Rukkað fyrir allt - nema dánarvottorðið


Mjög er misjafnt hvernig frumvarp heilbrigðisráðherra um þak á kostnað sjúkra mun hafa áhrif á fjárhag þeirra landsmanna sem þurfa að leita sér heilbrigðisþjónustu. Helmingur þjóðarinnar mun þurfa að borga meira eftir breytingarnar enda um jöfnunaraðgerð að ræða sem landsmenn borga sjálfir fremur en ríkið. Þó er bót í máli að það verður ekki rukkað sérstaklega fyrir að deyja og mætti halda fram að hvatinn til þess sé því meiri fyrir almenning en að lifa lífinu, sligaður af gjöldum! Sjúkratryggingar Íslands meta það svo að þeir sem noti sjaldan heilbrigðisþjónustu beri skarðastan hlut frá borði vegna breytinganna sem aftur spyr spurninga um umbun ríkisins til þeirra sem kjósa heilbrigðan lífsstíl.


Veikir borga áfram 20%
Um 20% af kostnaði við rekstri heilbrigðiskerfsins er nú sóttur beint í vasa sjúkra þrátt fyrir að rannsóknir sýni að þorri Íslendinga vilji félagslegt heilbrigðiskerfi. Með því er átt við að ekki bætist við kostnaður þegar veikindi steðla að, umfram það sem rennur til heilbrigðismála í gegnum skattfé. Ekki verður séð að þetta hlutfall lækki fyrir hina sjúku þótt sýnt hafi verið fram á að kostnaðarhlutdeild sjúklinga hafi vaxið mun meira en þáttur ríkisins undanfarið. Með þakfrumvarpinu mun kostnaður krabbameinssjúkra sem hefur numið hundruðum þúsunda og jafnvel milljónum króna lækka verulega og verða ekki meiri af meðferð en 100.000 krónur. Því fagnar almenningur, enda hefur mikill óréttur verið framinn á krabbameinssjúkum en það mun eigi að síður kosta skildinginn og kalla á kreditkortið að leita sér læknaþjónustu fyrir hinn almenna mann. Kári Stefánsson hefur kallað það þjóðarskömm að bráðveikur maður þurfi fyrst að veifa Visa-kortinu ef hann ætli að eygja von um lækningu.


Refsað fyrir hegðunarvanda
Svo nokkur dæmi séu valin af handahófi úr frumvarpinu til að varpa ljósi á ýmsan kostnað má nefna að fyrir vitjun læknis á dagvinnutíma skulu sjúkratryggðir greiða 3.400 kr. Aldraðir og öryrkjar munu borga 2.250 kr. en börn ekkert gjald, verði frumvarp heilbrigðisráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar að lögum.
Fyrir vitjun læknis utan dagvinnutíma skulu sjúkratryggðir greiða 4.500 kr en aldraðir og öryrkjar, 3.000 kr. Auk komugjalda skulu sjúkratryggðir, aðrir en börn, greiða aukagjald fyrir ýmsa þjónustu þegar hennar verður leitað. Þungunarpróf skal kosta kr. 740 kr, streptokokkarannsóknir, 840 kr, lyfjaleit í þvagi, 2.600 kr, lykkjan mun kosta 7.400 kr. Foreldrafræðsla/fæðingarfræðsla, kvöldnámskeið, mun kosta 9.800 kr. Uppeldisnámskeið fyrir foreldra mun kosta 9.800 kr. fyrir eitt foreldri en 12.100 kr. fyrir báða foreldra. Uppeldis- og foreldrafærninámskeið fyrir foreldra barna með ADHD mun kosta 10.900 kr. en 14.700 kr. fyrir báða foreldra. Ef börn foreldra eru með hegðunarerfiðleika kostar skildinginn að fá ráðgjöf því PMT-foreldrafærninámskeið kostar 24.100 fyrir báða foreldra.


Góðu fréttirnar eru dauðinn
Þá verður hreint ekki ókeypis að leita lækninga á sjúkrahúsum. Fyrir komu og endurkomu á slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa skulu sjúkratryggðir greiða 6.200 kr. en aldraðir og öryrkjar, 4.100 kr.
Góðu fréttirnar fyrir þá sem gefast upp á streðinu er þó einnig að finna í frumvarpinu. Ekkert gjald verður tekið fyrir vottorð vegna andláts (dánarvottorð). En fyrir þá sem lifa þarf að greiða 570 kr. t.d. vegna vottorðs um fjarvist úr skóla og 1.200 fyrir vottorð vegna sjúkranudds svo örfá dæmi séu hér tínd til af handahófi.
Sjá þingskjal 1104 um málið hér.
Samantekt: Björn Þorláksson