Reddingar og ráðstafanir

Úttekt:
 
Nokkur brot úr raunasögu íbúðamála almennings á Íslandi.
 
Nú er mikið rætt um \"aðgerðir stjórnvalda\" til að auðvelda ungu fólki að koma sér þaki yfir höfuðið. Slík umræða er aldeilis ekki ný í þjóðfélaginu og \"ráðstafanir\" til að bjarga málum eru heldur ekki nýjar. Hér verður litið yfir þennan hluta af Íslandssögunni og reynt að gefa heildarmynd af því sundurleita umhverfi sem íslenskur almenningur hefur mátt búa við í íbúðamálum sínum allt frá upphafi 20. aldarinnar til dagsins í dag.
Stórfelld vandamál
Alla tíð frá því Íslendingar fóru að flytjast á mölina, þ.e. úr sveitunum í þéttbýlið, hafa verið stórfelld vandamál tengd því að almenningur hafi hús yfir höfuðið. Ævinlega hafa einhverjir orðið til þess að blanda sér í málin og leysa vandann. Til að byrja með einvörðungu vinnuveitendur, þessir sem lokkuðu sveitafólkið á mölina til að vinna, höfðu einhver úthýsi í bakgörðum eða kjallaraherbergi, stundum ris, gegn vinnu. Sveitarfélögin, eins og Reykjavíkurbær, vildu helst ekkert af þessum umkomuleysingjum vita. Andaði köldu í garð þeirra sem ekki komu efnaðir í bæinn og borguðu snikkurum fyrir að byggja sér hús. Slíkir sem það gátu voru raunar bara kaupmenn til að byrja með.
Þegar líða tók á 20. öldina varð stjórnvöldum smám saman ljóst að ekki mátti við svo búið standa. Stefnur og straumar bárust utan úr Evrópu, jafnvel líka frá Ameríku. Til urðu stjórnmálaflokkar sem gerðu hag almennings að helstu  baráttumálum sínum og pólitísk átök  fóru að láta á sér kræla.  Áhrifin af þessum pólitísku straumum urðu smám saman svo mikil og afdrifarík að bæjarstjórnir eins og í Reykjavík og víðar, og svo landsstjórnin sjálf, gátu ekki látið ólguna framhjá sér fara. 
Fjárhagsleg byrði á skattgreiðendum
Nokkur atriði voru ávallt gegnumgangandi í raunum Íslendinga að koma sér þaki yfir höfuðið (því það hafa frá öndverðu til dagsins í dag sannarlega verið raunir!): Yfirvöldin litu á almenning sem ómaga og fjárhagslega byrði á skattgreiðendum. \"Ráðstafanir\" yfirvalda til að aðstoða fólk að komast í mannsæmandi húsnæði gerðu oft á tíðum illt verra. Yfirvöld áttu þó til að gera vel, má sérstaklega nefna þar byggingu verkamannabústaða við Hringbraut (og síðan á fleiri stöðum) í Reykjavík og byggingu Framkvæmdanefndaríðbúðanna í Breiðholti um miðjan sjöunda áratuginn. 
Þessi verkefni tryggðu aukið framboð af íbúðum, sem olli ekki verðbólgu á íbúðamarkaði en bættu verulega úr íbúðaskortinum. Aðrar \"ráðstafanir\" hafa jafnan falið í sér að afhenda fólki peninga með einhverjum hætti sem hefur ætíð leitt til verðbólgu á íbúðamarkaði, hækkað semsagt verð á íbúðum og gert fólki erfiðara fyrir að eignast íbúðir. þetta er vissulega nokkuð einfölduð mynd, en í aðalatriðum rétt, þar með taldar nýjustu \"ráðstafanir\" stjórnvalda sem byggjast á því að auka kaupmátt almennings (verðbólguhvetjandi) með því að leyfa að nýta eigið fé (séreignarlífeyrissparnað) með skattafslætti til að kaupa íbúð. 
Gegnumgangandi hefur verið, einkum undanfarna áratugi, að stjórnmálamenn hafa talið sér skylt að leysa vanda almennings og þá oftast með því að finna upp hjólið: Veðdeild Landsbanka Íslands var byrjunin um aldamótin 1900, eftir seinna stríð komu svo Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna, Húsnæðisstofnun ríksins, viðbótarlán, greiðsluerfiðleikalán, greiðslujöfnun, húsbréfakerfi, Húsnæðisstofnun breytt í Íbúðalánasjóð .... Skipt um kerfi á fárra ára fresti og svo eru menn hissa á sveiflum og vandamálum! Hér á eftir verður stiklað á aðalatriðum þessarar sögu undanfarinnar rúmlega aldar.
