Ragnheiður elín mun rúlla strákunum upp

Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur leitað logandi ljósi í nokkra mánuði að einhverjum sem er nógu öflugur til að geta fellt Ragnheiði Elínu Árnadóttur í prófkjöri flokksins í Suðurkjördæmi. Ragnheiður Elín þykir hafa staðið sig afskaplega illa sem ráðherra á kjörtímabilinu. Hún hefur engu áorkað og klúðrað því sem hún hefur reynt að taka sér fyrir hendur.
 
Bjarni Benediktsson gerir sér ljóst að flokkur hans mun ekki nán neinum árangri í Suðurkjördæmi með hana sem oddvita listans. Því var leitað að öflugum manni til að fella hana og leiða listann. Ljóst er að sú leit hefur ekki borið neinn árangur. Elliði bæjarstjóri hætti við þegar hann fann að ekki var eftirspurn eftir honum utan Vestmannaeyja. Þá voru nokkrar hugmyndir skoðaðar en án árangurs. Niðurstaða Bjarna var á endanum sú að hvetja Pál Magnússon, gamlan Krata og Samfylkingarmann, að fara fram gegn Ragnheiði Elínu. Það er andvana fædd hugmund og mun ekki skila neinum árangri.
 
Af einhverjum ástæðum hefur Páll Magnússon fengið þá grillu í höfuðið að hann eigi erindi á þing. Það er mikill misskilningur. Hann á ekkert erindi þangað. Páll þreifaði fyrir sér hjá nokkrum flokkum varðandi framboð en enginn sýndi því áhuga að fá hann. Ekki einu sinni hans gamli flokkur, Samfylkingin, enda varla við því að búast að sá flokkur komi þingmanni að í kjördæminu. Viðreisn hafði ekki áhuga á Páli og heldur ekki Framsókn.  
 
Í örvæntingu sinni hvatti Bjarni Benediktsson hann til að bjóða sig fram í fyrsta sæti gegn Ragnheiði Elínu. Tveir aðrir Eyjamenn sækjast einnig eftir fyrsta sætinu. Árni Johnsen og Ásmundur Friðriksson. Þrjú framboð gamalla karlmanna úr Eyjum leiðir til þess að þeir munu klóra augun hver úr öðrum og tryggja að Ragnheiður Elín glansi gegnum prófkjörið og haldi forystusætinu.
 
Ætla má að Unnur Brá Konráðsdóttir og Vilhjálmur Árnason, þingmenn flokksins í kjördæminu, sigli lygnan sjó í þessum slag og tryggi sér vænleg sæti meðan Eyjamenn vega hver annan – í litlu sem engu bróðerni. Flokkurinn hefur nú 4 þingmenn í Suðurkjördæmi og mun væntanlega fá 3 þingmenn kjörna í komandi kosningum miðað við skoðanakannanir.
 
Náttfari ætlar að spá því að niðurstaða prófkjörsins verði svona:
 
Ragnheiður Elín efst, þá Unnur Brá og loks Vilhjálmur Árnason. Þau yrðu þá kjörin á þing. Næstir þar á eftir yrðu Ásmundur Friðriksson, Árni Johnsen og Páll Magnússon í sjötta sæti.