Refsivöndurinn Ögmundur rassskellti Katrínu

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, er ósköp umkomulaus þessa dagana. Málflutningur hennar er ótrúverðugur þegar hún gagnrýnir bandamenn sína í Sovét og leggur áherslu á ríka samstöðu okkar með NATO-þjóðunum og Evrópusambandinu á sama tíma og flokkur hennar heldur sig við úrelta stefnu liðins tíma: Ísland úr NATO og herinn burt. Katrín er í forsvari fyrir ríkisstjórn sem styður NATO-aðild heils hugar – og ekki veitir af eins og ástandið er í heiminum þessa dagana. Flokkur Katrínar er einnig stækur andstæðingur Evrópusambandsins sem gegnir nú lykilhlutverki í að mynda mótvægi við yfirgang Pútíns og félaga í Rússlandi.

Forsætisráðherra er vægast sagt ótrúverðugur í málflutningi sínum og allri framkomu. Í síðustu viku heimsótti Katrín Brussel í fylgd með fréttamönnum ríkissjónvarpsins sem mynduðu hana þegar hún faðmaði leiðtoga NATO skælbrosandi og svo Evrópusambandselítuna frá sér numin af gleði. Trúlega hefur hún látið ógert að kynna þeim stefnu Vinstri grænna, sem er óbreytt frá tíma kaldastríðsins: Ísland úr NATO. Í framkomu forsætisráðherra er falskur tónn sem er fyrir neðan virðingu Íslands.

Einn helsti leiðtogi og hugmyndafræðingur sósíalista á Íslandi síðustu áratugina, Ögmundur Jónasson, er hreint ekki sáttur við formann Vinstri grænna. Hann birtir grein í Fréttablaðinu í gær þar sem hann lýsir megnri óánægju með framkomu Katrínar Jakobsdóttur og þjónkun hennar við NATO og undirstrikar að stefnu flokks þeirra hafi ekki verið breytt með formlegum hætti, grundvallarstefnumiðið allt frá stofnun flokksins hafi verið afdráttarlaus andstaða við veru Íslands í hernaðarbandalaginu NATO. Ögmundi finnst að nú sé verið að styrkja böndin við hernaðarbandalagið undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Gömlum Alþýðubandalagsmönnum og Vinstri grænum eins og Ögmundi líkar ekki við það.

Ögmundur hefur áður snuprað Katrínu með beittum og afgerandi hætti. Í endurminningabók sinni, sem kom úr um síðustu áramót, lagði hann til að nafni flokksins yrði breytt. Vinstrihreyfingin grænt framboð bæri ekki lengur nafnið með rentu undir forystu Katrínar. Ástæða væri til að sleppa VINSTRI OG GRÆNT úr heiti flokksins. Nóg væri að nota nafnið HREYFINGIN FRAMBOÐ.

Þarna hefur Ögmundur væntanlega átt við að flokkurinn fórnaði nær öllum prinsippum sínum við myndun síðustu ríkisstjórnar. Hann lét umhverfismálin frá sér, missti heilbrigðisráðuneytið, styður áfram aðild að NATO, samþykkir stórfelldar virkjanir til raforkuframleiðslu, leyfir sölu ríkisbanka og samþykkir að minnast ekki á stjórnarskrána og hálendisþjóðgarð í stjórnarsáttmálanum, en það voru helstu mál flokksins á síðasta kjörtímabili.

Við stjórnarmyndunina henti Katrín öllu frá sér og flokknum, einungis til þess að geta nært persónulegan metnað sinn og upphafningu – geta verið forsætisráðherra og fín og flott þegar komið er til Brussel til að flaðra upp um nýju vinina hjá NATO og ESB.

- Ólafur Arnarson