Rósa Guðrún Linnet keypti sér á dögunum sófasett í verslunarrisanum Costco. Eftir að hafa keypt sófann, keyrt hann heim til sín út á land og sett hann saman ákvað hún að „mæla ekki“ með honum.
„Mæli ekki með þessum sófa. Það er svo gott að sitja og liggja í honum að maður vill helst ekki standa upp. Enda þarf þess varla. Það er tengill til að hlaða símann og bjórkælir.“ Sagði Rósa í stórum Costco hóp á Facebook og svörin stóðu ekki á sér.
Margir óskuðu Rósu til hamingju með nýja sófann og sumir höfðu reynslu af honum og höfðu sömu sögu að segja.
Í samtali við blaðamann Hringbrautar varð Rósa sjálf virkilega hissa á því hvað meðmæli hennar gegn sófanum hafi vakið mikla athygli en nokkuð augljóst er að um grín var að ræða. Enda er Rósa hæst ánægð með sófann sem hefur allt til alls.
Rósa hafði gert sér ferð í bæinn til þess að sækja kerru sem hún hafði keypt og sagði hún það tilvalda afsökun fyrir því að flytja svo stóra mublu heim í sveitina.
„Ég varð að nota kerruna sem keypt var, ekki fer maður að keyra 500 kílómetra með tóma kerru.“
Margir skemmtu sér konunglega við lesturinn og mátti sjá allskonar skilaboð við færsluna, meðal annars þessi:
„Mamma a svona sófa. Líka ótrúlega gott af sofa í honum!
„Ég öfunda þig bara ekki neitt..\"
„Sammála. Þessi sófi er algjört vesen. Maður sofnar í honum, kúrir með börnunum yfir morgunsjónvarpinu, hleðsluport fyrir símann og glasahaldarinn. 10/10, elska að hata ekki þennan sófa.“