Ragnar Þór Ingólfsson, nýkjörinn formaður VR, mætti ekki á ársfund Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LIVE) sem haldinn var sl. þriðjudag. Að sögn mun þetta hafa vakið athygli fundarmanna sem áttu von á að Ragnar Þór mætti og talaði af krafti fyrir hugmyndum sínum um gjörbreytt hlutverk lifeyrissjóða sem hann vill að fari nú að byggja ódýrar íbúðir fyrir tekjulága og láni vegna þeirra með gjafavöxtum.
Lífeyrissjóðum er óheimilt að standa fyrir annarri starfsemi en þeirri að ávaxta lífeyrissparnað sjóðsfélaga í þeim tilgangi að tryggja þeim sem mest og öruggust eftirlaun. Allar hugmyndir um að standa fyrir byggingarstarfsemi eða að lána út peninga sjóðsfélaganna á gjafavöxtum eru ólögmætar. Sjóðirnir hafa ekki heimildir til annars en að hámarka lífeyri sjóðsfélaganna. Því væri framkvæmd hugmynda formanns VR ólögmæt. Búist var við að Ragnar Þór mætti og tækist á við forystumenn LÍVE um þessa stefnum. En öllum að óvörum mun hann ekki hafa látið sjá sig á fundinum.
Ársfundur LÍVE var þó ekki tíðindalaus að sögn heimildarmanns Náttfara sem sat fundinn. Þórður Sverrisson, fyrrum forstjóri Nýherja og fyrrum framkvæmdastjóri hjá Eimskip, tók þrisvar til máls til að gagnrýna það að sjóðurinn studdi annan frambjóðanda en hann sjálfan til stjórnarsetu í HB Granda vorið 2016. Það leiddi til þess að Þórður féll úr stjórn HB Granda og virðist ekki enn vera búinn að jafna sig eftir það áfall.
Þórður hélt því fram að LÍVE hefði ekki beitt lýðræðislegum aðferðum í stjórnarkjörinu þar sem sjóðurinn óskaði eftir margfeldiskosningu til að tryggja vægi atkvæða sinna. Fram til síðasta aðalfundar hafði “lýðræðið” í HB Granda virkað þannig að Kristján Loftsson ákvað einn og sjálfur hverjir ættu sæti í stjórn félagsins. Þórði virðist hafa þótt það góð útgáfa af fyrirtækjalýðrði enda varð hann sjálfur fyrir valinu hjá Kristjáni.
Í umræðum um þetta mál kom fram að eftir að HB Grandi fór á markað hafi aðrir en fyrrverandi hluthafar, undir forystu Kristjáns Loftssonar, eignast meira en helming hlutbréfa í fyrirtækinu án þess að fá mann kjörinn í stjórn félagsins. Lífeyrissjóðir eiga nú um 40% hlutabréfa í HB Granda og þurfa að beita margfeldiskosningu til að vernda hagsmuni minnihluta en til þess eru slíkar reglur ætlaðar.
Fundarmenn munu hafa brosað góðlátlega vegna málflutnings Þórðar Sverrissonar sem einkenndist af svekkelsi þess sem tapar kosningum. Einkum þótti fundarmönnum hjákátlegt þegar hann notaði hugtakið “fyrirtækjalýðræði” eftir að hafa verið valinn í stjórn HB Granda í skjóli einveldis Kristjáns Loftssonar á meðan hann komst upp með þannig háttsemi.
Hluthafar félagsins sætta sig ekki við það lengur. Menn verða að geta tekið því að lýðræði virki þó það sé þeim ekki í hag. Annars verða þeir bara kjánalegir.