Reykingar auka hegðunarvanda

Börn mæðra sem reykja á meðgöngunni eru nærri tvöfalt líklegri til þess að eiga við hegðunarvandamál að stríða. Jafnvel er nóg að reykt sé á heimilinu á meðgöngunni. Þetta er niðurstaða franskrar rannsóknar sem birt var í gær og RÚV segir frá.
 

Þar kemur fram að hegðun rúmlega fimm þúsund franskra grunnskólabarna liggi að baki rannsóknarinnar. Þau sem bjuggu við reykingar á meðan þau voru í móðurkviði voru líklegri til þess að vera ofbeldishneigð, óhlýðin, lygin og óheiðarleg. Isabella Annesi-Maesano, sem stýrði rannsókninni, sagði í samtali við AFP fréttaveituna að niðurstöðurnar sýni fram á að reykingar á meðgöngu tvöfaldi líkurnar á hegðunarvandamáli barna við tíu ára aldur.

Samkvæmt rannsókninni gætu eitrunaráhrif níkótíns á þróun heilans, sérstaklega á fyrstu mánuðunum, verið kveikjan að vandanum. Niðurstöðurnar sýndu að 18 prósent þeirra barna sem reykt var í kringum á meðgöngunni sýndu hegðunarvanda, samanborið við 9,7 prósent þeirra þar sem ekki var reykt. Niðurstöður sýndu einnig fram á tilfinningaraskanir, til dæmis að hræðast auðveldlega, hjá þeim börnum þar sem reykt var á meðgöngu.

Rannsóknin var unnin á þann hátt að foreldrar fylgdust með hegðun barna sinna og fylltu út spurningalista.