Undirritaður hefur starfað sem lögmaður um árabil og hjálpað fjölda einstaklinga og fyrirtækja í skulda- og rekstrarvanda. Þegar kemur að því að semja við kröfuhafa og láta á það reyna að koma aðilum út úr vanda sínum þannig að rekstrargrundvöllur sé fyrir hendi þá er afstaða kröfuhafa í samningaviðræðum mjög ólík eftir því hvort um einkaaðila sé að ræða eða hið opinbera.
Í mörgum tilvikum er hægt að semja um skuldauppgjör og afskriftir með samningum við kröfuhafa sem teljast til einkaðila en þegar kemur að hinu opinbera þá eru samningaviðræður mjög erfiðar. Það er oft hreint ótrúlegt hvað hið opinbera getur verið óbilgjarnt í garð skuldara. Það sætir oft furðu hve innheimtumaður hins opinbera vinnur eftir ströngum viðmiðum þegar kemur að því að semja um opinberar kröfur eins og skattaskuldir. Oftar en ekki eru viðmiðin þannig úr garði gerð að ekkert svigrúm er til staðar til þess að vinda ofan af vanda þeirra sem skulda opinber gjöld. Gerðir eru að hámarki 6 mánaða samningar í senn þar sem skuldarinn þarf að borga himinnháa vexti sem hlaðast á höfuðstólinn. Oftar en ekki gerir þetta skuldaranum ómögulegt að halda í við afborganir.
Afstaða hins opinbera er auðvitað skiljanleg þegar kemur að sköttum og að skatta skuli greiða skilvíslega. Staðreyndin er sú að þegar búið er að semja við kröfuhafa þá strandar málið oftar en ekki á hinu opinbera. Stífni hins opinbera í að semja við skuldara um opinber gjöld er í reynd ekki að skila neinu til hins opinbera þegar upp er staðið. Okurvaxtastefna hins opinbera, ef svo má að orði komast, er heldur ekki að hjálpa þeim sem eru í vanskilum. Oftar en ekki enda þessi fyrirtæki og einstaklingar í gjaldþroti og þá er nánst öruggt að krafa hins opinbera með áföllnum okurvöxtum og kostnaði fæst aldrei greidd. Þarf því ríkissjóður að afskrifa milljarða á hverju ári vegna vangreiddra opinberra gjalda.
Það er undirrituðum algjörlega óskiljanlegt hvers vegna hið opinbera búi ekki til meira svigrúm í samningum um skil á ógreiddum opinberum gjöldum líkt og einkaaðilar gera og um leið að takmarka tap hins opinbera að þessu leyti. Þá er ótalinn kostnaðurinn sem fylgir því að leiða stjórnarmenn gjaldþrota fyrirtækis í gegnum réttarvörslukerfið vegna vangoldina skatta sem á endanum eykur kostnað hins opinbera enn frekar. Í reynd er sú úrvinnsla innan rektarvörslukerfisins galin og hafa nýlegir dómar hjá Mannréttardómsstól Evrópu staðfest það.
Við búum í smáu samfélagi og við eigum að búa okkur til kerfi sem er ekki þannig úr garði gert að það hamli framsækni og skilvirkni þeirra sem vilja skapa og búa til rekstur sem nýtist samfélaginu. Það þarf að vera til kerfi sem getur líka aðlagað sig að breyttum aðstæðu. Væri ekki nær að hið opinbera fikraði sig nær raunveruleikanum og endurskoði kerfið í þeirri mynd sem það er í dag.