frjálsa markaðar, Bandaríkjunum, komið fram ýmis áköll á síðustu misserum um aukinn opinberan fjárstuðning til verndar blaðamennsku. Ójöfnuður fólks sé orðinn slíkur og lýðræðið svo skekkt eða bjagað að ekki sé lengur hægt að treysta frjálsum markaði einum til að dreifa upplýsingum í gegnum fjölmiðla. Líta beri á blaðamennsku sem mikilvæg almannagæði. Ef samfélagið vill sporna gegn auglýsingamennsku og eigendavaldi ríkjandi fjölmiðla kalli það á stóraukinn kostnað ríkisins. Slíkt verði ekki umflúið vegna mikilvægis fjölmiðla og góðrar blaðamennsku fyrir samfélög. Líta megi á sem svo að kostnaður af slíku átaki sé eins nauðsynlegur og að halda úti skólamenntun. Sagan sýni að ekki sé hægt að reka menntun í gróðaskyni fyrir samfélag. Sama gildi um fjölmiðla (McChesney, bls. 51-52, 193-194).Ríki víða um völl verði að koma að því verkefni að byggja upp nýtt kerfi blaðamanna í fullri vinnu, hóp sem hafi nægar bjargir til að hefja blaðamennsku til vegs og virðingar á ný. Í stað þess að sú tegund blaðamennsku sem McChesney kallar atvinnublaðamennsku (e. professional journalism) hafi horft upp til valdsins og endurvarpað hagsmunum þess (2013, bls. 202-209) eigi hin nýja tegund blaðamennsku að mæta valdi á jafningjagrundvelli án þess að blaðamenn þurfi að óttast sífellda hagsmunaárekstra eða ágreining við eigendur fjölmiðlanna, vegna ritstjórnarstefnu. Fjölmiðlun sem horfi aðeins á markaðslögmál hafi breytt hugmyndum fræðasamfélagsins um hlutskipti blaðamanna.

Frétt sem markaðsvara

Á Huffington Post eru vísbendingar um að engin frétt sé lengur skrifuð nema ritstjórar hafi vegið það svo og metið að fréttin muni skila hagnaði, reiknað út frá ætlaðri aðsókn á vefsíðu fjölmiðilsins (McChesney, 2013, bls. 189). Herman og Chomsky töldu fyrir rífum aldarfjórðungi að þá þegar blikkuðu rauð ljós í heimi fjölmiðlanna. Þeir sóttu m.a. í smiðju kenninga Walters Lippmans um að almenningur væri hjörð sem ekki skoðaði að jafnaði mál sjálfstætt heldur væri hægt að stýra henni með upplýsingum og áróðri (McChesney, 2013, bls. 285-286). Í víðfrægri bók, Manufacturing Consent, skoðuðu Herman og Chomsky (1988) vöggu fréttastefnu í Bretlandi eins og James Curran og Jean Seaton hafa rýnt í hana. Fyrir miðja 19. öld hafi ríkt róttæk fréttastefna í Bretlandi sem hafi átt þátt í að samkomulag náðist um bætt kjör verkafólks. Sterk verkalýðsfélög og samtakamáttur hinna lægst launuðu hafi verið höfuðorsök ávinningsins. Á þessum tíma hafi aðgreining fjölmiðla frá ríkjandi valdi vegið þungt. Fjölmiðlar hafi ekki verið reknir í ábataskyni eða áróðursskyni sérhagsmuna, máttur umbótablaða hafi í kjölfar ávinnings hinnar vinnandi alþýðu mætt vaxandi andstöðu hjá ráðandi öflum, þeim sem greiða alþýðunni laun. Einn þingmaður breska íhaldsflokksins sagði sem dæmi að dagblöð hinnar vinnandi alþýðu væru sek um að magna ástríður (e. inflame passions) (Herman og Chomsky, 1988, bls. 3). Kannski er sá „vandi Rúv að þegar almannaútvarpið vinnur vinnuna sína best magnast upp tilfinningar. Hjá þeim sem stýra fjárveitingavaldinu.

