Enn einu sinni leyfðu dagskrárgerðarmenn Bítisins á Bylgjunni Ragnari Þór Ingólfssyni að nota þátt sinn sem vopn í eigin þágu. Algjörlega óundirbúnir tóku þeir eins og gapandi ungar í hreiðri við öllum „gullkornunum“ hans þegar hann enn eina ferðina jós óhróðri og rangfærslum yfir lífeyerissjóði landsmanna. Reyndar hefur hann flutt þessa sömu ræðu nánast óbreytta í óteljandi útvarpsviðtölum undanfarin 8 ár.
Nú var stóra trompið hans það sem haft er eftir honum í fyrirsögn á visir.is upp úr viðtalinu: „Vill leysa upp Framtakssjóð Íslands: „Yfirbygging sjóðsins er með þvílíkum ólíkindum.““ Jú, hann spilaði út öðru sem hann lítur líklega á sem tromp. Hann sagðist hafa legið yfir tölum úr ársreikningum lífeyrissjóðanna. Að vísu var ekki hægt að merkja það á þeim tölum sem hann nefndi, nema hann hafi margfaldað þær í meðförum, svona hans útgáfa af „hækkun í hafi“.
Ragnari finnst mikið til um að kostnaður falli til við rekstur Framtakssjóðs Íslands og er svo undrandi að furðu sætir að hann tjái sig mikið um rekstrarkostnað yfirleitt, því augljóslega ber hann alls ekkert skynbragð á hvað sé eðlilegt og hvað ekki.
Vonandi er hann gleggri þegar kemur að rekstri stærsta launþegafélags landsins, VR, sem hann veitir formennsku og vonandi hefur hann framvegis í hávegum kröfuna um gagnsæi og allt uppi á borðum varðandi til dæmis þá tíu milljarða sjóði sem VR hefur í vörslu sinni, en veitir engar upplýsingar um hvar séu varðveittir né heldur hve mikið umsýsla þeirra kostar.
En, þegar Ragnar Þór sagðist hafa legið yfir kostnaðartölum og öðrum upplýsingum úr ársreikningum lífeyrissjóðanna og Framtakssjóðsins gat hann þess ekki að honum láðist alveg að skoða eitt mikilvægt atriði. Nema hann hafi ekki viljað segja frá því. Á vef FSÍ er frétt, dagsett 8. maí á þessu ári, með fyrirsögninni „Framtakssjóður Íslands greiðir 10,2 milljarða til eigenda\". Fram kemur í fréttinni að eftir þessa útgreiðslu hafi FSÍ greitt alls 69,1 milljarð króna til hluthafa frá upphafi (sem eru aðallega lífeyrissjóðir) en kallað inn 43,3 milljarða. Þetta þýðir að FSÍ hefur greitt um 26 milljarða króna til hluthafanna umfram fjárfestingar þeirra. Framtakssjóður Íslands hefur sem sagt skilað lífeyrissjóðunum betri ávöxtun en nokkrar aðrar eignir þeirra.
Þá stígur Ragnar Þór fram og vill leggja hann niður! Af ástæðum sem hann á erfitt með að skýra með öðru en að honum finnist kostnaðurinn vera hár! Sérfræðingarnir á Bylgjunni höfðu að sjálfsögðu ekki hugmyndaflug til að spyrja hvað væri til marks um það – sem betur fer fyrir Ragnar Þór!
rtá