Í þættinum Ég bara spyr sem sýndur verður á Hringbraut kl.21.30 í kvöld, er rætt við Björn Þorra Viktorsson, hrl. Borin verður upp spurning frá áhorfanda sem spyr hvort hið opinbera sé að þvinga fólk í bankaviðskipti og hvort það sé löglegt. Fyrirspurnin var send inn á Spyr.is og þar segir fyrirspyrjandi að hann hafi hætt viðskiptum við bankann sinn með því að loka debet og kreditkortum. Síðar hafi komið í ljós að Tryggingastofnun segist ekki geta greitt örorkubætur ef viðkomandi er ekki með reikning í banka, skatturinn getur ekki endurgreitt ofgreiddan skatt og fjöldinn allur af stofnunum og sveitarfélögum taka ekki við peningum til greiðslu.
Björn Þorri segir að samkvæmt lögum gildi enn þær reglur að íslenska krónan sé lögeyrir landsins. Þess vegna eigi allir rétt á því að greiða hinu opinbera með seðlum eða mynt. Hins vegar hafi rafeyrir tekið við mjög hratt síðustu áratugi og Ísland hafi tekið upp fjöldan allan af tilskipunum frá EES, án þess að huga að breytingum á öðru í regluverkinu.
Brot úr þætti kvöldsins má sjá hér að neðan en hann verður endursýndur allan miðvikudag og um næstu helgi.
Þátturinn Ég bara spyr byggir á spurningum sem áhorfendur Hringbrautar senda til fyrirspurnargáttarinnar Spyr.is. Smelltu hér til að taka þátt og senda inn spurningu: SPYR.IS - SENDA SPURNINGU