Ragnar þór veit ekki að lífeyrissjóðir eiga enga hagsmuni
Hringbraut skrifar
16. janúar 2019 kl. 18:13
Fréttir & pistlar
Deila þessari færslu
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR hefur nú spilað út helsta trompi sínu í kjaraviðræðunum: Lækka iðgjöld í lífeyrissjóði til þess að hækka launin! Hér staðfestir hann að taugarnar eru að gefa sig, hann er farinn að örvænta eftir algjört árangursleysi í starfi sínu sem formaður stærsta launþegafélags landsins. Hann bregður nú á það óráð að leggja til að félagsmenn verkalýðsfélaganna gefi frá sér ellilaunin til að fjármagna hækkun launanna núna! Félagsmenn VR eiga semsagt sjálfir að fjármagna launahækkanirnar sínar! Þeir eiga með öðrum orðum að auka hagnað fyrirtækjanna með því að greiða eigin launahækkanir með því að herða sultarólina á elliárunum!
Ragnar Þór á að baki langa sögu þréhyggju gegn lífeyrissjóðum landsmanna, sérstaklega Lífeyrissjóði verslunarmanna, sem er lífeyrissjóður félagsmanna VR sem hann hefur verið kjörinn til að fara fyrir og verja hagsmuni þeirra.
Í baráttu sinni gegn lífeyrissjóðunum sést Ragnar Þór ekki fyrir og hamast gegn hagsmunum sjóðfélaganna, félagsmanna sinna og annarra launþega. Engu er líkara en hann líti á sjóðina sem einhverskonar fyrirtæki sem þurfi að knésetja. Hann kann greinilega ekkert um sögu þessara sjóða eða hvers vegna þeir voru settir á laggirnar fyrir um 50 árum. Hann veit ekki að lífeyrissjóðakerfið varð til eftir áralanga baráttu samtaka launþega og var þeirra helsta hagsmunamál.
Ragnar Þíor veit ekki heldur hvers eðlis lífeyrissjóðirnir eru - hann veit ekki að þeir eru til vegna samninga á vinnumarkaði milli launþega og launagreiðenda og að sem slíkir eiga lífeyrissjóðir enga eigin hagsmuni! En - þeir eiga gríðarlega mikilla hagsmuna að gæta! Það eru hagsmunir sjóðfélaganna, launþeganna. Engir aðrir hagsmunir eru í húfi fyrir lífeyrissjóði landsins.
Það er nefnilega svo að lífeyrissjóður, eins og íslenskir lífeyrissjóðir eru úr garði gerðir, á ekkert! Sjóðurinn gætir fjármuna sjóðfélaganna og allir þeir fjármunir renna til sjóðfélaganna um síðir sem lífeyrir.
Nú vex Ragnari Þór í augum að sjóðirnir séu stórir, segir að þeir séu allt of stórir! Og fjölmiðlarnir í kjánaskap sínum ganga ekki einu sinni á hann og biðja um að rökstyðja mál sett með einhverju öðru en \"Allir hljóta að sjá ....\" eða \"Það blasir við ....\"
Á sama tíma og almenningur hefur áhyggjur af afkomu sinni að loknu ævistarfi væri gott ráð að fá einhverja með ögn meiri þekkingu á málum en þessi formaður VR til að leggja mat á hversu vel þessir gríðarlega stóru sjóðir duga til að greiða lífeyrisþegum mánaðarlaun í formi lífeyris. Það er ekki víst að almenningur telji sig ofsælan af þeim mánaðarlaunum! Og nú vill Ragnar Þór semsagt skerða þau laun, til að geta sagst hafa náð einhverjum \"hækkunum\" í þessum kjaraviðræðum, sem hann horfir fram á að verði ævarandi minnisvarði um hans eigið getuleysi og vanhæfni.