Ragnar þór gargar en getur hann eitthvað annað?

Kveikur á RÚV gefur sig út fyrir að stunda rannsóknarblaðamennsku. Enn hefur þó ekkert bólað á þessháttar vinnubrögðum í þættinum. Athygli vakti hins vegar þegar Kveikur setti upp drottningarviðtöl við þrjú nýstirni í hópi verkalýðsrekenda þriðjudagskvöldið 27. nóvember síðastliðinn. Mest voru þar áberandi yfirboð Ragnars Þórs Ingólfssonar sem lét digurbarkalega og talaði eins og hann hefði lífeyrissjóði landsmanna einn og persónulega á valdi sínu. Hann boðaði og taldi ekki vera mikið mál að beita lífeyrissjóðunum sem vopni í sinni kjarabaráttu með því að skipa þeim að hætta að fjárfesta og þá væntanlega í þeim fyrirtækjum sem ekki hlýða hans kalli?
Svo gumaði hann að því að verkalýðsfélögin væru svo vellrík að þau gætu aðveldlega stundað skæruverkföll langtímum saman og borgað verkfallsmönnum gott kaup á meðan. Kannski tæmast þeir sjóðir aldrei? 
Og kannski eru félagsmenn í VR alveg sáttir við þessháttar ráðstöfun peninganna sem þeir borga af hverri útborgun? Það er ekki lágt gjald.

Ragnar Þór talar digurbarkalega og býr til óvini. Hann hamast t.d. við að gera lífeyrissjóðina að óvinum launamanna svo undarlega sem það nú hljómar. Forverar hans í stjórn Landssambands verslunarmanna og VR og á formannsstóli eins og Magnús L. Sveinsson, Björn Þórhallsson og Guðmundur H. Garðarsson unnu hvað ötulast að því að knýja atvinnurekendur og stjórnvöld til að samþykkja þetta lífeyriskerfi sem við höfum nú launafólki til hagsbóta. En - þá kemur eftirmaður þeirra og og reynir að slá sjálfan sig til riddara með því að rífa það niður!
Það er nefnilega rétt að gæta að því hvað þessi formaður VR hefur afrekað. Hver eru verk hans til hagsbóta fyrir félagsmenn? Hefur hann skilað einhverju öðru en að garga einhvers konar árásir á hitt og þetta, aðallega lífeyriskerfið? Hefur hann skilað umbjóðendum sínum einhverju sem hægt væri að kalla kjarabætur eða aukin réttindi? Hvar er árangurinn? Mælist hann kannski í fjölda \"like\" á facebook?

En - bíðum við! Upp úr áramótum eru kosningar í VR og þá er kosið um formann! Nú er líklega gráupplagt að vekja á sér athygli með glannalegum yfirlýsingum - skítt með það þó að þær séu fullkomlega innistæðulausar! Regnar Þór treystir á að hinir almennu VR félagar nenni ekkert frekar að kjósa nú heldur en síðast og freistar þess að heilla órólegu deildina með innantómu gargi. Það dugði síðast, þá hlýtur það að duga líka núna!
 
rtá