Guðmundur Ármann Pétursson Eyrbekkingur og Birna G. Ásbjörnsdóttir verða hjá Sjöfn Þórðar í þættinum Fasteignir og Heimili í kvöld:
Eyrarbakki er þorp með langa fortíð og bjarta framtíð með fólkinu sem þar býr. Á Eyrarbakka liggur mikil saga og menning við hvert fótmál og meira en mörgum grunar. Götumyndin gamla sem tekist hefur að varðveita á Bakkanum er einstæð meðal þéttbýlisstaða á Suðurlandi og þó víðar væri leitað. Sjöfn Þórðar heimsækir hjónin Guðmund Ármann Pétursson Eyrbekking og Birnu G. Ásbjörnsdóttur á Eyrarbakka. Undanfarin misseri hafa hjónin unnið að því að endurgera reisulegt og tignarlegt tvílyft einbýlishús, Smiðshúsið við Eyrargötu 35. Húsið stendur í hjarta Eyrarbakka við aðalgötu bæjarins á sjávarlóð á stórfenglegum útsýnisstað sem lætur engan ósnortinn. Guðmundur Ármann og Birna keyptu húsið fyrir liðlega tveimur árum, árið 2018 og endurgerðu húsið með glæsilegri útkomu. Húsið blasir við frá götunni og gleður augað með sínu stílhreina, fallega formi og áferð en húsið er klætt með lerkivið sem kemur einstaklega vel út og tónir vel við náttúruna.
Það er ekki tilviljun að þau völdu að flytja á Eyrarbakka. „Ástæðan fyrir því að við völdum þetta hús var akkúrat þetta, útsýnið í allar áttir og það stendur við hafið,“ segir Birna. Guðmundur Ármann og Birna segja að allt sé að gerast fyrir utan gluggana, fegurðin í mannlífinu og dýralífinu sama hvernig viðrar. Þeim líður ávallt vel hvort sem það er brakandi blíða eða stormasamt veður. „Fyrir mann eins og mig er dolfallinn selaáhugamaður er þetta himneskt þar sem selirnir eru liggjandi hér fyrir utan í flæðarmálinu eða svamla í sjónum þar sem við getum fylgst með þeim og notið,“ segir Guðmundur Ármann og segir jafnframt að hvergi annars staðar vilji hann vera.
Mínimalískur stíll einkennir heimilisstílinn þeirra hjóna og gráir tónar eru í forgrunni þar sem sjónsteypa fær að njóta sín til fulls. Þegar inn er komið í forstofuna blasir við eitt af fallegustu verkum Kjarvals sem setur sterkan svip á forstofuna og gerir upplifunina við innkomuna einstaka. Við fáum að sjá hvar hjarta heimilisins slær og fáum jafnframt að kynnast hjónunum betur og fjölskyldulífinu. Birnu eru margt til lista lagt og er hún meðal annars í áhugaverðu doktorsnámi í heilbrigðisvísindum og ljóstrar upp sínum hjartans málum í þættinum. Þau hjónin eiga sameiginleg áhugamál sem þau ná að flétta saman þar sem lífrænt og heilbrigt líferni er í forgrunni.
Það má líka með sanni segja að Guðmundur Ármann sé kominn heim. Guðmundur Ármann ólst upp í einu elsta og merkasta húsi landsins, Húsinu á Eyrarbakka, sem nú hýsir Byggðasafn Árnesinga. Hann þekkir því vel til á þessum slóðum og hefur frá mörgum skemmtilegum sögum að segja. Sjöfn fær einnig að kíkja aðeins inn í Húsið með Guðmundi Ármanni og njóta þess sem augum ber. „Mamma bjó okkur mjög fallegt heimili í þessu húsi og það voru forréttindi að fá að alast upp hér, “ segir Guðmundur Ármann. „Þetta er alveg himneskt hús og alveg það, var gríðarlega stórt á þessum tíma þegar það var byggt, árið 1765 þegar fólk bjó almennt í torfbæ,“ segir Guðmundur Ármann og segir að hér eigi hann góðar minningar sem gleðja. Missið ekki af áhugaverðri og skemmtilegri heimsókn til þeirra hjóna á Eyrarbakka þar sem þið fáið kynnast hjónum og híbýlum þeirra betur.
Þátturinn Fasteignir & Heimili verður á dagskrá í kvöld klukkan 20.30 og er að jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.