Á sama tíma og vísbendingar eru um að fleiri Íslendingar en nokkru sinni krefjist róttækra breytinga á samfélagsgerðinni eins og sést í fylgishruni hjá hefðbundnum stjórnmálaflokkum skv. skoðanakönnunum, kemur fram í rannsókn Birgis Guðmundssonar, dósents í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri, að ráðandi straumar á samfélagsmiðlum og einkum skoðanir þekktra íslenskra álitsgjafa í netheimum kunni að hafa meiri foráhrif á útkomu afurða íslenskra blaðamanna en eigenda- og peningavald. Hefur orðið nokkur umræða um rannsóknarniðurstöður Birgis og hefur rannsóknin valdið nokkrum usla meðal álitsgjafanna sjálfra sem hafa gagnrýnt niðurstöðuna.Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur aftur á móti hrósað rannsókninni í viðtali á Útvarpi Sögu. Hún er sammála Birgi um mikilvægi þess að beina kastljósinu að óvægnum áhrifum álitsgjafanna þegar kemur að fjölmiðlun samtímans. Vigdís kvartaði undan óvæginni umræðu á samfélagsmiðlum á sama tíma og hún kallaði Láru Hönnu Einarsdóttur samfélagsrýni „viðrini“ á facebook-síðu sinni. Sama dag og Vigdís kallaði Láru Hönnu viðrini flutti Ólöf Nordahl innanríkisráðherra Hólaræðu í Hjaltadal og lagði áherslu á mikilvægi þess að þjóðin vandi orðfæri sitt í netheimum. Að þingmaður kalli þýðanda og þjóðfélagsrýni „viðrini“ í facebook-færslu er merki um breytta orðræðu og hugsanlega andsvar ráðafólks eftir að samfélagsmiðlar komu fram. Hér á landi tók facebook flugið á svipuðum tíma og efnahagshrunið kollvarpaði landinu haustið 2008. Tjáningin varð hispurslausari en áður, enda minni ritskoðun. Hefðbundnir fjölmiðlar gátu fyrir tíma Internetsins þrýst niður pottlokinu ef suða kom upp. Ekki fengu allir greinar sínar birtar í blöðum.
MFS: Skornir niður úr snörunni?
Ýmsar fjölmiðlarannsóknir hafa sýnt fram á að það getur skipt töluverðu máli upp á sjónarhorn frétta og opinbera tjáningu hverjir eiga fjölmiðla. Óprúttið eigendavald hefur verið talið stuðla að sjálfsritskoðun þeirra blaðamanna sem starfa hjá óprúttnum eiganda. Það verður að kallast ný túlkun að jafna eignalitlum álitsgjöfum í þessum efnum við eigendavald fjölmiðla. Ef forríkir einstaklingar eða valdablokkir eiga fjölmiðla leitast viðkomandi öfl oft við að undirbyggja veldi sitt með eignarhaldinu þótt rekstur fjölmiðla þeirra í afmörkuðu ljósi og án afleiddra áhrifa megi með bókhaldinu einu og sér flokka sem taprekstur. Rannsóknarniðurstöður Birgis Guðmundssonar skera með vissum hætti þá sem taldir hafa verið raunverulegir valdhafar í áróðursstríðum niður úr snörunni eins og lesa mál um í Stjórnmál og stjórnsýsla.