Blóðbaðið 2013

Ísland hefur ólíkt Bandaríkjunum lengst af fjölmiðlasögunnar lagt áherslu á ríkisrekið útvarp og sjónvarp, fjármagnað af skattfé. Sameiginlegt er þó með báðum löndum að stuðningur við opinbera styrki til fjölmiðlunar í síðari tíð á undir högg að sækja. Ríkisútvarpinu var gert skömmu fyrir lok árs 2013 að spara 500 milljónir króna. Í fréttatilkynningu sem Páll Magnússon, þáverandi útvarpsstjóri, sendi frá sér sagði m.a.:

Þannig má segja að áhrif hrunsins verði lögfest inni í rekstri Ríkisútvarpsins til frambúðar – og stjórnvöld hafi ákveðið að lækka þjónustutekjur félagsins til fyrirsjáanlegrar framtíðar um tæpan milljarð króna, eða um rúmlega 20% að raunvirði frá árinu 2009. Til viðbótar þessu kemur svo til framkvæmda um næstu áramót lögþvinguð lækkun á tekjum af kostun og auglýsingum, sem nemur um 400 milljónum króna. Að öllu samanlögðu þarf nú að draga árlegan rekstrarkostnað Ríkisútvarpsins saman um 500 milljónir króna – komi ekki til enn frekari skerðingar á tekjum RÚV við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins, sem þá bætist við þessa upphæð. Þetta leiðir því miður óhjákvæmilega til þess að fækka þarf starfsmönnum hjá Ríkisútvarpinu um 60, þar af verða beinar uppsagnir 39 sem koma til framkvæmda nú þegar. (ruv.is, 2013)

Þá var blóðug stund líkt og ýmsir óttast nú að renni brátt upp. Það er eins og komin sé hefð fyrir sláturtíð hjá almannaútvarpinu þegar kemur fram í nóvember ár hvert.

Vigdís slegin

Komum við þá aftur að deginum í dag þar sem eldar loga vegna Rúv-skýrslunnarsem kynnt var í gær. Við gerð þessarar fréttaskýringar heyrði Hringbraut  í nokkrum starfsmönnum Rúv og flestir þeirra tengja pólitík við útgáfu skýrslunnar en þora af ótta við afleiðingarnar ekki að stíga fram undir nafni.

„Rúv skýrslan virðist vera samin af dæmalausum óheilindum.“

Þannig orðar einn starfsmaður Ríkisútvarpsins stöðuna og rökstyður með eftirfarandi: „Lekið er út efni skýrslunnar áður en hún birtist og bara því neyðarlegasta, passað upp á að ekki fylgi með að nokkur viðsnúningur hefur verið í rekstrinum, og þá er farið að tala um rannsóknarnefnd. En þetta var víst bara starfshópur menntamálaráðherra. Nefndin heldur svo blaðamannafund um þetta í sjálfu Þjóðmenningarhúsinu og þykir ýmsum vel í lagt, sérstaklega þar sem þau voru komin með fjölmiðlafulltrúa, sjálfstæðismanninn Friðjón Friðjónsson. Sérstakur fjölmiðlafulltrúi fyrir gjörninginn, innvígður úr flokknum, það er vel í lagt,“ segir starfsmaður Rúv.

Af yfirferð helstu fjölmiðla í gær og morgun eftir útgáfu skýrslunnar má lesa m.a. í Fréttablaðinu að bæði formaður og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis telja forystu Ríkisútvarpsins hafa vísvitandi blekkt fjárveitingavaldið með því að gefa þeim rangar upplýsingar um stöðu stofnunarinnar. Útvarpsstjóri hafnar því að hafa gefið fjárlaganefnd rangar upplýsingar.

Í Stundinni segist Vigdís Hauksdóttir þingmaður slegin yfir því sem kemur fram í skýrslunni. Nefnir hún sem dæmi skort á eftirlitsheimildum með RÚV ohf, bæði hjá fjölmiðlanefnd og Ríkisendurskoðun, og tilkomu Vodafone-samningsins frá 2013. „Það hefur verið hamrað mjög á því að RÚV sé mjög skuldsett en þarna kemur fram að það er einungis sex prósent skuldahlutfall sem er á pari við stjórnunarkostnaðinn hjá RÚV. Þannig það hafa verið mjög miklar blekkingar í þessu öllu saman. Þessi skýrsla varpar mjög góðu ljósi á allar staðreyndir,“ segir Vigdís. 

