Ráðherraveikin ágerist

Þó enn muni líða nokkur tími þar til Sjálfstæðisflokkurinn lýkur við að mynda nýja ríkisstjórn, eru vangaveltur um ráðherraskipan flokksins þegar komnar á fulla ferð.

Ekki verður vandi hjá flokknum að finna karlkyns ráðherra þar sem helst koma til greina auk formannsins þeir Guðlaugur Þór, Kristján Þór og Haraldur Benediktsson sem leiddi lista flokksins í NV kjördæmi sem bætti við sig þingmanni.

Málið vandast þegar kemur að konunum því Ólöf Nordal er ennþá veik en annars væri hún sjálfsögð. Í þingflokki sjálfstæðismanna eru nú engir kvennskörungar fyrir utan Ólöfu og afar lítil þingreynsla. Unnur Brá Konráðsdóttir hefur þó setið á þingi í tæp 8 ár. Líklegt er að hún verði ráðherra. Flokkurinn ætti að hafa 5 ráðherra í næstu ríkisstjórn og því þyrfti aðra konu til. Og þá hefst vandinn fyrst fyrir alvöru.

Bent er á þann möguleika að sækja konu með stjórnmálareynslu út fyrir þingflokkinn. Dagfari hefur stungið upp á Ragnheiði Ríkharðsdóttur sem hefur allt til að bera sem prýða má öflugan ráðherra. Fleiri hugmyndir hafa fengið vængi, sumar þeirra hreint grín að því er virðist. Þannig kom fram í Sandkorni DV hugmynd um að Svanhildur Valsdóttir, fyrrum sjónvarpsþula og núverandi aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, yrði gerð að ráðherra.

Það rifjar upp söguna af því þegar Kaligula gerði hestinn sinn að senator.

Nýjasta hugmyndin er sú að Hanna Birna Kristjánsdóttir verði ráðherra - eftir allt sem á undan er gengið. Hún hefur þó víðtæka pólitíska reynslu.
Hefur reyndar aldrei verið sjónvarpsþula.

Verði Hanna Birna gerð að ráðherra í þeirri neyð sem Sjálfstæðisflokkurinn er í, hlyti það að teljast vera endurkoma aldarinnar.

Eða jafnvel bara kaldhæðni örlaganna.