Ísland á að búa sig undir að leggja vaxandi þunga á samstarf við Bandaríkin og Bretland í varnar- og öryggismálum vegna nýrrar stöðu öryggismála á Norðurslóðum. Þetta stefnumarkandi viðhorf kom fram í ræðu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra á Varðbergsfundi 21. nóvember. Hún sagði jafnframt að Ísland væri og yrði á áhrifasvæði þessara tveggja ríkja.
Gera verður ráð fyrir að sú lína sem dómsmálaráðherra lagði í þessari ræðu byggist á mati þjóðaröryggisráðs þar sem forsætisráðherra situr í öndvegi. Lögum samkvæmt er það hlutverk ráðsins að meta aðstæður í þessum efnum og þörf fyrir nýjar áherslur. Ræða dómsmálaráðherra er fyrsta vísbending um nýja framtíðarsýn ráðsins og ríkisstjórnarinnar, fyrsta svarið við nýrri heimsmynd.
Á hvaða sérfræðiráðgjöf byggist framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar
Forsætisráðherra hefur haldið allri umfjöllun um varnar- og öryggismál á bak við luktar dyr þjóðaröryggisráðs. Hún hefur ekki einu sinni viljað svara fyrirspurn á alþingi um það hvort ráðið hafi aðgang að fullnægjandi innlendri sérþekkingu til að geta mótað framtíðarstefnu á íslenskum forsendum. Því er það fagnaðarefni að dómsmálaráðherra hefur opnað þessa umræðu.
Hitt er annað að sú sýn ríkisstjórnarinnar að leggja eigi aukinn þunga á varnarsamstarf við Bandaríkin og Bretland vegna nýrrar stöðu á Norðurslóðum kallar á frekari skýringar og upplýsingar.
Hvað liggur til grundvallar þessu mati? Við hvaða sérfræðiráðgjöf hefur ríkisstjórnin og þjóðaröryggisráð stuðst? Hvaða athuganir hafa verið gerðar á stöðu Íslands í þessari nýju heimsmynd? Af hverju voru forsendurnar ekki birtar fyrst, umræðan tekin eftir það og niðurstaðan kynnt að því búnu? Eða hefur kannski ekkert nýt mat farið fram?
Rétt greining
Dómsmálaráðherra kemst réttilega að þeirri niðurstöðu að áfram verður þörf fyrir varnarsamstarf Atlantshafsbandalagsríkjanna og samstöðu þeirra. Það er líka rétt að nýjar aðstæður kalla á að Ísland taki af skarið um það hvar það ætlar að standa í framtíðinni.
Sú greining dómsmálaráðherra er einnig á rökum reist að Ísland þarf að gera upp við sig hvort það hallar sér í ríkara mæli að Evrópu eða Bandaríkjunum og Bretlandi.
Lítt sannfærandi rök
Aftur á móti eru rök ráðherrans fyrir þeirri niðurstöðu að leggja aukinn þunga á öryggis- og varnarsamstarf við Bandaríkin og Breta fremur en Evrópu lítt sannfærandi.
Tilvísun í ágreining meðal Evrópuþjóða vegna uppgangs popúlista hrekkur skammt þegar leiðtogi heimspopúlismans situr á forsetastóli í Bandaríkjunum. Af þeim sökum veit engin þjóð að hvaða marki unnt er að treysta Bandaríkjunum.
Stefna Bandaríkjanna og Bretlands er andstæð efnahagslegum hagsmunum Íslands
Af ræðu dómsmálaráðherra má ráða að sú ákvörðun Breta að ganga úr Evrópusambandinu sé önnur helsta ástæðan fyrir því, að ríkisstjórnin sér nú fyrir sér að setja meiri þunga í öryggis og varnarsamstarf við Bandaríkin og Breta. Þessi niðurstaða er ugglaust reist á sömu forsendu og þær yfirlýsingar utanríkisráðherra og forsætisráðherra að í Brexit felist tækifæri framtíðarinnar fyrir Ísland. Fyrir þeim ítrekuðu staðhæfingum hafa þó aldrei verið færð nein rök.
En hér er í fleiri horn að líta eigi íslenskir hagsmunir að ráða för. Grundvöllurinn að árangri Atlantshafsbandalagsins og samstarfsins við Bandaríkin hefur verið sameiginlegur skilningur um tvennt: Fjölþjóðlegt samstarf um varnir og fjölþjóðlegt samstarf um viðskipti.
Nú hafa Bandaríkin og Bretland hins vegar ákveðið að segja sig frá fjölþjóðasamstarfi í viðskiptum. Bæði ríkin hafa snúist gegn því viðskipta- og efnahagssamstarfi sem verið hefur og er grundvöllurinn fyrir þeirri efnahagslegu velsæld sem hér ríkir og byggir á aðild að innri markaði Evrópusambandsins.
Sameiginleg sýn á fjölþjóðlegt efnahagssamstarf verður ekki skilin frá bandalagi um varnir
Þó að við snúum ekki baki við Bandaríkjunum virðist vera rökréttara að leggja vaxandi þunga í öryggissamstarf með þeim þjóðum sem við eigum hugmyndafræðilega samleið með í efnahags- og viðskiptamálum fremur en þeim sem vinna gegn okkar hagsmunum á því sviði. Það gerðum við eftir brottför hersins 2006.
Önnur Norðurlönd sjá þetta, bæði þau sem eru í NATO og hin. Norræn sérstaða ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur væri skiljanlegri ef ætlunin væri að fylgja Bretum út af innri markaði Evrópusambandsins. Væntanlega er það ekki á dagskrá, þó að vilji Bandaríkjanna í þeim efnum fari ekki leynt.
Öflugri samherjar í Evrópu gegn hernaðaruppbyggingu á norðurslóðum
Dómsmálaráðherra sagði eins og satt er í ræðu sinni að Rússar og Kínverjar seilast til aukinna áhrifa á Norðurslóðum. En ráðherrann nefndi ekki að það gera Bandaríkin líka. Þau hafa áform um að styrkja hernaðarlega stöðu sína á þessu svæði. Formleg afstaða Íslands hefur aftur á móti verið sú að ekkert þessara ríkja eigi að auka hernaðarleg umsvif á svæðinu.
Aukið samstarf við Evrópu myndi styrkja okkur í að verjast hernaðarlegri ásælni allra þessara þriggja stórvelda á norðurslóðum og taka afstöðu á eigin forsendum út frá eigin hagsmunum. Þessu sjónarmiði hafnar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Hvaða íslensku hagsmunir ráða því?
Ísland stendur nær Evrópu í loftslagsmálum en Bandaríkjunum
Loftslagsmál eru hluti af þjóðaröryggisstefnunni. Þegar horft er á hagsmuni Íslands að því er varðar loftslagsvarnir er engum blöðum um það að fletta að við eigum sterkari hauka í horni í Evrópu en Bandaríkjunum.
Samt áformar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að leggja meiri þunga í öryggismálasamstarf við Bandaríkin en Evrópu. Hér er sannarlega þörf á frekari skýringum.