Ríku stúlkurnar sem fóru í fiskinn

Það er eðlilegt að svokallaðir silfurskeiðungar sjái heiminn í öðru ljósi en við hin. Og það er ekki nema von að þeir sem brjótast til mennta og/ eða ríkidæmis úr nöturlegu umhverfi, fátækt og félagslegu basli, sjái heiminn með öðrum augum en hinir sem annað hvort festust í sprungu á leiðinni eða þurftu aldrei að hafa fyrir sínu.

Út frá þessu hefur mér oft orðið hugsað til þess hvaða eiginleikum góður forsætisráðherra þyrfti að vera gæddur. Ég held það væri mikill kostur ef ferlar forsætisráðherra væru þannig að þeir hefðu sannað það og sýnt, að þeir væru færir um að hreyfa sig milli stétta og átti sig á ólíkum hagsmunum ólíkra hópa.

Ég held það sé ekki endilega þannig að  samfélagið hagnist mest á að forsætisráðherra fæðist inn í verkamannstétt og ösli svo framagötuna áfram, á eigin dugnaði og verðleikum. Það eru mörg góð dæmi um það en kostirnir eru fleiri. Allt eins mætti hugsa sér konu eða mann sem fæddist inn í auðuga fjölskyldu og nyti þar með forréttinda frá fyrstu stundu. Nýtti sér svo lífshlaupið til að kynna sér aðstæður og hag annarra. Sennilega myndi slík rannsókn í flestum tilvikum leiða til þeirrar niðurstöðu að félagslegum hreyfanleika væru mörk sett, þótt enn fái margir tækifæri til að bæta hlutskipti sitt.

Ég minnist tveggja menntaskólastúlkna sem ég kynntist árið 1982 í Menntaskólanum á Akureyri. Báðar komu frá betri heimilum en gekk og gerðist á þeim tíma. Það voru ekki fjárhagsvandræðin heima fyrir, þær voru betur klæddar en flestir aðrir, höfðu báðar alist upp að hluta í útlöndum þar sem foreldrar höfðu verið við nám. Þær voru víðsýnar og klárar. Þrátt fyrir ýmis forréttindi miðað við fjölda þeirra alþýðubarna sem þrátt fyrir allt voru í MA á þessum árum (þótt skólinn væri þá enn elitísk stofnun) ákváðu þessar stúlkur annað hvort sjálfar eða vegna þrýstings frá fjölskylduumhverfinu að hlífa sér hvergi. Þær unnu t.d. á sumrum í fiski, við færibandalínuna. Fíluðu pönk og vildu breyta heiminum. Það var vond lykt af þeim þegar þær komu heim úr frystihúsinu. Bóðugir fingur og illa lyktandi tær! En þær eignuðust meira skotsilfur en að hanga í unglingavinnunni og þurftu að hafa fyrir sínu sjálfar. Þær kynntust ólíku fólki og ólíkum menningarheimum sem þær hefðu annars ekki kynnst. Þær lærðu að meta að fyrir sumt getur maður þakkað meira en annað. Þær lærðu að ekkert er sjálfgefið í henni tilveru og þær lærðu að við flæðilínuna var fullt af alveg eins kláru og skemmtilegu fólki og þær sjálfar voru, þær voru bara heppnari með aðstæður. Á þessum árum voru t.d. engar greiningar gerðar á skólabörnum. Lesblinda var í kennslustofunni afgreidd sem  heimska eða leti. Nemendur með slíka röskun áttu engan séns innan hins bóklega menntavegar.

Þessar skólasystur tvær gegna báðar toppstöðum í samfélaginu í dag. Mér segir svo hugur að þær hafi á alllangri starfsævi hvorki gleymt auðmýktinni né þakklætinu sem kviknaði fyrir langalöngu, að þakklætið yfir öllum þeim fjölda fólks sem vinnur erfið störf og ekki við neinar draumaaðstæður, blundi enn í brjósti þeirra og að viðhorf þeirra til samfélagsins markist af því. Að þær stöllur tvær, sem köstuðu frá sér silfurskeiðinni um nokkurt skeið á mikilvægum mótunartíma uppvaxtaráranna, hafi upplifað meiri virðingu gagnvart fjölbreytileikanum en kannski hjá öðrum silfurskeiðungum sem umgangast alltaf sama fólkið, hlusta alltaf á sama lagið. Vita ekki að það er til moll og mikið af honum í lífinu. Þekkja bara popplag í G dúr sem er rörsýn á heiminn, enda tilveran margslungin.  Börn fæðast inn í ólíkar aðstæður. Ljósmóðir ein sagði mér einu sinni, að sum nýfæddu barnanna sem hún hefði tekið á móti „ættu hreinlega engan séns,“ eins og hún orðaði það. Þá átti hún við félagsstöðu foreldranna. Ekki þannig að barnaverndaryfirvöld myndu hafa bein afskipti heldur átti hún við að bjargir okkar til að verða foreldrar eru mjög mismunandi og í sumum tilfellum eru því takmörk sett hvað getur orðið úr okkur.

Það er mikilvægt að við áttum okkur á að forréttindi eru ekki öllum gefin. Hugmyndir sem miðast að frelsi án ábyrgðar og sú bábilja að hver og einn hafi tækifæri til að verða eitthvað stórkostlegt eru stórvarasamar.

Ein af frumskyldum samfélagsins er að við fáum öll stuðning hvert af öðru. Þeir sem eiga mest aflögu eiga að horfa til hinna. Þess vegna erum við með skattkerfi, þess vegna rækjum við velferðarkerfi. Þess vegna ætti það að vera keppikefli stjórnmálamanna að líma ólíka hópa saman undir einum hatti fremur en að hvetja til aðgreiningar. Þannig líður flestum best. Þannig viljum við hafa það.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst á Kvikunni á hringbraut.is)