Reimleikar kringum nýja herjólf

Skrítnar fréttir berast nú – og hafa gert um nokkurra vikna skeið – af nýju ferjunni sem á víst að sigla milli lands og Eyja, hinum nýja Herjólfi. Þetta er ágætlega tekið saman í litlum ramma við hlið fréttar af vandræðaganginum við Eyjasiglingarnar á bls. 2 í Mogganum í dag, 7. maí. Fyrirsögnin er:

   „Krafan á sér enga stoð“


   Textinn er síðan stuttur, en skír:
   „Vegagerðin kveðst hafa freistað þess að ná samkomulagi við pólsku skipasmíðastöðina Crist S.A. um lokagreiðslu vegna smíði nýs Herjólfs og afhendingar skipsins. Á síðustu metrum smíðinnar hafi skipasmíðastöðin skyndilega krafist viðbótargreiðslu sem nemur um þriðjungi af smíðaverðinu. Að mati Vegagerðarinnar er engin stoð í samningi aðila varðandi þessa kröfu.“


   Eitt af mörgu stórundarlegu í þessu máli er að enginn fjölmiðill hefur haft döngun í sér til að kafa almennilega ofan í þetta mál. Einar Þorsteinsson í Kastljósinu gerði þó heiðarlega tilraun til þess í einu stuttu viðtali við vegamálastjóra sem hafði þau einu svör að hún gæti ekkert sagt!


   Vitað er að á smíðatíma skipsins var allri hönnun þess umsnúið og gjörbreytt til þess að það gæti orðið rafknúið. Það kostaði auðvitað stórfé og hefur Vegagerðin (ef trúa má fréttum og yfirlýsingum talsmanna Vegagerðarinnar) samþykkt einhverja kostnaðarauka vegna þess.


   Svo, þegar ljóst er að tafir verða á afhendingu skipsins, gefur Vegagerðin þær skýringar að skipasmíðastöðin hafi á „...síðustu metrum smíðinnar ... skyndilega krafist viðbótargreiðslu sem nemur um þriðjungi af smíðaverðinu.“ Það var og! Engar frekari skýringar og engin tilraun enn verið gerð til að upplýsa okkur vesæla skattgreiðendur um sjónarmið þessarar skipasmíðastöðvar. Kom þessi krafa svona bara eins og þruma úr heiðskíru lofti? Höfðu virkilega engar – alls engar – viðræður eða samskipti um þetta farið fram áður?


   Þessi skipasmíðastöð er, eins og aðrar slíkar, í grjóthörðum samkeppnisrekstri þar sem hart er barist um sérhvert verkefni. Dettur stjórnendum þessarar skipasmíðastöðvar í alvöru í hug, að hægt sé að skella á viðskiptavini sína viðbótarreikningi sem nemur þriðjungi af umsömdu smíðaverði? Bara sisvona og án frekari skýringa?


   Nei! Svo vitlausir geta þeir ekki verið! Þá fengju þeir varla fleiri verkefni í bráð! Eða hver færi að semja við slíka menn? Hér er einhver meiriháttar draugagangur á ferðinni og ljóst að Vegagerðin hefur ekki upplýst um öll atriði málsins. Það verður að kalla útilokað að skipasmíðastöð sem hefur áður skilað hundruðum nýsmíðaðra skipa og ætlar sér væntanlega að halda áfram í þeim bransa geri slík reginmistök að fara allt í einu að haga sér eins og mafíósar í New York á fyrsta fjórðungi síðustu aldar og ákveða að geðþótta þriðjungs hækkun á umsömdu verði!


   Á fyrri öldum voru kallaðir til fjölkunnugir menn, gjarnan prestar eins og Snorri á Húsafelli, til að kveða niður drauga. Hér stefnir í að í stað fjölkunnugra presta verði það dómstólar sem verði til kvaddir, þá ættu öll kurl að koma til grafar og við að fá upplýsingar um þennan draugagang sem er í kringum þetta undarlega skip – nema í landinu finnist fjölmiðlamenn með burði til að ráðast í verkefnið!