Fjölbreytni í efnistökum er fyrir að fara í neytendaþættinum Heimilinu á Hringbraut í kvöld enda þættinum aldeilis ekkert óviðkomandi þegar kemur að rekstri og viðhaldi heimilisins, svo og sparsemi, nýtni og húsráðum.
Stóra eggjamálið og eftirmál þess eru í forgrunni þáttarins en þar ræðir Linda Blöndal við Rannveigu Guðleifsdóttur hjá vottunarfyrirtækinu Túni um merkingu lífrænnar framleiðslu og hvort neytendur geti eftirleiðis treyst vottun af því tagi. Þá verður rætt við þær stöllur Hönnu Hlíf Baldursdóttur og Katrínu Rut Bessadóttur um nýjustu vegan-bókina á markaðnum sem opnar fólki greiða leið inn í fjölbreytta, bragðgóða og heillandi flóru grænmetis af öllu tagi, en að því viðtali loknu halda þær vinkonur Lukka Pálsdóttir og Þórunn Steinsdóttir áfram umfjöllun sinni um heilsueflandi mat og taka nú fyrir mikilvægi fitu í mataræði fólks. Eyþór Eyjólfsson frá Smith og Norland segir svo áhorfendum frá viðhaldi heimilistækja, að þessu sinni hvernig hægt er að auka líftíma ryksuga, rakatækja og straujbolta, en þar á eftir kíkir fjölskylduráðgjafinn Kári Eyþórsson í heimsókn og ræðir um jólakvíða og jólastreitu. Loks fjallar Birgir Kristjánsson líffræðingur um mikilvægi flokkunar á heimilissorpi og hvað þar má betur fara.
Heimilið er á dagskrá klukkan 20:00 í kvöld í umsjá Sigmundar Ernis og Lindu Blöndal.