Alger skandall ef vínið kemst í búðirnar

 

\"Ég tel ekkert vit í því að setja málið yfir höfuð á dagskrá þingsins þegar horft er til afstöðu þjóðarinnar. Allar viðvaranir frá fagfólki eru hundsaðar. Það væri alger skandall ef frumvarpið rétt næðist í gegnum þingið í ljósi afstöðu þjóðarinnar sem ítrekað hefur lagst gegn þessum áætlunum Sjálfstæðismanna.\"

Þetta segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG í samtali við Hringbraut. Þar mælir hún fyrir hönd margra stjórnarandstöðuþingmanna en aukinn hiti hefur síðustu daga færst í umræðu hvort leyfa eigi sölu áfengis á markaði í matvörubúðum en þó með skilyrðum.

\"Svo má í raun segja að meirihlutinn viðurkenni ósómann sem felst í þessu frumvarpi með því að setja aukna fjármuni til lögreglunnar m.a vegna heimilisofbeldis eða aðra þá þætti sem aukið aðgengi kemur til með að hafa,\" bætir Bjarkey við.

Undirskriftasöfnun

Búið er að stofna til undirskrifasöfnunar á Internetinu gegn frumvarpinu þar sem þúsundir landsmanna mótmæla á sama tíma og gríðarleg vinna hefur farið í undirbúning og vinnu vegna áfengisfrumvarpsins sem liggur fyrir Alþingi.  Tvöfalt fleiri landsmenn mældust andvígir frumvarpinu en fylgjandi skv. nýlegri könnun Fréttablaðsins í febrúar. Her sérfræðinga hefur síðustu vikur stigið fram á ritvöllinn og varað við afleiðingum ef frumvarpið verður að lögum. Má telja þær greinar í tugum sem birst hafa undanfarið í dagblöðum eða á vefsíðum.

Ein þeirra greina sem vakið hefur athygli er grein sem Stefán Hrafn Jónsson, doktor í félagsfræði og kennari við HÍ birti á visir.is. Hann segir að enn á ný sé drjúgum tíma þingmanna varið í að koma áfengi í matvöruverslanir að. \"Rökstuðningur fyrir þessum breytingum snýr annars vegar að því hvert hlutverk ríkisins eigi að vera og hins vegar um frelsi fólks. Vissulega eru það rök, en léttvæg í þessu samhengi. Morfín er lögleg vara en sala þess er ekki frjáls. Sama á við um skotvopn. Þó varan sé lögleg er samfélagsleg sátt um að salan sæti hömlum til að takmarka skaðsemi hennar,\" skrifar félagsfræðingurinn.

\"Af illri nauðsyn erum við bæði með dýr ríkisrekin gjaldeyrishöft og dýra ríkisrekna áfengisverslun, án þessara takmarkana væri ástand samfélagsins mun verra en nú er. Ástæða gjaldeyrishafta mun að sögn hverfa í bráð en ástæður áfengisverslunar ríkisins ekki. Ríkissala áfengis felur í sér eftirsóknarverðar hömlur á áfengisneyslu að mati sérfræðinga um áfengismál og eru ein öflugasta forvörnin. Samanburður vopnalöggjafar ríkja heims sýnir glöggt þau áhrif sem hömlur geta haft.\"

Stefán Hrafn bendir á að strax um 1960-70 þekktu erlendir sérfræðingar að áfengisvandi er ekki aðeins vandamál fárra ofdrykkjumanna heldur er vandinn samfélagslegur. \"Umræðan hér á landi ber þess því miður ekki merki að þessi þekking sé til staðar hjá öllum þeim sem fjalla um áfengismál. Í umræðunni er áfengisvandi talinn aðeins eiga við áfengissjúklinga, það er rangt. Skaðsemi af áfengisneyslu eru bæði félagsleg (ýmist langtíma eða skammtíma) og heilsufarsleg (ýmist langtíma eða bráður, t.d. morð og banaslys). Við getum ekki bara fjallað um einn þessara flokka og talið umræðuna afgreidda. Aukið aðgengi eykur ekkert endilega neyslu þeirra sem drekka hvað mest, dæmið er mun flóknara.\"

