Í nýútkominni fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna áranna 2023 til 2027 er ekki gert ráð fyrir einni einustu krónu til fjárfestinga í nýjum þjóðarleikvangi í knattspyrnu eða nýrri íþróttahöll í Laugardal eins og stjórnarflokkarnir hafa lofað hátíðlega.
Fjármálaráðherra hrekst nú undan í nauðvörn vegna þessa máls en bylgja óánægju og gagnrýni innan íþróttahreyfingarinnar hefur risið vegna svika ríkisstjórnarinnar. Fjármálaráðherra reynir að snúa sig út úr svikunum með því að tala um „óráðstafað fjárfestingarsvigrúm“ þegar líður á tímabilið fram til 2027.
Við skoðun á fjárfestingaráætluninni kemur skýrt fram að hún er byggð á óraunsærri bjartsýni. Ljóst er að verðbólga verður talsvert hærri en áætlunin gerir ráð fyrir, erlendar hækkanir vegna stríðsátakanna í Úkraníu eru ekki byrjaðar að telja en þær munu leiða til versnandi viðskiptakjara, ekki síst vegna olíuverðshækkana og afleiddra afleiðinga eins og til dæmis vegna hækkunar á byggingarefni.
Hugmyndir um hagvöxt á næstu misserum eru ofmetnar og þess vegna geta menn ekki vænst jákvæðra áhrifa á fjárhag ríkisins umfram það sem þegar er talið í áætluninni. Ekki þarf að reikna með neinu „óráðstöfuðu fjárfestingarsvigrúmi“á tímabilinu til 2027. Hins vegar liggja fyrir þær dapurlegu staðreyndir að ríkið hefur safnað miklum skuldum sem munu halda áfram að vaxa og safna á sig vöxtum í óhagstæðu vaxtaumhverfi.
Í stað þess að afgangur myndist til fjárfestinga í þjóðarleikvangi og þjóðarhöll, verður að gera ráð fyrir að þess í stað þrengist svigrúm ríkisins til fjárfestinga í góðum verkefnum. Ríkisbáknið mun hins vegar halda áfram að þenjast út á vakt núverandi vinstri stjórnar með ærnum og vaxandi tilkostnaði.
Allt síðasta kjörtímabil kepptust ráðherrar ríkisstjórnarinnar við að lofa íþróttahreyfingunni nýjum þjóðarleikvangi og nýrri þjóðarhöll. Framsóknarmenn gengu lengst í slíkum loforðum. Lilja Alfreðsdóttir hefur hvergi dregið af sér í loforðaflauminum. Einkum þegar styttist í kosningar. Lilja er smám saman að verða sá íslenskur stjórnmálamaður sem lofar mestu og svíkur jafnframt mest. Hún talar og lofar en kemur fáu í verk.
Við myndun núverandi vinstri stjórnar var tekið fram í stjórnarsáttmálanum að ráðast ætti í þessar fjárfestingar. En svo kemur út fjármálaáætlun til ársins 2027 og þá er ekki gert ráð fyrir einni einustu krónu úr ríkissjóði til þessa en þess í stað fjallað um einhverja fugla í skógi sem heita núna „óráðstafað fjárfestingarsvigrúm“ sem öllum ætti að vera ljóst að verður ekki til – nema þá með öfugum formerkjum vegna aukinna útgjalda og of bjartsýnnar tekjuáætlunar út á hagvöxt sem því miður mun láta á sér standa.
Komi til þess að ráðist verði í gerð þeirra íþróttamannvirkja sem hér um ræðir verður um að ræða samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og ríkisins. Þá hlýtur bróðurpartur útgjaldanna að falla á ríkið því að hér er talað um þjóðarhöll og þjóðarleikvang fyrir landslið alls landsins en ekki bara höfuðborgarinnar.
Fram hefur komið að borgarstjórn Reykjavíkur hefur þegar samþykkt að taka til hliðar tvo milljarða króna vegna slíkra verkefna. En ríkissjóður ráðstafar ekki krónu vegna þessa. Vert er einnig að hafa í huga að umrædd fjármálaáætlun nær til ársins 2027. Núverandi kjörtímabili lýkur ekki seinna en árið 2025 og vonandi verða stjórnarskipti mun fyrr. Þvívirðist vera alveg ljóst að núverandi vinstri stjórn ætlar ekki að leggja neitt af mörkum á yfirstandandi kjörtímabili til Laugardalsverkefnanna.
Ásmundur Einar Daðason hefur ítrekað sagt að á þessu kjörtímabili verði leiknir heimaleikir í nýjum mannvirkjum í Laugardal. Þetta er fásinna og ber annað hvort vitni um þekkingarskort eða tilraun til að blekkja kjósendur.
Ásmundur hefur verið trúverðugur þegar hann hefur stigið fram og lofað umbótum á sviði barnamála og út á það vann hann perónulegan kosningasigur í síðustu þingkosningum. En hverjar eru efndirnar? Engar ennþá þótt liðið sé hálft ár frá kosningum. Loforð framsóknarráðherra munu væntanlega fara sömu leið varðandi nýju mannvirkin í Laugardal. Þau munu ekki líta dagsins ljós á yfirstandandi kjörtímabili.
Það mun koma í hlut nýrrar ríkisstjórnar, sem tekur við í síðasta lagi árið 2025, að koma þessum málum íþróttahreyfingarinnar á hreint.
Væntanlega mun það ekki koma í veg fyrir það að ráðherrar Framsóknar hafi uppi stór orð næstu sex vikurnar í aðdraganda skveitarstjórnarkosninga um þessi íþróttamannivirki sem þeir ætla að leggja þjóðinni til. En nú ættu kjósendur að sjá í gegnum loforðaflauminn og kosningasvikin.
Stjórnmál ganga út á loforð og efndir eða loforð og svik. Eftir því eru stjórnmálamenn oftast dæmdir. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sýnir svart á hvítu að stóru loforðin um tugmilljarða framkvæmdir í Laugardal á þessu kjörtímabili verða svikin. Engu mun breyta breyta þótt ráðherrar Framsóknar æpi sig hása með loforðum í aðdraganda komandi kosninga. Engum ríkispeningum er ráðstafað til verkefnanna. Svo mikið er á hreinu og nú hljóta kjósendur að sjá í gegnum svikin loforð óvandaðra stjórnmálamanna.
- Ólafur Arnarson