Rödd skynseminnar kemur frá Harvard-háskólanum

Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, hefur að undanförnu birt tvær blaðagreinar sem hafa vakið mikla athygli. Þar fjallar hann af mikilli yfirvegun og ótvíræðri þekkingu um veiruvandann og þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til á Íslandi með lokun landmæranna þegar krafist er tvöfaldrar skimunar og þess að feðamenn sem koma til landsins þurfi að sæta fimm til sex daga sóttkví.

Fram undir þetta hefur verið ágæt sátt um þær varnaraðgerðir sem gripið hefur verið til þó þær hafi komið illa við marga hópa. Fólk hefur sýnt aðgerðunum skilning og lagt sig fram um að verjast vandanum. En nú hefur orðið breyting á. Með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að loka landinu hefur umrædd sátt verið rofin. Mörgum finnst að ekki sé lengur gætt meðalhófs og farið fram á grundvelli ákvarðana sem virðast vera teknar í fáti og stressi af ríkisstjórn sem hefur ekki lengur tök á þessum vandasömu málum.

Jón Ívar hefur komið með yfirveguð rök inn í þessa umræðu. Þá er ekki við öðru að búast en að menn leggi við eyru enda á ferðinni virtur prófessor við læknadeild Harvard sem er einn virtasti háskóli veraldar. Hann sagði m.a. í fyrri blaðagreininni sem birtist þann 29. ágúst: „Mikilvægt er að gæta meðalhófs í ákvarðanatöku vegna Covid og lágmarka skaðann fyrir sem flesta. Of langt er seilst í nýlegum aðgerðum á landamærunum.“

Í síðari grein sinni sem birtist í dag segir Jón Ívar Einarsson, Harvard-prófessor: „Það er mikilvægt að litið sé heildrænt yfir sviðið og að opna umræðuna. Ég hef persónulega engra hagsmuna að gæta, nema það að ég vona að teknar séu ákvarðanir sem eru heillavænlegar fyrir okkar frábæra land og þjóð. Við vitum að það er óraunhæft að við komum til með að búa í veirufríu landi og neikvæð umræða sem elur á ótta er ekki heillavænleg til langframa. Ég tel að nýjustu gögn bendi til að dánartíðni Covid hafi verið ofmetin, en við erum nú að ganga í gegnum eitt mesta efnahagsáfall sögunnar og því afar mikilvægt að hlúa að innviðum, andlegri heilsu og lágmarka skaðann fyrir sem flesta.“

Þarna heyrist rödd skynseminnar á yfirvegaðan og afgerandi hátt. Ástæða er til að hvetja alla til að veita orðum Jóns Ívars verðskuldaða athygli.