Mikil ólga er innan Vinstri grænna vegna þess að flokkurinn klúðraði tækifærum sínum til að komast í ríkisstjórn. VG verður áfram í stjórnarandstöðu næstu fjögur árin og verður næsta áhrifalaus í íslenskum stjórnmálum áfram.
Fyrir einu ári virtust Katrínu Jakobsdóttur allir vegir færir. Kannanir mældu hana með langmest fylgi þegar metið var hver hefði mest traust til að gegna embætti Forseta Íslands. Hún var í sérflokki og virtist bara þurfa að segja já.
En hún sagði nei og missti af því embætti. Vinstri menn glöddust og töldu að hún ætti brýnna erindi í landsmálunum og gæti leitt vinstri stjórn.
Skemmst er frá því að segja að hún náði hvorki að mynda vinstri né hægri stjórn þó hún fengi tækifærin. Og nú er komin til valda miðju-hægri stjórn og Vinstri grænir úti í kuldanum.
Katrín kunni ekki að vinna úr stöðunni og situr nú uppi með sárt enni og áhrifalausan flokk. Þá er komið á daginn betur en áður að þingflokkur VG er klofinn í herðar niður. Landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið ná engan veginn saman.
Katrínar Jakobsdóttur bíður nú að ákveða hvort hún játar sig sigraða og hættir sem formaður VG eða þráast við og berst áfram vonlausri baráttu með sundraðan flokk og grútspældan þingflokk.
Náttfari metur stöðuna þannig að Katrín sé sprungin og nenni þessu basli ekki mikið lengur.