Rannsóknarlögga hrósar ófærð

Ég hafði mjög gaman að þessum þáttum, þeir höfðu mikið afþreyingargildi en maður brosti út í annað oft, sérstaklega þegar kom að ýmsum senum sem varða yfirheyrslur og vinnubrögð lögreglu,” segir Gunnar Jóhannsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglu á Norðurlandi í samtali við Hringbraut.

Gunnar býr og starfar að mestu á Akureyri. Nálægðin við Siglufjörð þar sem tökur fóru að mestu fram í Ófærð skópu sérstaka tengingu við lögreglumenn norðanlands en sögusvið þáttanna er Seyðisfjörður. Gunnar segir að löggur þær sem hann hafi heyrt í hafi almennt setið spenntar yfir þáttunum, ekki sé ólíklegt að ófærðin og allur snjórinn hafi aukið við áhuga Norðlendinga, því vetrarríkið sé staðreynd þessa dagana og margt fari úr skorðum vegna þess. Hvað varði vinnubrögð lögreglu sé raunveruleikinn aftur á móti töluvert frábrugðinn því sem sett hafi verið á svið. Það eigi reyndar við um svona þáttaraðir á alþjóðavísu.

“Þetta er auðvitað allt fært í stílinn til að bera frásögnina uppi. Í Ófærð voru vinnubrögð sem aldrei eru viðhöfð hjá lögreglu, ekki í daglegu amstri. Auðvitað standa menn ekki svona að handtökum eða yfirheyrslum eins og í þáttunum,\" segir Gunnar og brosir.

Gunnar segist aftur á móti hafa tengt mjög vel við nálægðarvandann og ýmsar áskoranir sem löggur í fámenni standa frammi fyrir.  Það hafi verið býsna áhrifamikið þegar lögreglustjórinn í Ófærð þurfti að velja milli eigin fjölskyldu og réttvísinnar. “Já, nálægðarvandinn er hutur sem við þekkjum vel hér. Í okkar samfélagi getur maður alltaf lent í því að þurfa að afgreiða mál bæði hjá vinum og vandamönnum. Það getur verið mjög erfitt.”

Spurður sérstaklega um mansalið og þá hættu sem skapast á því sviði samfara uppgangi í störfum hér, þar sem fjöldi fólks er fluttur til landsins bæði vegna ferðaþjónustu og byggingaframkvæmda, segir Gunnar að sá hluti tali mjög sterkt inn í samtímann. \"Það eru ótrúlega margir til í að gera að því er virðist hvað sem er til að græða peninga. Því hefur maður kynnst í þessu starfi.”

Hann segir þó að engin vinnumansalsmál séu á borði lögreglu á Norðurlandi sem stendur. Menn átti sig þó á blikkandi aðvörunarljósum út um allt og mikilvægt sé að verkalýðsfélög haldi vöku sinni.

-BÞ