Hann segir einnig: \"Skaðsemi áfengisneyslu í samfélaginu er mest meðal þeirra sem drekka miðlungsmikið, vegna þess að margir eru í þeim hópi. Áhættan á skaðsemi hjá hverjum og einum miðlungsdrykkjumanni er minni en hjá ofdrykkjumanni. En áhættan vegin upp með fjöldanum gerir umfang vandans mestan í hópi miðlungsdrykkjumanna. Aukið aðgengi eykur neyslu miðlungsdrykkjufólks, fleiri óvirkir falla mögulega og aukin neysla mun þannig auka álag á löggæslu, heilbrigðiskerfið, félagsmálayfirvöld, skólakerfið og fleiri fjársveltar stofnanir samfélagsins.

Rannsóknir sýna að aðeins lítill hluti þeirra sem kaupa snakk í verslunum (10%) höfðu ætlað sér það þegar þeir fóru inn í verslunina. Svipað mun að öllum líkindum eiga sér stað með áfengi fyrir hluta fólks. Ef áfengi verður selt í matvöruverslunum mun það auka neyslu og þar með áfengistengd vandamál. Þetta gerist óháð því hvort okkur finnst að ríkið eigi að selja áfengi eða ekki. Aðgengi snýst ekki aðeins um hversu margir útsölustaðirnir eru heldur einnig um það hversu oft áfengi er í hillunum þegar farið er í innkaupaferð.\"

Einnig segir hann: \"Hvergi er sem dæmi minnst á áhættuna á auknum fjölda banaslysa í umferðinni. En opinberlega skal ræða í drep kostnað við rekstur vínbúða ÁTVR. Vissulega er fjallað um skaðaminnkun einu sinni og lýðheilsu nokkrum sinnum í frumvarpinu, m.a. að auka fé til forvarna. Ríkisala áfengis er ein öflugasta forvörnin, vissulega kostar sú forvörn en mun minna en augljósar afleiðingar aukinnar neyslu. Áfengisvandi er alvarlegri en svo að við getum óskað okkur hann í burtu með orðunum ‚mér finnst‘.\"

Einhliða varnaðarorð

Kári Stefánsson, landlæknir, Lýðheilsustofnun og ýmsir fræðimenn eru sömu skoðunar og kemur fram hér að ofan. \"Þetta gæti orðið pólitískt harakiri fyrir okkur, því það er ekki eins og að við séum að ná í atkvæði með þessu frumvarpi,\" segir þingmaður í Sjálfstæðisflokknum sem viðurkennir að málið sé umdeildara meðal stjórnarflokkanna en fram hafi komið.

Í umsögnum við frumvarpið má sjá að þeir sem gætu haft hagsmuni af breytingum eru jákvæðir. En hinir eru miklu fleiri sem vara við. Þannig segir Barnaheill - Save the Children á Íslandi: \"Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að aukið aðgengi að áfengi leiði til aukinnar neyslu þess. Aukin áfengisneysla er líkleg til að hafa slæm áhrif á líf barna.\"

