Ríkisstjórnin gæti sprungið á næstu vikum.
Í fyrsta skipti síðan núverandi stjórnarflokkar hófu samstarf fyrir meira en fjórum árum er raunverulegur möguleiki á því að stjórnin springi með einum eða öðrum hætti.
Fram undir þetta hefur trúnaður ríkt milli formanna þessara þriggja flokka sem mynduðu vinstri stjórn í lok árs 2017 og endurnýju heitið um áframhald vinstri stjórnar fyrr í vetur. En nú virðist sem trúnaður milli þeirra sé mikið til horfinn.
Þegar Sigurður Ingi Jóhannsson sýndi rasíska tilburði á bændaþingi á dögunum fékk hann ekki stuðning hjá formönnum hinna stjórnarflokkanna.
Þetta sárnaði framsóknarmönnum. Vandræðagangurinn í flokknum vegna gleðskapar Sigurðar og Lilju varaformanns á bændafundinum, þar sem þeim tókst báðum að verða sér til skammar, hefur verið hrikalegur.
Vegna sölunnar á hlutabréfum í Íslandsbanka hefur Bjarni Benediktsson legið undir harkalegri gagnrýni. Mörgum finnst ómaklegt að kenna fjármálaráðherra um það sem úrskeiðis fór. Frekar ætti að beina spjótum að formanni og forstjóra Bankasýslu ríkisins sem bera ábyrgð á framkvæmdinni. Um þetta hefur verið deilt.
Þá bregður svo við að Lilja Alfreðsdóttir gagnrýnir fjármálaráðherra heiftarlega í blaðaviðtali. Hún þykist hafa varað við aðferð vegna sölu hlutabréfanna og verið á móti framkvæmdinni. Forsætisráðherra upplýsir þá að Lilja hafi ekki bókað neinar athugasemdir vegna sölunnar á fundum ríkisstjórnarinnar og heldur ekki í undirnefnd þar sem hún á sæti. Var bankasalan þó rædd ítrekað á báðum stöðum. Lilja hefur því bersýnilega samþykkt aðferðafræðina þótt hún segi annað nú.
Framkoma Lilju þykir vera rýtingsstunga í bak Bjarna Benediktssonar og bera vott um tækifærismennsku Lilju. Reyndar eer þetta kki í fyrsta skipti sem hún leikur einleik innan ríkisstjórnarinnar við lítinn fögnuð annarra ráðherra.
Nú er spurt: Er þetta fautalega útspil Lilju gert með vitneskju og blessun formanns Framsóknarflokksins eða er hér um einleik Lilju að ræða?
Sé um einleik og tækifærismennsku Lilju að ræða hlýtur að vera einfaldast að víkja henni úr ríkisstjórninni og ná þar sáttum.
Hafi Sigurður Ingi Jóhannsson lagt blessun sína yfir árás Lilju Alfreðsdóttur á formann Sjálfstæðisflokksins hljóta dagar vinstri stjórnar Katrínar Jakobsdóttur senn að vera taldir.
Þá verður væntanlega beðið fram yfir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí með uppstokkun. Framsókn yrði væntanlega vísað á dyr. VG og Sjálfstæðisflokkur hefðu þá samtals 25 þingmenn og þyrftu að tryggja sér stuðning sjö þingmanna núverandi stjórnarandstöðu við minnihlutastjórn nema nýjir flokkar kæmu beinlínis inn í stjórnina.
Óbreytt ástand er einfaldlega ekki boðlegt.
- Ólafur Arnarson