Helgi Seljan, starfsmaður ríkisrekna sjónvarpsins, hefur komist upp með meiri ósvífni en nokkur annar íslenskur fjölmiðlamaður í seinni tíð. Sjaldan hefur hann gengið eins langt og gagnvart Samherja. Fjallað hefur verið um umdeild mál félagsins með ýmsum hætti. En þegar þessi mál eru til meðferðar í dómskerfi, þá heldur ríkissjónvarpið áfram að bæta sínum skoðunum við fyrri meiningar án þess að rök séu fyrir því. Helgi Seljan er greinilega í persónulegri herför gegn þessu tiltekna fyrirtæki. Ef um einstaklinga væri að ræða ætti hér við hugtakið einelti.
Án þess að tjá sig um hugarfar einstakra starfsmanna ríkisfjölmiðilsins verður ekki fram hjá því litið að sumir þeirra komast upp með að viðra persónulegar skoðanir sinar í einstökum málum meira en góðu hófi gegnir. Það er svo annað mál sem er til síðari umfjöllunar.
En þegar Samherji kærði nokkra starfsmenn ríkisfjölmiðilsins til siðanefndar þessarar stofnunar þá var niðurstaðan alveg skýr og ljós. Helgi Seljan gerðist brotlegur við siðareglur RÚV og gekk langt út fyrir heimildir sínar. Að sjálfsögðu hefði það átt að hafa afleiðingar og eðlilega refsingu. Til dæmis að sýna þennan brotamann ekki að svo stöddu hjá ríkisfjölmiðlinum.
En Stjórn ríkisfjölmiðilsins sem skipuð er af Alþingi telur að hún eigi ekkert að segja um málið.
Hvað á þessi stjórn þá að gera?
Ákveða ef til vill hvaða fólk skuli mæta til Gísla Marteins á föstudagskvöldum?
Ríkissjónvarpið er stjórnlaust í höndum fólks sem kemst upp með að ráðast gegn einstökum fyrirtækjum, hópum, samtökum og einstaklingum. Allt í boði okkar skattgreiðenda sem leggjum þessu fyrirbæri til fimm milljarða á ári í þvingaða skatta.
Þorir einhver stjórnmálaflokkur að spyrna við fótum? Eða óttast þá talsmenna flokkanna að fá ekki boð um að koma í Silfrið eða í Kastljós?
Því er spáð hér að enginn stjórnmálamaður geri neitt. Bara eins og venjulega. Enginn þorir.
Menntamálaráðherrar munu koma og fara. Er valdhrokinn á ríkisfjölmiðlinum mun ráða áfram - óháð ríkisstjórnum á hverjum tíma.