Vigdís vill breyta rekstrarformi Rúv en hvað það þýðir veit enginn enn. Fleiri stjórnmálamenn hafa sagt það sama. Stundin segir að Illugi Gunnarsson hyggist setja á fót stýrihóp á vegum ráðuneytisins um hlutverk og stefnu RÚV og að sá hópur myndi jafnvel skila þingsályktunartillögu næsta vor. „Mér finnst það jafnvel of seint,“ segir Vigdís aftur á móti í samtali við Stundina. „Mér finnst þurfa að grípa til aðgerða núna.

 

Þáttur útvarpsstjóra og Illuga

Þennan tón óttast starfsmenn Rúv nú mjög. Þeir eru ekki einir um það því samfélagsmiðlar loga þar sem almenningur lýsir tilfinningaríkum skoðunum á skýrslunni og viðbrögðum, enda er mikið undir. Sumir telja tímabært að veita Rúv náðarhöggið, selja það, einkavæða það, leggja það niður, breyta formi þess eða kippa því að minnsta kosti af auglýsingamarkaði til að auka líkur á sátt.

Einn er svo sá þáttur sem enn er ónefndur og varðar þátt útvarpsstjóra og sambandi hans við Illuga Gunnarsson. Athygli hefur vakið hve þungur hugur ríkir milli Illuga Gunnarssonar, mnnta- og mennignarmálaráðherra og fyrrum útvarpsstjóra, Páls Magnússonar. Páll hefur ítrekað skrifað greinar og krafist afsagnar Illiuga vegna spillingar en enginn veit nákvæmlega nema þeir tveir hvað þeim fór í millum áður en Páll sagði upp störfum.

Ef starfsmaður Rúv sem fyrr er vitnað til hefur rétt fyrir sér að fiskur liggi undir steini í þessari afferu allri, má benda á það sem fram kemur í Kjarnanum þar sem segir:  „Eftir að tilkynnt var um að staða útvarpsstjóra yrði auglýst í lok árs 2013 var Magnús Geir Þórðarson strax orðaður við stöðuna. Hann lýsti því hins vegar yfir í viðtali við Sigríði Arnardóttur á RÚV að hann ætlaði sér ekki að sækja um. Magnúsi Geir snérist þó hugur, sótti um og varð útvarpsstjóri. Ekki liggur fyrir hvað það var sem breytti afstöðu hans en það fór ekkert á milli mála á sínum tíma að Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, vildi mjög fá Magnús Geir í starfið og að þrýst hafði verið á hann að sækja um.“

Kjarninn bætir við: Niðurstaða skýrslunnar sem birt var í dag er skýr: rekstur RÚV í dag er ósjálfbær og ekki í takt við þær tekjur sem fyrirtækinu er skammtað af eiganda sínum. Það þýðir að annað hvort séu stjórnendur RÚV að reka fyrirtækið á umboðslausan og óábyrgan hátt, eða einhverjir stjórnmálamenn hafa lofað þeim auknu rekstrarfé sem síðan hefur ekki verið staðið við að afhenda. Annar hvor hópurinn ber ábyrgðina.“

Því má svo við þetta bæta að í Mogganum í morgun er greint grá því að stjórn­end­ur RÚV hafi lagt fram kröf­ur til stjórn­valda sem feli í sér sam­tals 5,9 millj­arða skil­yrt viðbótar­fram­lag næstu fimm árin.

Að lokum er vert að nefna að miklu púðri hefur verið varið í að gagnrýna samn­ing­ RÚV við Voda­fo­ne, enda samningurinn algjört klúður og ekki nema eðlilegt að þeir sem bera ábyrgð á honum stígi fram og axli ábyrgð. En samningur Rúv við eigin þjóð, eiganda almannaútvarpsins, því almenningur á Ríkisútvarpið en ekki stjórnmálamenn hvers tíma, þyrfti að vera uppi á borðinu. Svo er ekki enn. Sá er helsti vandinn.

(Fréttaskýring: Björn Þorláksson)