Íslenska ríkið var í gær sýknað í Héraðsdómi Reykjavíkur af bótakröfu umsækjanda um starf forstöðumanns við spítala. Umsækjandanum var hafnað í ráðningarferlinu vegna aldurs en honum hafði verið áður sagt upp á spítalanum þegar hann var sjötugur en fékk tímabundna ráðningu sem starfsmaður á tímakaupi.
Spítalinn auglýsti síðan stöðu forstöðumanns og sótti viðkomandi um en fékk þau skilaboð að hann yrði ekki boðaður í viðtal sökum aldurs.
Starfsmaðurinn sem hélt sömu vinnu eftir sjötugsaldurinn komst að því að þegar hann var færður í tímakaup í stað fastra launa fékk hann um 20 til 25 prósent lægri laun en áður, fyrir sömu vinnu.
Þá setti spítalinn hann á vaktir án þess að ganga frá áframhaldandi ráðningu eða bætt úr launakjörum hans.
Því sótti hann um stöðu forstöðumanns sem var auglýst til fimm ára en maðurinn hefði þá verið orðinn 75 ára þegar starfsskyldum hans myndi ljúka.
Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur hafnaði bótakröfu mannsins og sagði ákvörðun spítalans í samræmi við lög og hún hafi ekki brotið gegn stjórnarskrá eða meðalhófsreglu.