Ríkisstjórn hinna mörgu vandræðamála og hnignandi siðferðis

Núverandi vinstri stjórn er beint framhald af þeirri vinstri stjórn sem stjórnaði á síðasta kjörtímabili. Einungis er um framhald að ræða þar sem valdastaðan var stokkuð upp eftir kosningar í fyrrahaust. Þá voru völd Framsóknar aukin vegna kosningaárangurs þeirra en flestar fjaðrir klipptar af Vinstri grænum til þess eins að Katrín Jakobsdóttir gæti enn um sinn slegið um sig í embætti forsætisráðherra, meðal annars á fundum hjá NATO og ESB í Brussel þó að hún og flokkur hennar séu formlega á móti umræddum alþjóðasamtökum.

Því er við hæfi að rifja upp nokkur af klúðursmálum beggja þesara ríkisstjórna sem beinast ekki síst að persónum þeirra sem hafa gegnt ráðherraembættum. Lesendur þurfa að muna að hneykslismál Sigurðar Inga Jóhannssonar frá því í síðustu viku er fráleitt fyrst málið sem trónir á svörtum lista ráðherra þessara tveggja ríkisstjórna.

Mörg þeirra mála sem hafa komið upp eru þess eðlis að í nágrannalöndunum hefðu ráðherrar þurft að segja af sér embætti án mikillar umræðu. En við Íslendingar erum staddir talsvert aftar en nágrannaþjóðirnar þegar kemur að siðferðisviðmiðum.

Einungis Sigríður Andersen, fyrrum dómsmálaráðherra, hefur þurft að víkja úr embætti vegna klúðurs í embættisfærslu sinni. Hún mun ekki hafa ætlað að segja af sér en hermt er að Katrín Jakobsdóttir hafi heimtað afsögn hennar að viðlögðum stjórnarslitum. Forsætisráðherra, sem virkaði oft yfirveguð þótt úr því hafi dregið, setti skilyrði á ríkisstjórnarfundi og vöknaði meira að segja um augu þegar hún tilkynnti stjórnarslit ef Sigríður Andersen yrði ekki látin víkja. Menn voru ekki til í að láta mistök hennar leiða til stjórnarslita og því var Sigríði fórnað. Hún mun seint fyrirgefa það.

Ýmiss vandræðamál hafa komið upp, einkum vegna brota ráðherra á sóttvernarreglum sem þeir settu sjálfir og ætluðust til að landsmenn færu eftir. Bæði formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins brutu þessar reglur og sýndu afleitfordæmi.

Þórdís Kolbrún var hálfan sólarhring í gleðsklap með vinkonum sínum sem fundu þörf hjá sér til að birta myndir af gleðskap sínum opinberlega þegar þjóðinni var ætlað að halda sér á mottunni hvað djamm og óreglu varðar. Þetta var ekki til fyrirmyndar frekar en þegar Bjarni Benediktsson tók þátt í samkvæmi í Ásmundarsal á Þorláksmessu þar sem allar fjöldatakmarkanir voru brotnar og aðrar umgengnisreglur sem ríkisstjórnin hafði sett landsmönnum.

Bjarni braut þessar reglur, lögreglan var kölluð á vettvang til að leysa upp samkvæmið og svo hófst langvarandi þref um þð hverjum hafi verið um að kenna. Dómsmálaráðherra var meðal annars í símasambandi við lögreglustjórann langt fram eftir aðfangadegi jóla, að því er virtist til að reyna að stýra skýrslugerð vegna málsins.

Ekki hvarflaði að formanni eða varaformanni Sjálfstæðisflokksins að axla ábyrgð vegna þessara mistaka. Ekki frekar en dómsmálaráðherra sem varð uppvís að því að nota björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar til að skutla sér fram og til baka þegar hún tók þátt í hestaferð á hálendinu sem engan veginn tengdist embættisverkum hennar. Á meðan var þyrlan ekki tiltæk til björgunarstarfa eins og henni er ætlað.

Sigurður Ingi Jóhannsson er því ekki fyrsti ráðherra vinstri stjórnarinnar sem fer hressilega út af sporinu þegar hann kom fram með rasískum hætti á bændaþingi. Hann og flokksmenn hans reyna að gera lítið úr klúðri ráðherrans. Þannig sagði frambjóðandi flokksins í Reykjavík að hann teldi að mál Sigurðar væri búið með því að hann baðst afsökunarnauðugur seint og um síðir.

Þetta er mikill misskilningur. Þegar menn er komnir á þann stall að stýra stjórnmálaflokki og gegna ráðherraembætti eru gerðar mun meiri kröfur til þeirra en okkar hinna. Þeir eru fyrirmyndir sem geta ekki leyft sér hvað sem er. Það er gjaldið sem þeir verða að gjalda fyrir að komast á toppinn. Sigurður sendi aðstoðarmann sinn fram á völlinn til að segja ósatt og reyna að villa fjölmiðlum sýn. Það mistókst en er að sönnu mjög alvarlegt mál. Þó að Sigurður Ingi og bandamenn hans vilji gleyma þessu klúðri sem fyrst, mun það ekki takast. Hann verður að axla ábyrgð. Annars verður enginn friður.

Að lokum má spyrja: Hvers vegna krefst Katrín Jakobsdóttir ekki afsagnar Sigurðar Inga eins og hún krafðist vegna Sigríðar Andersen á sínum tíma? Lá Sigríður betur við höggi? Óttast hún að ríkisstjórn hennar liðist í sundur ef Sigurður fer? Eða er skýringin einungis sú að Sigríður er kona en Sigurður Ingi Jóhannsson er karl?

- Ólafur Arnarson