Ég fékk versta hausverk sem ég hef fengið ekki alls fyrir löngu. Verkurinn skall á mér þar sem ég sat í miðjum skrifum við tölvuna. Honum fylgdi svimi og slappleiki og konan mín sem sat gegnt mér við eldhúsborðið heima fylgdi mér í snarhasti út í bíl með þeim orðum að allir ættu að vita að ef fólk fengi verri hausverk en það hefði nokkru sinni fengið áður gæti það verið ávísun á heilablæðingu. Engan tíma mætti missa.
Ég er miðaldra karl, alinn upp í íhaldssamri sveit, enn að berjast við drauga úr uppvextinum um að sá sé aumingi sem leiti sér aðstoðar á spítala án þess að vera dauður! Hokinn af skaðlegri karlmennsku sem ég þó reyni að vinna bug á dag hvern en með misgóðum árangri. Mitt í versta verknum skammaðist ég mín að hafa aðeins grun, ekki sönnun fyrir að vera illa veikur þegar konan leiddi mig inn fyrir dyr spítalans. Þakklæti kviknaði þó fljótlega í brjósti þegar fagfólk bráðamóttökunnar tók við mér. Rannsóknir hófust á leifturhraða en þó með miklu fumleysi. Maður var stunginn út og suður eins og gengur, tvær sneiðmyndatökur gerðar af höfðinu. Allt til fyrirmyndar, ómetanlegt að vera í höndum sérfræðinga, enda hafa heilablæðingar leikið suma ættingja mína grátt.
Engin merki fundust um blæðingu eða önnur alvarleg mein. Tvær tilfinningar tókust á í mér, önnur tengd feginleika, hin öllu verri, að ég væri svona norðlensk útgáfa af taugaveikluðum Woody Allen sem hefði betur sleppt því að sóa dýrmætum tíma starfsfólksins og konunnar minnar með því að láta tímabundinn sársauka draga mig upp á spítala. Hefði betur lagt mig heima og tekið 800 milligrömm af verkjalyfi!
Blóðþrýstingurinn lækkaði smám saman, verkirnir fjöruðu út. Óútskýrt eins og svo margt annað í tilveru vorri. Þegar einn starfsmanna spítalans sá að ég var í laumi að reyna að nálgast fistölvuna mína (sem ég hafði stolist til að taka með mér ef fyrir mér ætti að liggja að fara með sjúkraflugi suður og dvelja þar kannski vikum saman) var ég skammaður. En útskrifaður nokkru síðar og skipað að fara betur með mig. Hef ekki kennt mér meins síðar. Takk fyrir það, tilvera góð.
Nokkrum dögum síðar var ég vafrandi um í heimabankanum mínum, blankur að venju. Kom ég þá auga á rukkun upp á 33.000 krónur vegna heimsóknarinnar á spítalann. Varð mér þá ljós refsing þeirrar ákvörðunar að hafa brugðist ábyrgt við. Hafandi greitt skatta í þrjá og hálfan áratug datt mér í hug að það myndi ekki kosta augun úr að leita sér aðstoðar út af vondum verk í höfði. Ég er borgunarmaður fyrir þessum reikningi, þótt mér svíði fjárhæðin. En er sú staða komin upp – og sá er kjarni þessa pistils – að aðeins sumir hafi efni á að láta rannsaka sig ef grunur kviknar um bráðaveikindi?
Thanks for nothing, Kristján Þór Júlíusson og fyrri kollegar í ráðherrastétt. Takk fyrir að koma okkar litla og samheldna samfélagi í þá stöðu að stéttskipta heilbrigðisþjónustu eftir efnahag. Takk fyrir að kljúfa fyrrum heilbrigðisjöfnuð okkar landsmanna í herðar niður!
Skilaboð ríkisins til okkar að óbreyttu: Ef þú heldur að þú kunnir að vera í lífshættu, veltu því þá fyrir þér áður en þú grípur til aðgerða hvort þú hafir efni á að lifa þær af...
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst á Kvikunni á hringbraut.is)