Líkamlegt sjónarmið
Þegar við upplifum ógn uppfyllist líkami okkar af adrenalíni, testosteroni, cortisoli og fleiri hormónum og við verðum reið. Vísindamenn telja að við þessar aðstæður myndist ákveðið ástand í líkamanum sem kallast ,,fight or flight” (berjast eða flýja). Talið er að ,,fight or flight” sé kóðað í DNA okkar mannanna frá því að hýbýli okkar voru hellar og aðalverkfæri okkar kylfa, svona eins og Fred Flintstone mínus bíllinn. Í þessu ástandi eykst blóðflæði til vöðvanna og minnkar til höfuðsins og við missum rökhugsun að stórum hluta. Í slíku ástandi eru auknar líkur á að fólk segi hluti sem það veit að eru óskynsamlegir, svo dæmi sé tekið.
Kenningin segir að ef blóðið flæði í framhandleggi og hendur (þá kreppir fólk gjarnan hnefana, kýlir út í loftið o.s.frv) ætli fólk að berjast. Blóðið getur líka flætt í fæturna og þá ætli fólk að flýja. Eitt fyrsta og mikilvægasta skrefið fyrir fólk með reiðistjórnunarvandamál er að fækka skiptunum sem það tekur slaginn og fjölga þeim þar sem það flýr aðstæðurnar, róar sig niður og kemur aftur. Því ógnirnar í nútímasamfélagi eru ekki sverðtígrisdýr sem ætla að éta þig og alla fjölskylduna þína, eða oftast ekki myndi ég halda. Þær ógnir sem við stöndum frammi fyrir í dag eru meira og minna tengdar sálarlífinu og okkar innri veruleika og stundum er ógnin hreinn misskilningur. En þegar við verðum reið, t.d. við maka okkar, hjartað fer að slá hraðar og við finnum að við erum að detta úr jafnvægi þá beinist ógnin oft gegn egói okkar og gildum. Dæmi: Eiginmanninum finnst mjög mikilvægt að endurvinna hluti og þegar að konan hans hendir mjólkurfernum í ruslið þó að hann sé búinn að reyna margoft að fá hana til þess að deila þessu gildi, verður hann pirraður/reiður. Næst þegar þú verður reið/ur spurðu sjálfa/n þig hvað af gildum þínum var verið að brjóta? Ágæt leið til þess að dempa reiði er að minna sig á að maður getur ekki þröngvað gildum sínum upp á aðra.
Félagsfræðilegt sjónarmið
Þó að líkamlega sjónarmiðið á reiði og árásarhneigð sé gott og gilt þá er það bara hluti af heildarmyndinni. Út frá félagsfræðilegu sjónarmiði mætti segja að líkamlegar útskýringar reiði séu bara fyrirsláttur og í raun afsökun fyrir því að missa stjórn á sér. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að reiði og árásarhneigð eru að miklu leyti lærð hegðun; fólk læri reiði og árásarhneigð með því að verða vitni að slíku endurtekið, þ.e. verður fyrir því sjálft og hermir síðan eftir. En sé hægt að læra reiði með því að sjá og herma, þá hlýtur líka að vera hægt að aflæra hana með sömu leiðum, ekki satt?
Til er uppeldisfræðilegt hegðunarmódel sem nálgast reiðivandamál einstaklinga með þessum hætti. Módelið kallast ART (Aggression Replacement Training) og er alþjóðlegt. Í þessu módeli er unnið með félagsfærni, sjálfsstjórn (reiðistjórnun) og siðferði. Mikil áhersla er lögð á sýnikennslu og hlutverkaleiki um hin ýmsu mál, s.s. færniþætti eins og að takast á við að vera skilinn út undan. Einstaklingnum er kennt að þekkja kveikjur að reiði sinni og síðan kenndar leiðir til þess dempa reiðina niður (reiðidemparar). Áhersla er lögð á að yfirfærslan eigi sér ekki stað nema að einstaklingurinn æfi ný viðbrögð við ákveðnum aðstæðnum. ART er að vaxa í vinsældum hér á landi. Annars vegar sem forvörn á öllum skólastigum þar sem kennarar sækja námskeið og keyra svo ART þjálfunina þrisvar sinnum í viku með bekknum/hópnum sínum í 12 vikur. Hins vegar sem ráðgjöf til fjölskyldna sem leita sér hjálpar við að taka á hegðunarvandamálum barna og almennum samskiptavandamálum heima fyrir. ART-teymið á Suðurlandi vinnur að kennslu og ráðgjöf í ART þjálfun hér á landi.
Að mínu mati er skynsamlegast að nálgast reiði/árásarhneigð út frá bæði líkamlegu og félagsfræðilegu sjónarmiði. Það er viðurkennt í dag að fólk býr sér til ákveðin samskiptamunstur sem erfitt er að breyta. Það getur t.d. verið lærð hegðun eins og árásarhneigð eða fýlustjórnun. Aftur á móti sýna rannsóknir okkur líka að reiðikast getur hækkað blóðþrýsting einstaklings úr 120/80 í 220/130 á svipstundu. Reiði getur látið hjartað í okkur slá á yfir 180 slögum á mínútu og látið okkur anda hraðar til þess að reyna að ná inn meira súrefni. Það er greinilega ýmislegt sem er að gerast í líkamanum þegar við verðum reið og ekki furða að fólk þurfi að vanda sig og læra með árunum hvernig takast þarf á við þessa tilfinningu.