Klemma starfsins
Birgir byggir rannsókn sína á viðtölum við sex blaðamenn. Segir í grein hans um rannsóknina að hann hafi viljað kanna hvað skýrði að í könnun fyrir tveimur árum sögðust 45% innlendra blaða- og fréttamanna beita sjálfsritskoðun í vinnunni. Sjálfsritskoðun er almennt talið merki um óheilbrigða upplýsingastýringu fremur en almenna skynsemi blaðamanna. Með sjálfsritskoðun er t.d. átt við að blaðamenn fælist frá því að flytja sannar og mikilvægar upplýsingar vegna ótta við afleiðingar að birtingu lokinni. Í fjölmiðlafræði hefur verið talið að almannahagsmunum sé best borgið með hinu frjálsa orði og sem dreifðustu eignarhaldi. Í krafti áskrifendavalds frá almenningi séu blaða- og fréttamenn ólíklegri til að láta það sig varða hvort allt gæti orðið vitlaust í kjölfar skrifa þeirra en ef valdamikill aðili á risavaxna fjölmiðlasamsteypu, það er í þeim tilfellum sem fréttir kunna að styggja eigandann eða lífsskoðanir hans. Blaðamenn hafa samkvæmt siðareglum helstan trúnað við almenning í störfum sínum en sérhagsmunir blaðamanna við fréttavinnslu geta verið að birting viðkvæmra en mikilvægra upplýsinga komi eigendum fjölmiðlanna illa. Sú er klemma starfsins. Hagsmunaárekstrar blaðamanna sjálfra eiga ekki að leiða til þess að almenningur fái bjagaðar upplýsingar eða að fréttir séu „drepnar“ fyrir birtingu af því að birtingin sé líkleg til að hafa í för með sér neikvæð áhrif fyrir blaðamanninn. En því uppsafnaðra sem eigendavaldið er, því erfiðara uppdráttar á frjáls fjölmiðlun.
Illugi sterkari en auðvaldið?
Birgir hefur nefnt í fjölmiðlaviðtölum um eigin rannsókn sérstaklega nöfn Hallgríms Helgasonar, Illuga Jökulssonar og Guðmundar Andra Thorssonar sem álitsgjafa sem njóti mikilla áhrifa. Birgir stillir þeim að nokkru leyti upp sem hinum nýju „valdhöfum“ eða „skuggastjórnendum“ umræðunnar. Blaðamenn sjálfsritskoði afurðir sínar, skrifi ekki það sem þeir ættu að skrifa, af ótta við viðbrögð leiðandi álitsgjafa og almennings á samfélagsmiðlum. Einn viðmælandi Birgis hefur ama af því að vera „taggaður“ á facebook, þegar fréttir eftir hann birtast að því er fram kemur í rannsókninni.
Orðrétt segir í grein Birgis um helstu rannsóknarniðurstöður: „Samfélagsumræðan var ótvírætt meginþema, ekki síst umræðan á bloggsíðum og samfélagsmiðlum, sem er greinilega mikilvægur áhrifaþáttur á sjálfsritskoðun og ritstjórnarlegar ákvarðanir blaðamanna - í raun jafnvel meiri áhrifavaldur en eigendavald eða markaðshagsmunir fjölmiðlafyrirtækjanna.“
Niðurstaða Birgis vekur upp ýmsar spurningar eins og hvort meginstraums blaðamenn hér á landi séu að jafnaði í svo litlum samskiptum við þann hóp sem þeir eiga þó alla daga að vinna fyrir, \"hinn sauðsvarta almúga\", að þeim líki hið netvædda návígi illa.
Innbyggðir árekstrar
Formgerðarfræðingar í fjölmiðlafræðiheiminum hafa bent á að eigendur fjölmiðla kaupi þá upp til að auka völd sín eða vina þeirra. Ekki endilega til að hagnast á þeim heldur til að hafa áhrif á umræðu og eða styðja við aðra efnahagspólitíska starfsemi eigendanna. Sem dæmi um gagnrýna kennimenn sem bent hafa á þetta má nefna bandaríska boðskiptafræðinginn dr. Robert McChesney og fræðimennina Herman og Chomsky. Ef tilgangur eignarhaldsins er ekki að leyfa hinu frjálsa orði að flæða heldur hafa áhrif á umræðuna eru miklar líkur á árekstrum milli blaðamanna og „eigenda þeirra“ sem greiða þeim laun um hver mánaðamót. Rakin hafa verið dæmi eins og þegar núverandi blaðamenn Kjarnans hættu störfum hjá fjölmiðlarisanum 365 eftir afskipti Jóns Ásgeirs Jóhannessonar af fréttum þeirra. Vísbendingar eru um að oftar en ekki séu engar sögur sagðar af svona atvikum, að valdið sé almenningi og jafnvel blaðamönnum sjálfum dulið. Sögur af árekstrum koma sjaldnast upp á yfirborðið en það kann að hafa þýðingu fyrir almenning að átta sig á að mörg rimman getur átt sér stað innan ritstjórna án þess að nokkur utan hennar hafi veður af.
