Í þættinum Matur og heimili í kvöld heimsækir Sjöfn hjónin, Rut Kára og Kristinn þar sem Rut flettir ofan af ástríðu sinni á ís.
„Það var alls ekki á dagskrá að fara að opna ísbúð, en þegar maðurinn minn kom heim einn daginn síðasta vetur með þessa hugmynd um ísbúð í Hveragerði þá sagði ég bara “já”! Ég hef það samt frekar fyrir reglu að segja alltaf nei fyrst þegar hann kemur með einhverjar nýjar hugmyndir,“ segir Rut og hlær.
Kristinn segir að viðbrögðin hafi í raun vakið undrun hjá honum. „Já, ég varð eiginlega bara hissa að fá svona góðar undirtektir hjá Rut. Ég vissi reyndar að hana langaði einhvern tímann að fá að hanna ísbúð, en svo þykir henni ís svo góður að það hefur líka örugglega haft sitt að segja. Þarna fengi hún gott tækifæri til að smakka alls konar ís! Þegar á reyndi þá var Rut hins vegar ómögulegur smakkari, því hún vildi alltaf smakka betur sömu tvær tegundirnar,“ segir Kristinn
Ljósa marmara afgreiðsluborðið er mikið prýði og tónir fallega við græna litinn sem er ríkjandi í ísbúðinni og brasslituðu ljósin mynda ákveðna heildarmynd.
Frönsk kaffihúsastemning sveipuð dulúð og notalegheitum
Hönnunin á Bongó er einstaklega vel heppnuð og hugsað er fyrir hverju smáatriði. Grænn litur er ríkjandi í ísbúðinni á móti ljósum marmaranum í afgreiðsluborðinu og brasslitum ljósum. „Við fluttum svo inn franska kaffihúsastóla og marmara kaffiborð sem spila vel á móti brúnum leðurbekkum,“segir Rut sem naut sín við hönnunina í alla staði en draumur hennar var að opna ísbúð sem byði upp á franska kaffihúsastemningu sveipuð dulúð og notalegheitum. Nafnið á ísbúðinni, Bongó, á sér sögu og ekki bara það heldur hafði um leið áhrif á hönnunina. Rut og Kristinn svipta hulunni af sögunni bak við nafnið og allt sem því fylgir í þættinum í kvöld.
Missið ekki af einstakri heimsókn í Bongó með hjónunum Rut Kára og Kristni í þættinum Matur og heimili á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00. Þátturinn verður endursýndur strax aftur klukkan 21.00.
Frönsk kaffihúsastemning sveipuð rómantík og dulúð er í Bongó.
Ísinn gleður og sérbakað vöffluískexi toppar réttina.
Hér fyrir neðan má sjá brot úr þætti kvöldsins: