Það hefur vakið athygli hvernig Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR vinnur að framgangi annars helsta baráttumáls síns, sem er úrsögn VR úr Alþýðusambandi Íslands. Áður en hann varð formaður gerðist það tvisvar eða þrisvar sinnum á nokkurra ára tímabili að hann lagði til í stjórn VR að félagið segði sig úr ASÍ. Það hlaut engar undirtektir.
Nú, eftir að hann er orðinn formaður, lagði hann það enn til og áður en málið er tekið til umræðu í stjórninni er hann farinn að kynna það í fjölmiðlum sem hungrar og þyrstir eftir fyrirsögnum. Þeir gína auðvitað við agninu og í ákafanum vanrækja þeir þá eðlilegu skyldu sína að kynna sér málið. Kennski ekki skrýtið, þá færi allur essensinn úr því!
Enginn fjölmiðill hefur haft fyrir því svo dæmi sé tekið að spyrja aðra stjórnarmenn félagsins, hvað segja til dæmis þeir tveir stjórnarmenn VR sem eru í miðstjórn ASÍ? Eru þeir sammála formanninum um úrsögn? Sennilega ekki. Og - alls óvíst er að tillagan njóti nokkurs stuðnings innan stjórnarinnar eða trúnaðarráðsins.
Kannski er það einmitt þess vegna að formaðurinn er farinn að viðra þá hugmynd sína að stytta sér leið með úrsögnina. Hann er kannski farinn að skynja það að erfitt gæti orðið fyrir hann að fá trúnaðarráð félagsins til að samþykkja úrsögnina. Nú hefur hann fundið leið framhjá trúnaðarráðinu og um leið framhjá hinum almennu félagsmönnum VR. Nú segir hann ASÍ aðildina vera í gegn um Landssamband verslunarmanna og því sé nóg að stjórn VR samþykki að fara úr því landssambandi, þá sé félagið sjálfkrafa um leið farið úr ASÍ. Snjallt - aftengja bara lýðræðið! Ekkert vesen!
Og fjölmiðlarnir gleypa þetta gagnrýnislaust og spyrja engra spurninga, ekki er t.d. spurt hvort það sé næg ástæða, sem Ragnar Þór hefur aðallega gefið fyrir úrsögninni úr ASÍ, að VR spari þannig 130 milljónir króna á ári. Og enginn spyr af hverju hann sé að heykjast á að fara hina lýðræðislegu leið að félagsmenn einfaldlega ákveði þetta í atkvæðagreiðslu.
Nei, það gera þeir ekki. Kannski eru þeir allir jafnmiklir kjánar og blaðamennirnir á Kjarnanum sem gleypa sögu Ragnars hráa, spyrja engra spurninga og snúa öllu á haus í ályktunum sínum eins og sést af þessari tilvitnun í lok fréttar Kjarnans um hugmynd formannsins um að aftengja lýðræðið í VR:
\"Í VR eru 33 þúsund félagsmenn, en Ragnar Þór vann yfirburðasigur í formannskosningu í fyrra, með tæplega 63 prósent atkvæða.\"
Yfirburðasigur með tæpæega 63 prósent atkvæða segir Kjarninn! 63 prósent af hverju? Jú, af 17 prosentum! Kjarninn segir náttúrlega ekki frá því, það voru 17 prósent VR-félaga sem kusu í formannskjörinu og Ragnar Þór var kjörinn með atkvæðum rétt rúmlega 10 prósenta félagsmanna. Ætli Kjarninn treysti á að sitja að glannalegum fyrirsögnum í framtíðinni með svona frjálslegri framsetningu í þágu formanns VR?
Rtá