Nýju, ungu og reynslulausu verkalýðsleiðtogarnir eru búnir að koma sér í mikil vandræði með yfirlýsingum og stóryrðum sem þeir munu ekki geta staðið við. Þetta gildir ekki síst um Sólveigu Önnu Jónsdóttur og Ragnar Þór Ingólfsson sem hafa viðhaft hótanir og stórar yfirlýsingar sem þau munu engan veginn geta staðið við.
Nú blasir við að þau verði niðurlægð og gerð að aðhlátursefni bæði meðal félaga í verkalýðshreyfingunni og út um allt samfélagið.
Sólveig Anna og Ragnar Þór hafa í allan vetur slegið um sig með fullyrðingum um að þau ætli að semja um tugaprósenta launahækkanir, styttingu vinnutíma bótalaust, stórfelldar skattalækkanir og ívilnanir í húsnæðismálum. Þau hafa fullyrt að ekki verði hikað við að stöðva samfélagið með grimmum verkföllum verði ekki samið á þessum nótum.
En smám saman er að renna upp fyrir reynslulausu og yfirlýsingaglöðu nýliðunum að ekkert af þessu mun ganga eftir og þau munu standa eftir niðurlægð og rúin trausti.
Í fyrsta lagi er að nefna að þau hafa ekki bakland til verkfalla. Fólkið vill ekki verkföll og mun ekki kjósa með þeim.
Í öðru lagi er ljóst að SA ætlar ekki að semja um neina 40% launahækkun heldur að hámarki 4% strax og annað eins eftir eitt og svo tvö ár. Vinnutími verður ekki styttur en einhverjar tilfærslur verða gerðar.
Ríkisstjórnin ætlar ekki að lækka skatta. Hún er reyndar stöðugt að læða inn hækkunum gjalda og skatta. Nýjast er að innleiða vegagjöld. Einhverjar breytingar verða gerðar á sköttum hinna lægst launuðu og þunginn af því færður yfir á millitekjuhópana sem eru stórir. Þessar breytingar munu einkennast af sýndarmennsku til að reyna að stöðva fylgishrun Vinstri grænna sem þegar hafa tapað þriðja hverju atkvæði frá síðustu þingkosningum. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki til viðtals um fjölgun skattþrepa, hækkun fjármagnstekjuskatts eða upptöku auðlegðarskatts að hætti Indriða Þorlákssonar. Við því öllu er sagt þvert NEI.
Eftir stendur ófjármagnaður óskalisti í 40 liðum vegna húsnæðismála. Hann gæti skilað einhverju í framtíðinni. En allur bráðavandi verður óleystur.
Þegar reynslulausu leiðtogarnir hafa verið niðurlægðir innan skamms, fara fram kosningar til stjórnar VR. Þá hljóta félagar VR að nota tækifærið og skipta um formann. Þeir ættu þá að losa sig við Ragnar Þór Ingólfsson og velja einhvern sem skilur raunveruleikann og vill gæta hagsmuna félagsmanna í stað þess að þjóna pólitískum dyntum öfgamanna.