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis barst einnig álit Félags áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Ekki kemur á óvart að athugasemdir séu neikvæðar úr þeirri átt. „Það hlýtur að vera til umhugsunar fyrir nefndina að engin heilstæð stefna í áfengismálum liggi fyrir. Þrátt fyrir það er þingið að hringla í einstaka reglum og reglugerðum að því er virðist algjörlega tilviljanakennt. Við óskum eftir heilstæðri stefnu með skýrum markmiðum sem brotin eru niður þannig að hægt sé að skilja hvert við stefnum í áfengismálum, þ.m.t. hvernig við hyggjumst takast á við afleiðingar breyttra verslunarhátta með áfengi verði frumvarpið að veruleika. Á undanförnum áratugum hefur dregið gríðarlega úr framlögum til meðferðar og forvarna. Það er mikil samfélagsleg viðhorfsbreyting ef frumvarp þetta verður samþykkt með tilheyrandi breytingum á neyslu og neysluvenjum. Allir sem til þekkja vita að það verður aukning á heildarneyslu með tilheyrandi skaða. Það er stutt bæði rannsóknum og reynslu. Heildarneysla áfengis á Íslandi er nú þegar komin að hættumörkum samkvæmt WHO og ljós að með þessu förum við yfir þau mörk. Margar þjóðir eru að setja sér markmið til að reyna að draga úr drykkju og heildarneyslu og með því að draga úr því tjóni sem neyslan veldur,“ segir í athugasemdum.

Sakna heildstæðrar stefnu

Einnig segir: „Við söknum þess að í frumvarpinu og áfengisstefnunni í heild er hvergi gert ráð fyrir þeim aukna þunga sem fyrirséð er að leggjast muni á meðferðar- og heilbrigðisstofnanir samfélagsins, verði frumvarpið að veruleika. Þvert á móti virðist þróun síðustu ára benda til að frekar eigi að draga úr framlögum til meðferðar og forvarna. Um aldir hafa allir siðlegir menn gert sér ljóst að kynning, dreifing og sala vímuefna hlyti að lúta öðrum lögmálum en verslun með almennan neysluvarning. Allir sem þekkingu hafa á áfengismálum vita að þó að við höfum gefið okkur leyfi til að nota áfengi eitt allra vímuefna gilda engu að síður sömu lögmál um áfengi og önnur vímuefni. Um þetta hefur verið sátt í okkar þjóðfélagi. Menn hefur því greint á um leiðir frekar en markmið. Það er af þeim sökum líklegt að þeir séu ekki margir sem stuðla vilja að því að áfengi megi selja og veita hvar sem er, hvenær sem er og hverjum sem er og auka þannig neysluna. Þetta sést ef til vill skýrast í óljósri lagasetningu um bann við áfengisauglýsingum og þeim reglum sem eru um sölu og dreifingu áfengis. Engum siðlega þenkjandi manni sem kom að þeirri lagasetningu datt í hug að setja þyrfti sérstaklega nákvæm og yfirgripsmikil lög sem tækju til allra mögulegra aðstæðna eða atvika. Það er greinilegt að þeir sem komu að þessari lagasetningu ætluðu hagsmunaaðilum ákveðið siðferði. En annað er nú komið á daginn. Framleiðendur og söluaðilar áfengis leita allra leiða til að fara framhjá lögunum og hafa þannig gert lítið úr löggjafanum. Það er ekkert sem bendir til annars en að slíkur hráskinnaleikur haldi áfram og því fyrirséð að söluaðilar áfengis hugsi meira um markaðsetningu og gróða en almannaheill og heilbrigði. Samandregnar athugasemdir: Vísindasamfélagið (fræðasamfélag félagsvísinda og heilbrigðisvísinda) hefur haft kenningar sem bæði eru studdar rannsóknum og reynslu sem sýna á órækann hátt að aukið framboð leiðir til aukinnar neyslu. Einnig að aukin neysla veldur afleiðingum sem falla á kostnaðarsaman hátt á samfélagið, sjúkrastofnanir og fangelsi. Engar rannsóknir finnast sem hrekja þetta,“ segir í álitinu sem Hjalti Björnsson, formaður FÁR skrifar undir.

Réttlátt skref eða skref aftur á bak?

