Myndarlegustu sjávarútvegsfyrirtæki landsins eru meðal allra flottustu og ríkustu fyrirtækjanna á Íslandi. Opinberar upplýsingar sýna að mörg þessara fyrirtækja skila árlega milljarða hagnaði, greiða sem betur fer drjúgan tekjuskatt og skila eigendum sínum miklum arði, mörgum milljörðum króna á ári þau öflugustu.
Dagfari fagnar þessu enda gerir hann sér ljóst hve öflug fyrirtæki eru samfélaginu mikilvæg. Eina sem truflar er að ríkið þurfi sífellt að koma þessari atvinnugrein til hjálpar á sama tíma og aðrar atvinnugreinar – að landbúnaði undanskyldum – standa á eigin fótum og skila sínu til samfélagsins hjálparlaust.
Nýjasta dæmið um þetta er nýr samningur sjómanna og útgerðarmanna frá 24. júní sl. Aðilar náðu þá að semja eftir langt þref og gerðu samning sem gildir til ársloka 2018. Greint er frá því í Fréttablaðinu að við frágang samningsins hafi ríkið komið til skjalanna og afsalað sér skatttekjum vegna sjómanna að fjárhæð 500 milljónir króna. Með öðrum orðum gátu útgerðarmenn ekki samið þannig við sjómenn að greiðslur frá þeim dygðu til að ljúka samningum. Það þurfti atbeina ríkisins til þess. Ríkið er þannig að styrkja útgerðarmenn um 500 milljónir króna til þess að unnt sé að bæta kjör sjómanna sem vinna hjá útgerðunum.
Hefði ekki verið eðlilegt að útgerðirnar hefðu sjálfar tekið á sig kostnaðinn við sjómannasamningana eins og aðrar atvinnugreinar þurfa að gera gagnvart starfsfólki sínu? Samningar á vinnumarkaði einkennast af almennu inngripi ríkisvaldsins með breytingum á sköttum og gjöldum sem ganga þá jafnt yfir allar atvinnugreinar. Það á t.d. við um tekjuskatta og atvinnuleysistryggingargjöld. En þegar kemur að sjávarútvegi þarf að styrkja útgerðarmenn um stórar fjárhæðir að auki til þess að unnt sé að loka samningum við sjómenn. Í þessu tilviki um 500 milljónir króna.
Hér er þó um smáar fjárhæðir að ræða miðað við það sem núverandi ríkisstjórn hefur gert varðandi innheimtu á veiðileyfagjöldum sem útgerðin greiðir fyrir afnot af sjávarauðlindinni sem er sameign þjóðarinnar. Í Fréttatímanum þann 2. júlí kemur fram að ríkisstjórnin boði 8,8 milljarða króna lækkun á veiðigjöldum til viðbótar við 9,6 milljarða lækkanir sem þegar hafa komið til framkvæmda. Gangi þetta eftir mun ríkisstjórninni takast að lækka veiðigjöldin um 18,4 milljarða króna á yfirstandandi kjörtímabili.
Hér er um ótrúlegar fjárhæðir að ræða og furðulegt að þetta skuli ekki vekja meiri athygli og umfjöllun fjölmiðla.
Á því eru skýringar en þó einungis að hluta: Morgunblaðið er í eigu sægreifa sem vilja auðvitað hafa veiðigjöldin sem lægst. Ekki þarf heldur að búast við gagnrýnisröddum á þessa framvindu frá DV eða Eyjunni og ekki frá Bændablaðinu. En hvar eru aðrir fjölmiðlar? Þykir RÚV þetta ekki merkilegt umfjöllunarefni eða miðlum 365 svo bent sé á þá allra stærstu.
Sjávarútvegur á Íslandi er öflug og myndarleg atvinnugrein sem þarf ekki á ölmusum að halda frá ríkisvaldinu. Útgerðin hefur alla burði til að greiða sanngjarnt afnotagjald að sjávarauðlindinni sem er dýrmætasta auðlind þjóðarinnar og í sameign landsmanna.
Hér er á ferðinni eitthvert mesta réttlætismál okkar tíma og um það verður kosið í komandi þingkosningum. Þá geta kjósendur tekið afstöðu til stefnu núverandi stjórnarflokka sem vilja breyta eðlilegu kvótakerfi í gjafakvótakerfi fyrir fáa útvalda. Vonandi býðst kjósendum þá að kjósa aðra flokka sem vilja sanngjarnt afgjald af sameign þjóðarinnar í sameiginlega sjóði landsmanna.