Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar, er beittur penni sem þorir að viðra skoðanir sínar þó þær valdi stundum uppnámi og jafnvel sársauka.
Engum ætti að dyljast að Karl Th. er vinstri maður. Hann var Krati og fylgir Samfylkingunni trúlega að málum núna, án mikillar sannfæringar að því er virðist.
Hann hefur áður birt beitta gagnrýni á núverandi ríkisstjórn og ekki farið dult með hneykslun sína á þeirri ákvörðun Katrínar Jakobsdóttur að hoppa upp í hlýtt rúmið hjá íhaldi og Framsókn.
Nú hefur hann birt heilsíðugrein í Stundinni þar sem hann dregur Katrínu Jakobsdóttur sundur og saman í háði vegna innantómra ársmótaávarpa sem hún hefur flutt í sjónvarpi á gamlárskvöld. Nú hefur hún flutt sitt fjórða - og væntanlega síðasta - áramótaávarp sem Karl Th kallar því óvirðulega nafni „áramótafroðu.”
Karl Th. starfaði á sínum tíma sem aðstoðarmaður ráðherra. Hann veit því væntanlega um hvað hann er að tala þegar hann segir að nokkrir aðstoðarmenn leggi í púkkið þegar ráðherra þarf að semja ræðu.
Viðkomandi ráðherra ber þó ætíð endanlega ábyrgð á verkinu.
Ljóst er að Karli hefur þótt framlag ræðuskrifaranna þunnt og ómenningarlegt að ekki sé talað um Katrínu sjálfa sem þó hefur lært bókmenntafræði þó þess sjái tæpast stað í ársmótaræðum hennar.
Þessi ávörp forsætisráðherra á gamlárskvöld eru löngu úrelt og beinlínis hallærisleg enda hefur ráðherrum yfirleitt ekki tekist að skilja neitt merkilegt eftir sig við þessi tækifæri nema Bjarna heitnum Benediktssyni og Gunnari Thoroddsen á sínum tíma.
Síðan eru liðin mörg ár.