Jónas Elíasson, fyrrverandi verkfræðiprófessor, fer ansi hörðum orðum um Borgarstjórn Reykjavíkur í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar vísar hann í leiðara Moggans frá því fyrr í mánuðnum, þegar því var haldið fram að fjárhagsáætlun borgarinnar staðfesti blekkingar meirihlutans fyrir kosningar.
„Eftir lestur þess texta er ljóst að Reykjavík mun aldrei leysa þau vandamál sem þarna eru á ferðinni, en hvað ætla stjórnendur borgarinnar að gera?“ spyr Jónas og bætir við: „Halda áfram að skrökva sig út úr hlutunum, sem er hreint glapræði, eða leita aðstoðar hjá ríkissjóði og skuldunautum sem er það eina sem þeir geta gert?“
Að mati Jónasar eru helstu mál borgarinnar „í hreinu rugli“ og bætir hann við að þarna sé „allt á ferðinni sem hægt er að gera rangt.“
„Stöðugur taprekstur, alröng stefnumörkun í samgöngum og vanhirða skólahúsnæðis. Niðurstaða síðustu kosninga var í samræmi við þetta, meirihlutinn féll. Inn komu framsóknarmenn með löng loforð um breytingar til hins betra. Staðan í dag er hins vegar mun verri. En þetta má víst ef maður er framsóknarmaður. Þeir hafa stjórnað íbúðalánasjóði frá upphafi, en 250 milljarða tap sem menn sjá fram á í dag er ekki þeim að kenna, nei, nei, nei.“ segir Jónas.
Jónas segir að eitthvað þurfi að gera í þessu, en segir leiðina vanfundna.
„Engin leið er að taka á fjármálum Reykjavíkur meðan stjórnendur borgarinnar eru úti á þekju í málinu. Vissir möguleikar eru í samgöngumálunum, en þær kosta erfiðar aðgerðir af hálfu löggjafarvaldsins, eins og nánar er vikið að í grein í Morgunblaðinu 11. október 2022: Reykjavík úti að aka, og óþarfi að endurtaka það hér. En að leyfa borgarstjórn Reykjavíkur að stífla samgöngumiðju landsins með glapræðispólitík gengur ekki til lengdar.“