Jóhann Gunnar Arnarson bryti, lífskúnster og matgæðingur, betur þekktur sem Jói Bötler, er kominn í grillgírinn og fyrsta grillveislan sumarsins framundan á pallinum. Sjöfn Þórðar heimsækir Jóa á pallinn þar sem hann sviptir hulunni af sínum uppáhalds sælkerahamborgurum og skotheldum grillráðum þegar um hamborgara eru annars vegar að ræða.
„Það er eiginlega aðalatriðið að kaupa gott kjöt. Ég vil helst hafa að minnsta kosti 20% fituinnihald í kjötinu. Það bindur kjötið betur saman og gerir borgarann líka miklu bragðmeiri og bragðbetri,“segir Jói og leggur líka áherslu á meðlætið er það sem toppar borgarann. Tilefni grillveislunnar er jafnframt að vígja nýju útihúsgögnin frá JAX handverk sem Jói og konan hans Kristín Ólafsdóttir hafa beðið spennt eftir með mikilli eftirvæntingu.
Bestu töfratrixin hans Jóa Bötler þegar hamborgari er grillaður og meira til í þættinum Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.