Ragna opnar sig um sjúkdóminn: „Ég var hrædd af því ég vissi ekki hvað var að gerast“

Ragna Sólveig Þórðardóttir, 27 ára fjögurra barna móðir sem býr í Reykjavík, opnar sig um sjálfsofnæmissjúkdóminn Alopecia í viðtali við Skessuhorn. Sjúkdómurinn hefur engin áhrif á daglegt líf hennar, en vegna hans misti hún allt hárið.

„Ég byrja að missa hárið eiginlega bara þegar ég hætti á getnaðarvörninni, svo verð ég ólétt mjög fljótlega af Mikael og þá fer eiginlega allt hárið af,“ er haft eftir Rögnu sem segir jafnframt:

„Ég tók í fyrstu eftir þessu þegar ég var að greiða mér eftir sturtu og þá kom svo mikið hár í hárburstann og það var farið að þynnast og þynnast. Ég byrjaði þá að fá stóra skallabletti sem ég reyndi í fyrstu að fela en það gekk mjög erfiðlega því hárið var orðið svo þunnt. Ég hef alltaf verið með mjög þykkt og mikið rautt hár og ég held að það hafi verið svona fjórir mánuðir frá því hárið fór að þynnast þar til það var bara alveg farið.“

Spurð hvort hún hafi ekki orðið hrædd vegna sjúkdómsins segir hún:

„Jú, ég var hrædd af því ég vissi ekki hvað var að gerast og vissi ekki hvort það væri alvarlegt. Það hræddi mig líka oft á tímabili að það kæmi eitthvað fyrir drenginn minn af því mér fannst líkaminn minn vera að bregðast mér og þá var ég hrædd um að líkaminn væri að bregðast honum líka og það myndi hafa áhrif á hann í móðurkviði. Svo fékk ég fljótlega að vita að það var ekki raunin og sjúkdómurinn hafði engin líkamleg áhrif á meðgönguna.“

Eftir að Ragna rakaði af sér allt hárið og setti mynd af sér sköllóttri á samfélagsmiðla hófst umtal um hana. Hún tjáir sig um það:

„Ég fékk mikið af spurningum um hvort ég væri veik og ég skil alveg að það sé það fyrsta sem fólki dettur í hug af því að fólk veit lítið sem ekkert um þennan sjúkdóm en það er alveg hægt að vera sköllóttur án þess að vera í lyfjameðferð. En já ég fékk mikið af spurningum bara sjálf í gegnum samfélagsmiðla og ég held að fólki finnist bara auðvelt að spyrja aðra svona í gegnum símann. Svo var fólkið mitt líka oft spurt hvað væri að hrjá mig.“

Hún segir líka:

„Þetta var alveg óþægilegt en ég var og er samt svo tilbúin að útskýra þetta. Ég vil frekar að fólk spyrji mig út í þetta en að það tali á bakvið mig eins og það sé eitthvað að. Mér fannst eiginlega erfiðara þegar fólk áætlaði að það væri eitthvað meira að hjá mér og spurði mig ekki beint, heldur einhvern annan.“

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni á vef Skessuhorns.