Sjálfstæðisflokkurinn ýtti Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrrverandi varaformanni flokksins og ráðherra, út úr forystusveit sinni vegna mála sem snéru að niðurfellingu skulda þeirra hjóna upp á 1,700 milljónir króna en Kristján Arason var einn af yfirmönnum Kaupþings.
Margir töldu það mikil mistök að hrófla við Þorgerði enda hafði hún notið vinsælda. Þorgerður er glæsileg kona og býr yfir miklum kjörþokka sem er eitt af því sem núverandi þingmenn og ráðherra skortir hvað mest.
Þrálátur orðrómur hefur verið um endurkomu hennar í stjórnmálin. Hún hefur aðrar skoðanir á Evrópumálum en núverandi ríkisstjórn og reiddist sínum gömlu félögum í Sjálfstæðisflokknum þegar þeir ákváðu að svíkja kosningaloforðin frá vorinu 2013 um að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við ESB. Allir núverandi forystumenn flokksins höfðu í aðdraganda kosninga lofað því hátíðlega að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram á fyrri hluta núverandi kjörtímabils. Það var svikið. Þorgerður hefur tekið þátt í starfi Viðreisnar en samt ekki slitið tengsl við Sjálfstæðisflokkinn. Hún hefur því haldið öllu opnu.
Í febrúar á þessu ári fór nafn Þorgerðar Katrínar á flot varðandi hugsanlegt forsetaframboð hennar. Mörgum leist vel á þá hugmynd. En viðtökurnar sem hún fékk á samfélagsmiðlunum voru vægast sagt kuldalegar og komu á óvart. Hún mældist heldur ekki með mikið fylgi í þeim skoðanakönnunum sem þá voru framkvæmdar. Þegar hún kom út úr skugganum og lenti inn í umræðunni að nýju vegna hugsanlegs forsetaframboðs, var allt rifjað upp varðandi kúlulánið sem Kristján Arason fékk sem einn af stjórnendum Kaupþings og hvernig þau hjón færðu lánið og þau hlutabréf sem keypt voru fyrir andvirði þess inn í hlutafélag á síðustu stundu í stað þess að lánið hvíldi persónulega á þeim. Þegar hrunið dundi yfir og Kaupþing varð gjaldþrota þá féll lánið á hlutafélagið sem einnig varð gjaldþrota en ekki Kristján Arason og þau hjónin persónulaga.
Út af þessu máli risu deilur við slitastjórn Kaupþings sem stefndi Kristjáni til greiðslu stórra fjárhæða. Kristján hafði betur í þeim slag fyrir dómstólunum og þurfti því ekki að greiða neitt af 1,700 milljón króna láninu sem hann fékk frá Kaupþingi sem hluta af starfskjörum yfirmanna hjá bankanum.
Flestir héldu að með þeirri niðurstöðu væri málinu lokið og þeim hjónum báðum væru því allir vegir færir. Viðbrögðin við mögulegu forsetaframboði Þorgerðar urðu því mikil vonbrigði en reiði virtist blossa upp á samfélagsmiðlunum og fylgið var lítið í skoðanakönnunum.
Nú herma fréttir að ýmsir sjálfstæðismenn í SV-kjördæmi leggi hart að Þorgerði að gefa kost á sér til framboðs í kjördæminu. Ljóst er að flokkurinn er í miklum vanda þar varðandi uppstillingu listans fyrir næstu kosningar. Bjarni Benediktsson formaður stendur veikt vegna Tortólamála, talið er að Ragnheiður Ríkharðsdóttir ætli að hætta en hún er 67 ára, Jón Gunnarsson þykir eiga traustan stuðning en enginn spenningur er fyrir hinum þingmönnunum, Elínu Hirst og Vilhjálmi Bjarnasyni. Þá þykir varamannabekkurinn heldur þunnskipaður.
Flokkurinn verður því að finna nýja frambjóðendur í nokkur af efstu sætunum. Það hefur verið skoðað án þess að spennandi hugmyndir hafi komið fram. Engin afgerandi nöfn hafa komið upp. Helst hefur verið staldrað við sveitarstjórnarmenn en þá skortir ýmisst áhuga sjálfa eða þá þykja þeir ekki líklegir til að geta dregið fylgi að lista flokksins.
Við þessar erfiðu aðstæður hafa ýmsir sýnt því áhuga að fá Þorgerði Katrínu í framboð að nýju. Það er snúið mál vegna þess að hún var hrakin úr forystu flokksins og hún hefur verið á öndverðum meiði við flokkinn í grundvallarmálum eins og þeim sem snúa að gjaldmiðlum og utanríkisstefnu landsins. Gildir það ekki síst um Evrópumálin. Hún yrði því að kyngja stórum bitum og ekki síður þyrftu stuðningsmenn flokksins að éta mikið ofan í sig.
Vitað er að mjög skiptar skoðanir eru í flokksfélögum SV-kjördæmis um hugsanlega endurkomu Þorgerðar. Víst er að Hafnfirðingar myndu fagna henni og formaður flokksins einnig. En mjög margir mega ekki heyra á það minnst að hún komi til baka. Þorgerður Katrín myndi aldrei sætta sig við annað en að fara í fremstu forystu og hlyti að gera tilkall til ráðherradóms ef flokkurinn verður í ríkisstjórn eftir kosningar. Þar myndi hún að sjálfsögðu sóma sér vel. En þá yrði einhver annar af ráðherradómi og því er eins víst að hún eignist strax ýmsa andstæðinga innan flokksforystunnar, bæði leynt og ljóst.
Afstaða til Þorgerðar Katrínar verður blendin, bæði innan flokks og utan, fari hún í framboð. Hún mun ekki sópa til sín fylgi eins og áður ef hún velur að stíga inn á vígvöll stjórnmálanna að nýju. Draugar bankahrunsins eru langlífir og allir þeir sem voru áberandi í stóru bönkunum verða áfram skotmörk almenningsálitsins.
Vandi Sjálfstæðisflokksins er hins vegar svo mikill og mannvalið svo takmarkað í forystunni að viðbúið er að ýmsir séu tilbúnir að brjóta odd af oflæti sínu til að fá gott fólk í framboð. Það verður samt mjög tvíeggjað og gæti valdið ólgu í kjördæminu. Vafasamt er að Þorgerði Katrínu hugnist að hverfa inn í þess háttar andrúmsloft. Þá má ekki gleyma því að afar kalt er á milli Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Davíðs Oddssonar. Víst er að hann myndi ekki fagna endurkomu hennar í stjórnmálin því hún þorði að segja honum til syndanna þegar hann reyndi að hrifsa til sín aukin völd í aðdraganda hrunsins. Það verður aldrei fyrirgefið.
Sjáum hvað setur. Neyðin kennir nakinni konu að spinna. Nakta konan í þessu tilviki er Sjálfstæðisflokkurinn.