Raunveruleikastjörnur án raunveruleikatengsla

 Svokallaðar raunveruleikastjörnur eru einkum frægar fyrir það eitt að vera frægar.

 
Sumir stjórnmálamenn geta sér einkum orð fyrir að hafa kvatt raunveruleikann. Þeir lifa í sínum eigin heimi og laga staðreyndir að því sem hentar þeim best á hverjum tíma. Lygi einkennir gjarnan málflutning þeirra. Eða ætti frekar að orða það með þeim hætti að þeim takist að breyta staðreyndum og laga þær að hugarheimi sínum. Þannig breytist lygi í trú. Hljómar þeð ekki miklu betur, er það ekki mildara?
 
Sif Sigmarsdóttir birti snarpan pistil í Fréttablaðinu um síðustu helgi. Hún benti á margt athyglisvert. M.a. þetta: 
 
“Stjórnmálaumræða virðist í auknum mæli hafin yfir staðreyndir. Sé lygi endurtekin nógu oft verður hún sannleikur. Í Bandaríkjunum er Donald Trump helsti kyndilberi þessarar pólitísku afstæðishyggju.”
Hún bætir því við að Vladimir Pútín hafi að sama skapi einkar gott lag á að rugla alþjóðasamfélagið í ríminu með uppspuna og rangfærslum. Hún nefnir dæmi um það máli sínu til stuðnings.
 
Þá beinir hún sjónum sínum hingað heim og spyr: “Hvað gerðist á flokksþingi Framsóknarflokksins? Við fengum fréttir af hurðaskellum, skrúfað var niður í völdum fundargestum, fúkyrði fuku og fólk rauk á dyr. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tapaði formannskjöri. Eða hvað? Ekki leið á löngu uns Sigmundur Davíð mætti á völlinn með samsæriskenningarnar reiddar á loft. Hver slökkti í alvörunni á netútsendingunni? Hvaða dularfulla fólk var þetta í rútunum?”
 
Svo bætti hún við: “Í fyrstu var þetta fyndið. “Já, já, krútt, það er leiðinlegt að tapa.” En svo kárnaði gamanið.”
 
Niðurstaða hennar er þessi: \"Stjórnmálamenn á borð við Trump, Pútín og Sigmund Davíð sem kvatt hafa raunveruleikann virðast sakleysislegir bullukollar. Svo er þó ekki. Þeir eru alvarleg meinsemd á lýðræðinu. Ekki vegna þess fólks sem trúir þeim, heldur vegna þess eitraða andrúmslofts sem bullið leiðir af sér.”
 
Glöggur greinandi, Sif Sigmarsdóttir. Andrúmsloftið í kringum fráfarandi ríkisstjórn er eitrað.