Milljón dala spurningin
Þorbjörn Karlsson prófessor og Ragnar Karlsson, sem báðir kenna meistaranemum í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands, hafa grafið upp gögn og kynnt í rannsókn sem sýnir að þegar Exista keypti Viðskiptablaðið fyrir nokkrum árum tóku eigendur sérstaklega fram að sú fjárfesting væri ekki gerð í hagnaðarskyni. Hvers vegna þá, er milljón dala spurningin. Vert er að hafa í huga í þessum efnum að eigendur ráða til sín þá ritstjóra sem þeim sýnist en sjaldgæfara er að ritstjórar velji sér eigendur. Í heimi einkum Fréttablaðsins og DV hafa verið nokkur ör ritstjóraumskipti síðari misseri.
Blaðamenn átti sig ekki á eigendavaldi
Guðbjörg Hildur Kolbeins, doktor í fjölmiðlafræði, bendir á að íslenskir blaðamenn átti sig í raun lítt á eigendavaldi jafnvel þeirra fjölmiðla sem þeir starfi sjálfir á. Það kunni að skýra hvers vegna sex viðmælendur Birgis Guðmundssonar, telji að áhrif samfélagsmiðla og álitsgjafa í netheimum séu jafnvel meiri en eigenda. „Sú hugsun felst í hugtakinu \"frjáls blaðamennska\" að fjölmiðlarnir séu með öllu lausir við nokkur hagsmunatengsl. Það geta þeir auðvitað aldrei orðið því einhver á alltaf hagsmuna að gæta, ef það eru ekki eigendurnir sjálfir þá eru það starfsmennirnir eða einhverjir tengdir þeim. Ég leyfi mér að fullyrða að á flestum fjölmiðlum hafi fréttir verið látnar hverfa eða komið skipun um að draga þær til baka. Ég varð sjálf vitni að slíku sem blaðamaður. Hins vegar eiga fjölmiðlar meiri möguleika á að vera gagnrýnir ef eignarhald þeirra er mjög dreift og ef að fjármögnun þeirra kemur úr mörgum vösum, t.d. með áskrifendum. Það er í raun almenningur sem hefur valdið til að velja um hvers konar blaðamennsku hann vill. Ég tel mjög jákvætt að litlir miðlar eins og Stundin og Kjarninn hafi náð að ryðja sér til rúms og fjölga þannig þeim röddum sem heyrast,“ segir doktor Guðbjörg Hildur Kolbeins.
Watergate afhjúpun í þökk útgefenda
Spurð um mat á stöðunni á íslenskum fjölmiðlamarkaði nú segir Guðbjörg Hildur: „Ef fagleg blaðamennska þýðir að fjölmiðlar séu að veita almenningi upplýsingar til að hann geti tekið lýðræðislegar ákvarðanir, t.d. fyrir kosningar, þá eru þeir alls ekki að standa sig. Það er hægt að deila um hvað teljist vera eðilegt, en ég spyr hvort að það séu fagleg vinnubrögð hjá fjölmiðlum að fyrir hverja frétt sem þeir gera um stefnumál stjórnmálaflokka þá geri þeir tvær um skoðanakannanir.“
Vegna rannsóknar Birgis Guðmundssonar spurði Hringbraut hvort Guðbjörg Hildur teldi að þorri blaðamanna á Íslandi sé í þeirri stöðu í dag að gæta almannahagsmuna og halda í heiðri æðsta trúnað við almenning í ljósi uppkaupa á fjölmiðlum og brotthvarfs reyndra blaðamanna. „Ég veit að mikill meirihluti blaða- og fréttamanna telur að hann vinni í þágu almennings, en þeir gleyma því að það gera þeir í umboði eigenda fjölmiðlanna. Jafnvel Katherine Graham, sem var eigandi Washington Post á Watergate-tímabilinu og sat ritstjórnarfundi, hefur sagt að hún var fyrst og fremst að gæta hagsmuna hluthafanna. Það er hins vegar áhyggjuefni að niðurskurður bitnar oft illilega á fólkinu með mestu reynsluna. Það er nauðsynlegt að hafa fólk á fjölmiðlunum sem er hokið af reynslu, og getur sett hlutina í sögulegt samhengi.
