Rökin gegn esb koma sjálfstæðisflokknum nú í koll

Ein hnýsilegasta spurningin varðandi þriðja orkupakkann er þessi: Hvernig má það vera að Sjálfstæðisflokkurinn lendir í svo djúpri málefnakreppu vegna þessa tiltölulega einfalda máls?

Það tók tvo ráðherra flokksins ríflega heilt ár að finna fótfestu til þess að koma málinu inn á Alþingi. Samstarfsflokkarnir þvældust ekki fyrir heldur þeirra eigin þingmenn.  Þetta er ósmátt veikleikamerki fyrir flokk sem áður var kjölfestan í utanríkispólitík landsins. Fjölmiðlaumræðan sýnir svo, að djúpstæður hugmyndafræðilegur ágreiningur skiptir baklandi þingflokksins í tvær stríðandi fylkingar.

Málið er í sjálfu sér ekki stórt. En ágreiningsefnið er krefjandi. Sagt er að það snúist um fullveldi landsins, hvorki meira né minna. Mál sem efnislega eru ekki stór í sniðum geta vitaskuld snúist um jafn alvarlega spurningu. Í þessu tilviki er málið reyndar látið snúast um fullveldið þótt svo sé alls ekki í raun.

Tvær forystukonur Sjálfstæðisflokksins opna umræðuna um ástæðurnar

Tvær forystukonur Sjálfstæðisflokksins hafa á síðustu dögum opnað umræðuna um ástæðurnar fyrir þessari alvarlegu málefnakreppu.

Þannig benti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherra orkumála á þá staðreynd í Silfrinu að flokkurinn hefði eytt mjög mikilli orku í andstöðuna við Evrópusambandið. Þau ummæli mátti skilja á þann veg að fyrir vikið hefði ekki verið haldið uppi nægjanlegum vörnum fyrir aðild Íslands að innri markaði sambandsins.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðiflokksins og formaður utanríkisnefndar Alþingis talaði á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í síðustu viku. Þar nefndi hún að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að gera meira en að vera bara á móti Evrópusambandinu. Hann þyrfti líka að benda á nýjar leiðir.

Þessi ummæli verða ekki skilin sem fráhvarf frá andstöðunni við fulla aðild að Evrópusambandinu. En þau lýsa þeirri staðreynd að andstaðan við fulla aðild hefur verð rekin með rökum sem eiga  einnig og reyndar ekki síður við um aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins í gegnum EES – samninginn.

Sú hatramma andstaða hefur því komið flokknum í þá málefnalegu klípu sem hann er nú í með þriðja orkupakkann. Gildi aðildarinnar að innri markaði Evrópusambandsins mátti ekki nefna eða rökstyðja. Það var réttilega talið trufla röksemdafærsluna gegn fullri aðild.

Innri íhugun um utanríkismál hafin

Ummæli þessara tveggja forystukvenna Sjálfstæðisflokksins með nokkurra daga millibili eru tæpast tilviljun. Þau benda til þess að innri íhugun sé loks byrjuð um utanríkispólitískan vanda flokksins.

Eina framlag Sjálfstæðisflokksins til utanríkismála í mörg ár hefur verið andstaða við fulla aðild að Evrópusambandinu. Svo gerist það allt í einu að Morgunblaðið og grasrótin í flokknum rísa upp gegn innleiðingu reglna um orkumál á innri markaði Evrópusambandsins með þeim rökum einum  sem hafa verið mest á vörum þingmanna og forystumanna flokksins árum saman í öllum umræðum um alþjóðamál.

Þá vakna ráðherrar Sjálfstæðisflokksins upp við þann þunga draum að ekki er víst að þeir hafi vald á því í ríkisstjórn að innleiða reglur innri markaðarins. Það hefði þýtt að þessi gamla utanríkispólitíska kjölfesta hefði strandsiglt.

Aðeins tveir ráðherrar taka á sig hitann í umræðunni

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir virtist vera eini ráðherra flokksins sem frá upphafi skildi pólitísku hlið málsins til fulls. Hún hefur verið ódeig í sókn og vörn fyrir málið í því stóra samhengi sem aðildin að innri markaðnum er. Í byrjun sátu allir aðrir ráðherrar flokksins á girðingunni í von um að vandinn gufaði upp.

En á lokasprettinum kom Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra opinberlega með fullum þunga til stuðnings við málið. Hann á reyndar heiður af því að hafa snúið andstöðuna í þingflokknum niður með leikfléttu sem aðeins er á færi þeirra sem kunna nokkuð fyrir sér í þeim efnum. Aðrir ráðherrar flokksins halda sér enn hlémegin í umræðunni.

Breytingarnar á málflutningi utanríkisráðherra lýsa þessari stöðu vel. Þegar hann tók við nefndi hann Evrópusambandið helst ekki á nafn, ekki EES og heldur ekki aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins. Hann talað því meir um tvíhliða fríverslunarsamninga og tækifærin sem fælust í Brexit.

Það var ekki fyrr en í óefni stefndi með þriðja orkupakkann að hann fór að fjalla um gildi og mikilvægi innri markaðar Evrópusambandsins. Fyrir Ísland var það brýn og þörf umbreyting.

Losna fjötrarnir af Evrópuumræðunni?

Eina leiðin til þess að vinda ofan af málflutningi þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem í byrjun voru á móti innleiðingu þriðja orkupakkans, var að fá þá til að afneita röksemdunum sem þeim hafði verið kennt að nota gegn Evrópusambandinu. Það er því kórrétt ábending hjá ritara Sjálfstæðisflokksins að flokkurinn verður í framhaldinu að fara að tala um eitthvað annað í utanríkismálum en bara andstöðuna við Evrópusambandið.

Sjálfstæðisflokkurinn verður nú að slá nýjan tón í utanríkispólitíkinni. Hann þarf að hætta að vera einungis á móti. Nú verður hann með virkum hætti  að  halda uppi rökum fyrir því að Ísland eigi að vera aðili að stærstum hluta Evrópusambandsins. Það opnar þrátt fyrir allt umræðuna og getur gert hana málefnalegri.

Eins og það truflaði andstöðuna við fulla aðild að Evrópusambandinu að nefna aðildina að innri markaðnum mun dæmið snúast við eftir þriðja orkupakkann. Nú mun nauðsynlegur rökstuðningur fyrir aðildinni að innri markaðnum veikja andstöðuna við fulla aðild. Þetta eru meiri umskipti en menn gera sér kannski grein fyrir í fljótu bragði.

Að þessu leyti hefur umræðan um þriðja orkupakkann verið afar jákvæð. Hugsanlega er hún að leysa utanríkispólitíska umræðu í landinu úr fjötrum.