Félag lýðheilsufræðinga lýsir yfir andstöðu við frumvarpið í heild sinni. „Félagið telur það vera stórt skref aftur á bak, í forvörnum, að veita aukið aðgengi að áfengi með því að færa sölu áfengis frá ríki í matvöruverslanir með þeim hætti sem frumvarpið leggur til.“

Landlæknir segir: „Skaðleg áhrif áfengisneyslu er stórt lýðheilsuvandamál. Aðgerðir sem auka aðgengi að áfengi geta því haft áhrif á heilsu landsmanna til skemmri eða lengti tíma með tilheyrandi auknum kostnaði fyrir samfélagið. Umsögnin byggir því á sjónarmiðum sem styðja við lýðheilsu landsmanna. Á grundvelli bestu fáanlegra gagna og við skoðun á niðurstöðum rannsókna og ráðlegginga frá m.a. Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni um aðgerðir í áfengismálum er takmarkað aðgengi að áfengi ein skívirkasta leiðin til að spoma við aukinni áfengisneyslu og um leið að draga úr þeim skaða sem getur hlotist af áfengisneyslu.... Landlæknir vekur athygli nefndarinnar á því að embættinu hefur borist bréf frá Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofhunarinnar þar sem lýst er yfir áhyggjum yfir mögulegum afleiðingum þess ef einkasala ríkisins á áfengi verði aflögð. Þar kemur fram að mjög líklega muni áfengisneysla aukast, sérstaklega meðal ungs fólks, viðkvæmra hópa og þeirra sem drekka mikið.“

Jafnvægi náist eins og með bjórinn?

Í greinargerð frumvarpsins segir aftur á móti að almennt sé óhætt að segja að ekki fari mikið fyrir þeirri skoðun í stjórnmálaumræðu að hið opinbera eigi að standa fyrir verslunarrekstri á Íslandi. Þar er einnig vikið orðum að bættri vínmenningu: „Á sama tíma og tengingin við mat hefur orðið sterkari og matar- og vínmenning hefur eflst á Íslandi benda sölutölur ÁTVR til þess að neysla á áfengi sem hentar vel með mat hafi stóraukist. Þó svo að íslensk vínmenning hafi breyst umtalsvert, a.m.k. frá árinu 1989 þegar heimilað var að selja bjór á Íslandi, eigum við nokkuð í land. Áfengisneysla er enn fremur tarnakennd þó að úr því hafi dregið.“ Þá er í greinargerð með frumvarpinu töluvert fjallað um rekstrarlega þætti, verðmyndun, framboð áfengis á landsbyggðum og fleira.

En stærstu mótrökin er lýðheilsuleg og varnaðarorð þeirra sem telja áfengissýki mikið böl hér á landi. Um það segir í greinargerð frumvarpsins:

„Því hefur verið haldið fram að sú fjölgun útsölustaða sem samþykkt frumvarpsins er líkleg til að hafa í för með sér muni leiða til stóraukins aðgengis að áfengi sem aftur leiði til aukinnar áfengisneyslu. Ekki er ólíklegt að aukið aðgengi að áfengi hafi aukin áfengiskaup í för með sér, a.m.k. til byrja með. Líklegt verður þó að telja að jafnvægi náist og neyslan dragist saman eða jafnist út að nýju. Ekki hefur verið sýnt fram á það að varanlegt orsakasamhengi sé milli aukins aðgengis og aukinnar neyslu.“

Gott fyrir ferðamennsku

Einnig segir um vaxandi hóp erlendra ferðamanna til Íslands: „Ferðamenn sem hingað koma hafa kvartað yfir slæmu aðgengi að áfengi hér á landi. Heimsóknir ferðamanna eru enn að aukast og ferðaþjónusta er orðin einn mikilvægasti tekjuöflunarpóstur þjóðarinnar. Skatttekjur ríkissjóðs af sölu áfengis til ferðamanna ættu að aukast samhliða fjölgun ferðamanna.“

Flutningsmenn frumvarpsins eru: Vilhjálmur Árnason, Björt Ólafsdóttir, Jón Þór Ólafsson, Willum Þór Þórsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Birgir Ármannsson, Pétur H. Blöndal, Jón Gunnarsson, Brynhildur S. Björnsdóttir, Karl Garðarsson og Haraldur Einarsson.

Samantekt: Björn Þorláksson.