Upphafið
Tíminn frá því stjórnvöld hófu fyrst bein formleg afskipti af fjármögnun íbúðarhúsnæðis hér á landi fer nú að nálgast stórt hundrað ára. Það var um mitt árið 1900 að fyrsta sinn var veitt lán, fyrir tilstilli ríkisvaldsins, til byggingar íbúðarhúss. Það var í Reykjavík við Bergstaðastræti  og var lánið veitt í framhaldi af að Alþingi hafði í samþykkt lög um Veðdeild Landsbanka Íslands, lög nr. 1 frá 12. janúar árið 1900. 
Lánað var, samkvæmt þessum lögum, til 25-40 ára. Allar götur eftir þetta höfðu stjórnvöld meiri og minni afskipti af fjármögnun íbúðarhúsnæðis fyrir almenning og ávallt stóðu miklar deilur um hvað skyldi gera og hvernig standa ætti að því að almenningur, sumir sögðu alþýða manna, kæmist í öruggt og mannsæmandi húsnæði.
Allur fyrri hluti 20. aldarinnar var mikill umbrotatími. Fólk flykktist úr sveitunum á mölina og Alþingi reyndi að standa gegn þeirri þróun, bændur máttu ekki missa vinnuaflið. En, þegar Norðmenn undir lok 19. aldar fóru að vinna síld á Siglufirði og borguðu laun í beinhörðum peningum héldu vinnufólkinu úr sveitunum engin bönd! Þetta hafði verið óþekkt! Peningar! Í höndum venjulegs fólks!
Miklir fólksflutningar hófust innanlands og stóðu samfellt fram undir síðustu aldamót þegar þunginn tók að færast til flutninga frá landinu til annarra landa, einkum Noregs (það er önnur saga sem verður ekki gerð skil hér að þessu sinni). Í landinu var ekki hægt að tala um að væru innviðir til að takast á við þessar breytingar. Sama hvar á var litið. Ekki var til húsnæði í þéttbýlinu til að taka við öllu þessu fólki, ekki voru til skólar fyrir börnin, nánast engin samgöngumannvirki utan fáeinar litlar og veikbyggðar bryggjur sem oft sópuðust burt á vorin í hafísárum.
Stjórnvöld neyddust til að bregðast við neyðarástandi
Hér hefur verið lýst í ofureinföldu máli þeim vanda sem við var að etja á Íslandi fyrri hluta síðustu aldar. Það má draga enn meira saman: Neyðarástand ríkti meðal almennings og stjórnvöld gátu ekki annað en brugðist við. En - hvernig?
Hið gróna viðhorf var að ekki skyldi ausa fé í umrenninga og ónytjunga. Samt - eitthvað varð að gera. Því brást Alþingi við og setti lög um Veðdeild Landsbankans til að lána til íbúðarhúsnæðis. Í dag mundum við trúlega lýsa þessu svo: Of lítið, of seint! Samt þó eitthvað og bjargálna menn gátu létt undir með sér við húsbyggingar með þessu. 
Hverjir byggðu hús á þessum tíma, í byrjun 20. aldar? Stöndugir bændur til sveita. Kaupmenn (oft norskir) í kaupstöðum. Skipstjórar, fyrst á kútterum, svo á togurum. Og í skjóli skipstjóranna byggðu í Reykjavík stundum stýrimenn eða vélstjórar þairra, jafnvel lægra settir, minni hús í bakgarðinum. Kannski kom Veðdeildin þar líka við sögu. 
Það var ekki fyrr en um 1930 að fór að rofa svolítið til í húsnæðismálum alþýðu á Íslandi, þegar verkamannabústaðirnir risu við Hringbraut. Byltingarkennd hús og sannarlega mikil bót fyrir það fólk sem var svo lánsamt að fá þar inni, langt í frá þó að svara þörfinni.
En, þá kom Kreppan! Kreppan mikla. Framkvæmdis drógust saman, en ekki þörf fólks fyrir húnæði. Minna fé var til ráðstöfunar hjá hinu opinbera sem leiddi til þess að byggð voru óttaleg hreysi, timburhús af miklum vanefnum (miklum sparnaði?), illa einangruð og köld. Svo komu stríðsárin og enn meiri þörf fyrir húsnæði í þéttbýlinu. Margir neyddust til að byggja sjálfir, af vanefnum og vankunnáttu. Enn eru mörg þeirra húsa í noitkun og gríðarlega viðhaldsfrek, enda ekki til þeirra vandað í byrjun. Svo kom herinn - og braggarnir! 
Framhald.
 
Úttekt er á ábyrgð útgefanda.