Nýr þáttur sem kafar í málin

Rakel Garðarsdóttir, framleiðandi hjá Vesturporti hefur umsjón með vikulegum neytendaþætti á Hringbraut fram á vor en þar mun hún hefur vakið athygli hér á landi fyrir bókaskrif og aðra umfjöllun um almennan heimilisrekstur, ekki síst sóun og betri nýtingu matvæla.


Rakel er að auki forsvarsmaður Samtaka gegn sóun en þau hafa bent á að sóun á mat valdi mikilli umhverfismengun og auki jafnframt kostnað á matvælum. Í þáttum sínum, sem unnir eru í samvinnu við spyr.is, mun Rakel taka á mörgum þeim þáttum í heimilisrekstri og neytendamálum sem liggja í láginni og eru veitt lítil athygli, en þar má nefna aukaefni í mat, uppruna matvöru, umbúðamenningu og hverning hægt er að nýta allan mat mun betur en alla jafna er gert. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að þriðjungur af matvælaframleiðslu, um 1,3 milljarðar tonna matvæla, fari til spillis á hverju ári. Engin ástæða er til að ætla að Íslendingar séu nokkrir eftirbátar annarra þjóða í sóun matvæla. Ef tölur frá nágrannalöndum Íslands eru skoðaðar og yfirfærðar á Ísland má ætla að hver Íslendingur hendi um 100 kílóum af mat á hverju ári sem gerir samtals um 30 þúsund tonn af mat sem fer á íslenska öskuhauga.


Þáttur Rakelar er á dagskrá Hringbrautar á þriðjudagskvöldum klukkan 21.30 og endursýndur síðla sama kvöld og á völdum tímum daginn eftir.


Horfa á þættina hér: Neytendavaktin