Morgunblaðið birti um helgina mikið talnaefni um sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Margt fróðlegt og merkilegt kemur þar fram. Blaðið á heiður skilið fyrir að taka saman og birta svo mikið og ítarlegt efni um sveitarfélögin í aðdraganda kosninga.
Fram koma upplýsingar um rekstrarniðurstöður einstakra sveitarfélaga árið 2017. Athygli vekur hvílíkir yfirburðir Reykjavíkur eru. Borgin er með 28 milljarða í afgang af rekstri árið 2017. Það er merkilegt í ljósi þess að stjórnarandstaðan í borginni reynir stöðugt að halda því fram að borgin sé illa rekin og fjármálastjórn borgarinnar sé veik. Þessu er þveröfugt farið. Staðan er afar sterk með 28 milljarða í afgang.
Munurinn milli Reykjavíkur og nágrannarsveitarfélaganna er gríðarlegur. Þannig er Kópavogur með næst besta árangurinn, eða 2.2 milljarða í rekstararafgang. Reykjavík er 3.5 sinnum fjölmennari en Kópavogur. En rekstrarafgangur borgarinnar er þrettánfaldur á við Kópavog!
Hafnarfjörður og Garðabær eru með rúman einn milljarð í afgang hvor, Mosfellsbær með rúman hálfan milljarð í afgang. En rekstrarniðurstaða Seltjarnarness er NEIKVÆÐ um 99 milljónir króna sem hefur valdið ólgu og óánægju í bænum og átt sinn þátt í að fram er komið klofningsframboð öfgahægrimanna sem hafa ákveðið að segja skilið við Sjálfstæðisflokkinn sem hefur ráðin ríkjum á Nesinu frá upphafi.
Einungis Reykjavík, Garðabær og Seltjarnarnes eru með skuldahlutfall undir 100% af árstekjum 2017. Seltjarnarnes með 59%, Reykjavík með 83% og Garðabær með 85%. Verst er staðan í Hafnarfirði sem er með skuldahlutfall 159%, í Kópavogi er það 133% en 104% í Mosfellsbæ.
Rtá.