Í raun skiptir litlu máli hver á fjölmiðil, svo framarlega sem eignarhaldið er gagnsætt og að ríkisvaldið tryggi að auðvelt sé að stofna fjölmiðil og komast inn á markaðinn. Það er síðan undir notendum fjölmiðlanna komið hver lifir af og hver ekki. Það er ávallt gengið út frá því sem vísu að eigendur hafi slæm áhrif á miðlana en svo þarf alls ekki að vera. Ef fjölmiðli er beitt í þágu tiltekinna hagsmuna, er nauðsynlegt að það sé öllum ljóst og aðrir miðlar hafi þá tök á að vera gagnrýnir.“
Hið dulda vald
Guðbjörg Hildur bætir við: „Vald eigenda er að miklu leyti svo dulið að blaða- og fréttamenn gera sér ekki grein fyrir því. Það er því mjög eðlilegt að þeim finnist að umræðan í samfélaginu, og jafnvel einstakir álitsgjafar, hafi meiri áhrif, því þessi atriði eru þeim sýnilegri frá degi til dags. Eigendur fjölmiðla beita valdi sínu í gegnum stjórnendur fyrirtækjanna sem ráða og reka starfsfólk og tryggja að inn á ritstjórnirnar komi fólk sem hafi sömu gildi og fyrirtækin, og helst líka sömu hugsjónirnar. Yfirmenn á ritstjórnum geta síðan séð til þess að tilteknar fréttir séu aldrei skrifaðar. Hinn almenni blaða- og fréttamaður verður því lítið var við eigendavaldið í daglegum störfum sínum þó það vofi yfir öllu.“
Umdeild aðferðafræði
Einar Steingrímsson, prófessor við háskóla í Skotlandi og umsækjandi um stöðu rektors HÍ í sumar, gagnrýnir það vald sem Birgir Guðmundsson dósent taki sér til að leggja fram ályktandi niðurstöður út frá takmörkuðum upplýsingum. Í athugasemd við pistil Egils Helgasonar á eyjan.is, þar sem Egill brást við rannsókn Birgis og taldi langsótt að hann eða aðrir álitsgjafar „stjórnuðu umræðunni“, skrifar Einar: „Fræðimaðurinn fór þannig að að hann handvaldi sex blaðamenn og spurði þá út úr. Niðurstaðan sem hann kemst að er svo túlkun hans á því sem þessir sex blaðamenn (vinir hans?) sögðu. Það er varla hægt að draga í efa niðurstöður svona vandaðra vísindarannsókna?“
Barátta hins gamla og nýja
Í grein Hjálmars Gíslasonar sem birtist á hjalli.com segir: „Íslensk pólitík snýst ekki um hægri og vinstri, heldur um þá sem eru í meginatriðum sáttir við samfélagsgerðina og vilja sem minnstu breyta – “íhaldsvænginn”, og hina sem eru óánægðir og vilja breytingar, en eru alls ekki sammála um það hverju þeir vilja breyta –“óánægjuvænginn”.
Spyrja má hvort uppkaup fjölmiðla á markaði og baráttan um yfirráð sé að tveir ólíkir skólar innan hins íslenska fjölmiðlaheims eigi í hörðu stríði um skoðanir, viðhorf og völd. Annars vegar fari valdamiklir hópar, nokkuð íhaldssamir í sinni, þeim sem vilja óbreytta ríkisstjórn. Þessi hópur vill áfram njóta þeirra gæða sem hann hefur haft aðgang að í samfélaginu, hann trúir á „röð og reglu“ telur að einhvers konar yfirstétt í samfélaginu sé best til þess fallin að gæta almannahagsmuna. Hins vegar eru raddir grasrótarinnar, ágengar raddir blaðamanna og álitsgjafa sem þora að segja hug sinn vegna þess að þeir hafa engu að tapa að tala frjálst. Sá hópur er gjarnan ósáttur við óbreytt ástand. Starfshugsunin miðar að því að setja á dagskrá gagnrýnar spurningar.
Niðurstaða flestra sérfræðinga sem Hringbraut hefur rætt við vegna hinnar umdeildu rannsóknarniðurstöðu dósentsins er í stuttu máli eftirfarandi: Þeir sem telja að hægt sé að skella sök ritskoðunarvanda fjölmiðlamanna á Íslandi á álitsgjafa og „blóðþyrstan almenning“ þurfa að rökstyðja sitt mál betur.